Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mán 24. apríl 2006 06:00
Hafliði Breiðfjörð
Umdeildur bolti í Landsbankadeildinni
Tryggvi Guðmundsson framherji FH hóf umræðuna um boltann í útvarpsþættinum Mín skoðun með Valtý Birni á XFM. Hér er mynd af honum með boltann umdeilda á sumardaginn fyrsta.
Tryggvi Guðmundsson framherji FH hóf umræðuna um boltann í útvarpsþættinum Mín skoðun með Valtý Birni á XFM. Hér er mynd af honum með boltann umdeilda á sumardaginn fyrsta.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Leikmenn Landsbankadeildarinnar eru ekki á sama máli um nýjan bolta sem notaður verður í deildinni í sumar en í ár mun verða leikið með alveg eins bolta í öllum leikjum mótsins.

Tryggvi Guðmundsson framherji FH hóf umræðuna um þetta mál í útvarpsþættinum Mín skoðun með Valtý Birni á útvarpsstöðinni XFM í síðustu viku og við hér á Fótbolta.net ákváðum að skoða málið nánar og höfðum samband við KSÍ og sextán leikmenn sem leika í deildinni en skoðanir þeirra má sjá í annarri frétt hér á síðunni.

Félögin í deildinni hafa að undanförnu verið með nokkra bolta hvert til æfinga og mátti sjá leikið með hann í deildabikarnum fyrir helgi. Við höfðum samband við Ómar Smárason hjá Knattspyrnusambandi Íslands, KSÍ, og hann tjáði okkur að sambandið hafi leitað eftir tilboðum frá öllum helstu umboðsaðilum hér á landi og bárust þeim 12 tilboð (12 tegundir af boltum) frá 5 aðilum.

Ákveðið var að velja Mitre Pro 100T bolta, sem er FIFA Approved en ákvörðunin var tekin í samstarfi KSÍ, Samtaka félaga í efstu deild (SED) og Landsbankans, en það er Landsbankinn sem kostar verkefnið. SED samþykktu þennan knött og hann var síðan endanlega samþykktur á fundi formanna og framkvæmdastjóra félaga í Landsbankadeild karla í Vestmannaeyjum síðastliðið haust.

,,Þetta er opinber knöttur enska knattspyrnusambandsins," sagði Ómar Smárason í samtali við Fótbolta.net. ,,Leikið er með þennan knött í þremur af fjórum deildum ensku deildarkeppninnar (Championship, 1st division og 2nd division) og í ensku bikarkeppninni (FA cup), auk þess sem enska landsliðið leikur með þennan knött. Einnig er leikið með svona knött í skosku úrvalsdeildinni (SPL), írsku úrvalsdeildinni og víðar. Á Íslandi verður leikið með þennan knött í öllum leikjum Landsbankadeilda karla og kvenna."

Á hverjum knetti verða prentuð merki Landsbankadeildarinnar og KSÍ. Um er að ræða framleiðslu á knöttum með merkjunum tveimur á, þannig að gæði og ending prentunar eru tryggð. Hvert félag sem á lið í Landsbankadeild fær 100 knetti án endurgjalds, sem hlýtur að teljast mikill fengur fyrir félögin.

Eins og áður sagði gagnrýndi Tryggvi Guðmundsson, markakóngur Landsbankadeildarinnar í fyrra, boltann harðlega á dögunum og eftir samtöl okkar við leikmenn deildarinnar er ljóst að fleiri eru ósáttir. Við spurðum Ómar hvort þessi gagnrýni gæti orðið til þess að annar bolti yrði notaður í sumar?

,,Þessa gagnrýni hef ég ekki heyrt um og það kemur ekki til greina að hætta við að nota hann eða skipta um knött. Almennt séð eru félögin mjög ánægð með knöttinn, þó ekki sé alltaf hægt að gera öllum til hæfis. Það hlýtur að vera kostur fyrir liðin að leikið sé með sama knött á öllum völlum í deildinni," sagði hann og hélt áfram.

,,Ef enska landsliðið með Frank Lampard, David Beckham og Steven Gerrard innanborðs getur leikið með þennan knött gegn Argentínu og Brasilíu, þá hljótum við að geta leikið með hann líka. Ef Íslendingaliðin Reading, Leeds og Stoke gátu leikið með þennan knött í ensku Championship deildinni, þá getum við það líka."

,,Ef Manchester United tókst að skora fjögur mörk hjá Wigan í úrslitaleik ensku deildarbikarkeppninnar með þessum knetti, þá hljóta okkar leikmenn að geta skorað með honum líka."

,,Það vita einfaldlega allir sem einhvern tímann hafa leikið knattspyrnu, hvort sem er í meistaraflokki eða yngri flokkum, karla- eða kvennaflokki, í Landsbankadeild eða 3. deild, að maður venst alltaf boltanum sem maður æfir og spilar með, og þegar maður hefur æft með ákveðna tegund af bolta í ákveðinn tíma, þá vill maður helst enga aðra tegund."

,, Það hljóta líka allir að gera sér grein fyrir því að það sé kostur að vita til þess að maður komi til með að leika með sama knött í öllum leikjum deildarinnar, hvort sem er á heima- eða útivelli, þ.e. sama knött og maður æfir með á hverjum degi."


Eins og kemur fram í skoðunum leikmanna eru allir 16 sem við ræddum við á sama máli um að hugmyndin sé góð að hafa einn bolta sem er sameiginlegur fyrir alla leiki deildarinnar. Ómar hélt áfram.

,,Sérstakur Landsbankadeildarknöttur mun enn frekar styrkja ímynd Landsbankadeildanna og vörumerkið Landsbankadeild í knattspyrnu og er í takt við það sem gert er í atvinnu- og hálfatvinnumannadeildum víðs vegar um Evrópu.
Sóknartækifærin eru mörg, þar sem slíkur knöttur mun nýtast vel í enn betra markaðs- og kynningarstarfi deildanna, hvort sem um er að ræða hjá Landsbankanum, KSÍ eða félögunum sjálfum."

,,Þetta er alveg nýtt dæmi í íslenskri knattspyrnu, þ.e. að leikið sé með sérstakan knött í efstu deild, og hefur aldrei verið gert áður hér á landi.  Það er einfaldlega ekkert nema gott um þetta verkefni að segja. Þetta eflir félögin og Landsbankadeildina. Það er Landsbankinn sem gerir þetta verkefni mögulegt með því að kosta knettina og fyrir það ber að þakka."




Sjá skoðanir leikmannana
Athugasemdir
banner
banner
banner