Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   mið 22. mars 2006 02:00
Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Heiðar Þorvaldsson í einkaviðtali
Gunnar Heiðar í leik með íslenska landsliðinu.
Gunnar Heiðar í leik með íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Eyjapeyjinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson gekk í gær í raðir þýska félagsins Hannover sem leikur í Bundesligunni þar í landi en hann var markakóngur í sænsku deildinni á síðustu leiktíð er hann lék með Halmstad þar sem hann verður til 1. júlí.

Magnús Már Einarsson fréttamaður Fótbolta.net heyrði í Gunnari Heiðari í gærkvöld er hann var á leið til Svíþjóðar eftir að hafa farið í læknisskoðun og skrifað undir samninginn við Hannover.

,,Ég er búinn að kynna mér félagið rosalega mikið og það var ein af ástæðum þess að ég valdi þennan klúbb fyrir utan alla aðra," sagði Gunnar Heiðar við Fótbolta.net í gærkvöld.  ,,Mér leist mjög vel á aðstæður, glænýr völlur, góður þjálfari og ungt lið. Þetta er bara draumur. Þeir eru að gera sér vonir um að komast í Evrópukeppni og það væri ekki leiðinlegt að spila með þeim í Evrópukeppni strax á fyrsta ári."

Gunnar Heiðar fór í læknisskoðun hjá Hannover í gær og tók þá smá túr um aðstæður félagsins.  Hann hitti hinsvegar ekki aðra leikmenn liðsins eða stuðningsmenn enda hafði komu hans verið haldið mjög vel leyndri þar til hann mætti.  Þó félagaskiptin til Hannover hafi komið snöggt upp var Gunnar Heiðar búinn að gera upp við sig að hann langaði í þýsku deildina.

,,Ég sagði Óla Garðars [umboðsmaður Gunnars] mjög snemma að ég hefði mjög mikinn áhuga á Bundesligunni," útskýrir Gunnar Heiðar. 

Gunnar Heiðar í landsleik með Íslandi gegn Króatíu í fyrra

Í leik með Halmstad gegn þýska liðinu Hertha Berlin.

Stekkur manna hæst í leik með landsliðinu.

Í viðtali við blaðamann eftir landsleik.

Á landsliðsæfingu

,,Ég held að það að fara í þetta Hannover lið sé mjög gott s tökk fyrir mig á mínum ferli og þetta er ekki of sterkt lið og ekki of lítið heldur.  Ég er ótrúlega sáttur við þetta og fæ þarna alveg frábæran samning svo þetta er alveg frábært. "

Gunnar Heiðar er með þessum félagaskiptum að stíga stórt skref og er kominn í hóp okkar helstu atvinnumanna.   Við spurðum hann að því hvort launin hækkuðu ekki mikið og hvort hann væri orðinn einn af launahæstu knattspyrnumönnum Íslands.

,,Alveg gríðarlega get ég sagt þér," segir Gunnar Heiðar um hvort launin hækki.  ,,Ég veit ekkert hvað hinir eru með en get sagt þér að ég er ótrúlega sáttur við þennan samning og held að við getum verið mjög sáttir við þennan samning," bætti hann við en Ólafur Garðarsson umboðsmaður hans aðstoðaði hann við að klára samningamálin.

,,Ég hef alltaf verið svolítið spenntur fyrir þýska boltanum. Þegar ég var yngri voru Eyjólfur Sverrisson og Ásgeir Sigurvinsson að spila í Þýskalandi og auðvitað fylgdist ég vel með þeim. Punkturinn yfir i-ið var þegar við spiluðum á móti U-21 árs landsliði þeirra.  Þá kolféll ég fyrir boltanum sem þeir voru að spila. Ég held að hann henti mínum leikstíl rosalega vel. Ég er ótrúlega sáttur við þetta og bíð spenntur eftir verkefninu með þeim. En nú er næst að klára þessa níu leiki sem eftir eru með Halmstad áður en ég fer til Hannover. "

,,Ég held að þetta lið hafi passað mér rosalega vel. Þetta er ungt lið á uppleið og ætlar sér rosalega hluti á næstu árum og eru búnir að fá glænýjan völl sem er alveg frábær. Tekur 50 þúsund manns. Þetta er algjör draumur. "

Heimsmeistaramótið fer fram í Þýskalandi næsta sumar en Gunnar Heiðar á að koma til Hannover í byrjun júlí þegar mótinu er að ljúka.  Við spurðum hann hvort hann ætli ekki samt að reyna að sjá einhverja af leikjum HM?

,,Jú maður reynir að gera það eins og maður getur. Það verður einmitt spilað á þessum velli á HM svo kannski fær maður nokkra miða á leikina."

