Margir erlendir leikmenn hafa leikið í efstu deild hér á landi undanfarin ár. Við á Fótbolti.net tókum okkur til og reyndum að finna hvar leikmenn sem léku á sínum tíma í íslensku deildinni væru niðurkomnir í dag.
Alls munu verða tveir hlutar um þessa leikmenn sem léku hér á landi og birtist fyrri hlutinn í dag en hér að neðan eru leikmenn sem léku á Íslandi einhverntímann á tímabilinu 1998-2002.
Jens Martin Knudsen (Leiftur) Jens Martin Knudsen er einn af skrautlegri markvörðum sem leikið hefur hér á landi en hann spilaði með Leiftri og þjálfaði liðið einnig um tíma. Þrátt fyrir að vera orðinn 38 ára er Jens ennþá í færeyska landsliðinu en hann leikur nú með NSÍ Runavík í heimalandinu.
Max Peltonen (Leiftur) Peltonen lék með Leiftri árið 1999 en hann leikur nú með Vasa IFK í heimalandinu.
Sergio Ommel í leik með Bristol gegn Derby |
David Winnie (KR) Lék með KR frá 1998-2000 og var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins árið 1998. Eftir að hafa þjálfað KR árið 2001 tók hann við skoska liðinu Dumbarton og stýrði því 2002-2003. Samkvæmt því sem við komumst næst er Winnie ekki að þjálfa neitt lið í dag.
Andy Roddie (KR) Þessi skoski miðjumaður lék með KR sumarið 2001 og skoraði tvö mörk í níu deildarleikjum. Eftir að hafa leikið með Peterhead og Arbroath í heimalandinu spilaði hann með Elgin City í skosku þriðju deildinni á síðasta tímabili.
Dean Holden er hér í leik með Bolton að tækla leikmann Charlton |
Allan Mörköre (ÍBV) Færeyski varnarmaðurinn Allan Mörköre lék 14 deildarleiki og skoraði eitt mark með ÍBV árið 1999. Hann kom svo aftur til Eyja sumarið 2000 og lék þá 8 deildarleiki og skoraði í þeim þrjú mörk. Mörköre hefur leikið með B 36 í heimalandi sínu undanfarin ár auk þess að starfa sem námsfræðingur í Færeyjum. B36 varð færeyskur meistari á dögunum en liðið sló ÍBV einmitt út úr Evrópukeppni Félagsliða í sumar.
Moussa Dagnogo (KR) Franski sóknarmaðurinn Moussa Dagnogo spilaði með KR árið 2001 en hann þótti slakur og var látinn fara um mitt sumar eftir að hafa aðeins skorað eitt mark í tíu deildarleikjum. Síðast fréttist af Dagnogo í Bandaríkjunum þar sem hann var að slá í gegn með Indiana Blast. Hann hefur einnig leikið með liðum í Skotlandi, Englandi og Portúgal en hann var látinn fara frá skoska liðinu St. Mirren eftir að hafa þóst vera meiddur og ekki geta spilað.
Jens Paeslack (í rauðu) er hér í baráttunni |
Jens Paeslack (ÍBV) Þessi sköllótti sóknarmaður frá Þýskalandi lék fjórtán deildarleiki með ÍBV árið 1998 og skoraði í þeim fjögur mörk. Paeslack hefur komið víða við og meðal annars leikið í Skotlandi, Kýpur og í heimalandi sínu. Hugarfar hans hefur þótt skrýtið og meðal annars rændi hann armbandsúrum og fleiru haf liðsfélögum sínum hjá St. Mirren á sínum tíma. Ekki er vitað hvar Paeslack leikur núna en hann lék með Sachsen Leipzig í heimalandi sínu á síðustu leiktíð.
Marc Goodfellow (ÍBV) Sóknarmaðurinn Marc Goodfellow var á láni hjá ÍBV sumarið 2001 frá Stoke City og lék hann 5 deildarleki með Eyjamönnum. Hann hefur leikið í neðri deildunum á Englandi undanfarin ár með liðum eins og Port Vale, Colchester, Bristol City og nú er hann á mála hjá Swansea sem leikur í ensku annarri deildinni.
Marc Goodfellow í leik með Stoke |
Valdas Trakys (FH) Þessi framherji frá Litháen Litháen lék með FH sumarið 2002 og skoraði tvö mörk í sex deildarleikjum. Frá FH fór Trakys til reynslu hjá Perugia á Ítalíu en síðan þá hefur hann meðal annars leikið með SpVgg Greuther Fürth og VfL Osnabrück í Þýskalandi en í dag leikur hann með Atlantas í heimalandi sínu.
Marcel Oerlemans (Fram) Hollenski kantmaðurinn Marcel Oerlemans lék með Fram árið 1999 en hann hefur nú lagt skóna á hilluna. Þessi 36 ára leikmaður spilaði meðal annars með austuríska liðinu SV Oberwart og FC Türkyemspor í heimalandinu áður en hann hætti.
Maikel Renfurm (KR) Þessi hollenski sóknarmaður lék sjö leiki með KR árið 2000. Hann hefur komið víða við eftir það og meðal annars leikið með Herfölge í Danmörku, LR Ahlen í Þýskalandi, Spörtu Rotterdam í heimalandinu og Saint Mirren í Skotlandi.
Athugasemdir