Í síðasta mánuði var Einar Jónsson ráðinn þjálfari Selfoss sem leikur í 2.deildinni. Einar á langan feril að baki sem leikmaður og þjálfari en hann er nú að taka við þjálfun meistaraflokks hjá félaginu í fjórða sinn. Sem leikmaður lék hann 386 leiki fyrir Selfyssinga og hefur einnig þjálfað yngri flokka félagsins.
Fótbolti.net gerði sér ferð á Selfoss í vikkunni og átti þar gott spjall við Einar en hann tekur við af Gústafi Adolfi Björnssyni sem er tekinn við þjálfun Hauka í 1.deild.
Einar þekkir fótboltann á Selfossi vel og við ræddum við hann um fortíðina og framtíðina en hann er óhræddur við að segja að markmið næsta sumars sé að vinna sér sæti í 1.deild á nýjan leik en Selfyssingar hafa verið í fjöldamörg ár í C-deildinni. Í ár lentu þeir í fimmta sæti.
Hver er Einar Jónsson?
Ég tel mig vera Selfyssing í gegn. Ég er reyndar fæddur í Reykjavík og átti heima þar fyrstu fjögur árin. Ég hef síðan 1967 verið í kringum fótboltann hér á Selfossi og reyndar víðar. Hér fór ég í gegnum yngri flokkana og spilaði með meistaraflokki í tuttugu ár þar sem ég var fyrirliði í fjöldamörg ár.
Reyndar spilaði ég eitt tímabil í efstu deild með Ísfirðingum 1982 á gullaldartímabili fótboltans á Ísafirði. Svo hef ég verið að þjálfa síðan um 1977, ég þjálfaði Ægi Þorlákshöfn í þrjú ár. Ég tók fyrst við Selfossi á miðju tímabili 1992 og náði að stýra því frá falli.
Ég þjálfaði liðið síðan 1995-97 og tók síðan aftur við því 1998 og var árið á eftir. Ég er því eiginlega að taka við liðinu í fjórða sinn núna. Svo hef ég einnig setið hérna í stjórn og hef síðustu tvö ár þjálfað 2.flokk. Þannig að það er ekki annað hægt að segja en að ég hafi aðeins komið við þetta!
Við erum búnir að vera alltof lengi í þessari deild. Selfoss er meðal leikjahæstu liða í deildinni fyrir ofan (B-deild), þar spilaði ég lungan af mínu tímabili. Við féllum 1994 og höfum síðan verið í þessari deild.
Ertu búinn að setja þér markmið fyrir næsta sumar?
Ég væri ekki að taka þetta að mér nema ég ætti mér eitt markmið, það er að fara með liðið upp. Ef ég segði annað ætti ég ekki að vera í þessu.
Verða miklar breytingar frá því í sumar?
Bretarnir frá því í fyrra eru farnir og svo eru félög hérna sem virðast ekki getað haldið uppi unglingastarfi og reyna að kroppa frá næstu liðum. Það eru lið sem telja sig vera stórklúbba en eru það greinilega ekki. Ómar Valdimarsson er hættur en ég vona að hann taki skynsama ákvörðun þegar það fer að vora!
Það eru félög að reyna að taka okkar stráka og það er spurning hvor við náum að hanga á þeim. Það er alveg ljóst að ef við missum heimamennina þá náum við ekki þeim markmiðum sem ég hef sett mér. Við náum þeim aldrei nema við höldum okkar strákum og bætum síðan ofan á það.
Ef ég tel þess þurfa þá mun ég gera það. Íslenskir leikmenn eru reyndar alltof dýrir og ég ætla ekki að fara að kaupa fótboltamenn, við höfum ekki efni á því. Þá er betra að reyna að ná í einhverja sem eru tilbúnir að koma og fara að vinna.
Það voru einhverjir sænskir leikmenn orðaðir við liðið fyrir þetta sumar?
Það er rétt og það er alveg möguleiki á að það verði endurvakið. Einn mikill Selfyssingur er að þjálfa unglingalið í Svíþjóð og út frá því fór þetta að spinnast. Það er allt opið í því en helst vil ég nota þessa stráka sem fyrir eru. Ef ég missi þá þarf að bregðast við því.
Hvernig er aðstaða til knattspyrnuiðkunar á Selfossi?
Aðstaðan er búin að vera hreint út sagt ömurleg í einu orði sagt. Við höfum verið að keyra til Þorlákshafnar, Reykjavíkur og jafnvel til Keflavíkur á æfingar.
Er mikill fótboltaáhugi á Selfossi?
Áhuginn fyrir fótbolta hérna er mjög mikill, Árborg er víst með fótboltalið hérna líka og svo er utandeildarkeppni hérna á sumrin. Mér er sagt að þar séu um tólf lið sem taka þátt frá þessu svæði. Arsenal-klúbburinn á rætur hérna og formaður Chelsea-klúbbsins er Selfyssingur.
Það hefur hinsvegar verið erfitt að fá fólk til að starfa við klúbbinn en það hefur reyndar verið vakning hvað það varðar. Það er búið að stofna stuðningsmannaklúbb sem samanstendur af um hundrað manns sem borga ákveðna upphæð á mánuði. Það er mikil hjálp í því. Hinsvegar er erfitt að fá fólk til að starfa í kringum félagið en það er ekkert vandamál í yngri flokkunum.
Voru það vonbrigði að ná ekki að blanda sér af neinu viti í toppbaráttuna í sumar?
Já að sjálfsögðu. Breiddin í liðinu var bara ekki nægileg, við byrjuðum vel en síðan um leið og menn fóru að hellast úr lestinni þá fór að halla undan fæti. Það eru alltaf einhver leikbönn og meiðsli sem koma upp. Ég er búinn að trúa því í langan tíma að liðið fari upp um deild og á þá von í brjósti.
-egm, -dg
Athugasemdir