Hjá Halmstad eru nokkrir sterkir leikmenn eins og Michael Tarnat og Per Mertesacker sem hefur verði í þýska landsliðinu.  Í framlínunni þarf Gunnar að berjast við leikmenn eins og Thomas Brdaric, Thomas Christiansen og Vahid Hashemian sem hafa verið að standa sig vel í Þýskalandi.  Gunnar óttast samkeppnina hinsvegar ekkert.

,,Alls ekki, ef ég væri eitthvað hræddur við það þá hefði ég bara ekki skrifað undir samning við þetta lið, það er alveg ljóst," segir hann.  ,,Og ég er ekki að skrifa undir samning við þetta lið til að fara á bekkinn. En ég veit að það tekur allt sinn tíma og maður sér eins og með Halmstad að það tók nokkra mánuði að komast inn í þetta."

,,En ef maður er þolinmóður og reynir að læra eitthvað nýtt á hverjum degi og komast betur inn í málið og leikstílinn hjá liðinu þá vona ég að þessi sprengja sem hefur verið síðasta árið haldi áfram hjá mér."

Gunnar Heiðar hefur glímt við meiðsli upp á síðkastið og gengur því ekki alveg heill til skógar.  Hann meiddist illa í lok tímabilsins í sænsku deildinni og þegar hann sneri aftur í æfingaleik með Halmstad í febrúar þar sem hann meiddist í leik sem var spilaður á möl og í snjókomu.  Hann hefur verið að ná sér aftur og skoraði glæsimark með hjólhestaspyrnu fyrir viku síðan og meiddist svo lítillega í leik um helgina.

,,Ég fékk hné í síðuna tvisvar á sama stað. Ég veit ekki hversu miklar líkur eru á því en ég var einstaklega óheppinn að lenda í því. Og það var ekki gott," sagði Gunnar um meiðslin en þau höfðu þó engin áhrif á læknisskoðunina hjá Hannover í gær.

,,Þetta er allt í lagi, það hrjáði mig smá í læknisskoðuninni í morgun en ég lét þá ekkert vita af því, ég bara beit á jaxlinn og hélt áfram þegar ég var að hjóla þarna á fullu. Þeir voru ótrúlega sáttir við hvað ég var í góðu formi og sögðu að ég væri einn af þeim betri í liðinu, ég væri í hrikalegu formi. "

Gunnar Heiðar er að taka stór skref en skömmu eftir að  hann gekk í raðir Halmstad í Svíþjóð frá ÍBV undir lok tímabilsins hér á landi sumarið 2004 varð ljóst að hann var markakóngur í Landsbankadeildinni það ár.   Á sínu fyrsta heila  ári hjá Halmstad 2005 varð hann svo markahæsti leikmaður sænsku deildarinnar og nú liggur leiðin í Þýsku Bundesliguna sem er ein af sterkustu deildum heims.

,,Ég held að þetta lið sé mjög gott fyrir mig sem næsta skref frá Halmstad. Svo sjáum við til hvernig gengur hjá Hannover. Ef það gæfist eitthvað annað stærra tækifæri þá er það frábært en annars er ég mjög sáttur þar og reyni að gera mitt besta og halda mér í liðinu og reyna að bæta ofan á það sem ég hef verið að læra síðasta eitt og hálfa árið. Svo væri gott að komast í landsliðið í leiðinni."

Okkur lék forvitni á að vita hvort ekki væri sett stefnan á að taka markakóngstitilinn í Þýsku Bundesligunni líka og Gunnar Heiðar svaraði: ,,Jú verður maður ekki að stefna á hann þegar maður mætir þarna. Í byrjun tekur samt tíma að venjast þessu öllu og komast inn í leikstílinn og tungumálið."

Hinn fimmtugi Peter Neururer er þjálfari Hannover en hann tók við liðinu í nóvember og hefur náð frábærum árangri.  Hann þykir skemmtilegur persónuleiki með mikið sjálfstraust og Gunnar líkaði vel við hann.

,,Alveg frábærlega, ég talaði við hann í dag og mér líst mjög vel á það sem hann sagði við mig og er að pæla. Hann er ekkert smeykur við að stilla upp í 4-3-3 með þrjá sentera frammi. Það eru spennandi tímar framundan," sagði Gunnar Heiðar en að lokum sagði hann okkur að hann óttaðist ekki þýskuna

,,Ég er búinn að taka smá þýsku í framhaldsskóla og er kominn með smá grunn. Ég skildi alveg hvað þeir voru að tala í dag," sagði þessi magnaði framherji að lokum í samtali við Fótbolta.net.


Athugasemdir
banner
banner
banner