Heimild: Heimasíða KA
Leikmenn meistaraflokks KA í knattspyrnu lék sér að því helgi eina í októbermánuði að landa 700 tonnum af karfa úr stóru skipi í eigu Samherja. Var um hluta af fjáröflun að ræða fyrir leikmenn liðsins sem ætla sér í æfingaferð erlendis um næstu páska.
Löndunin felur í sér að bera kassa af frosnum fisknum í land og raða honum á bretti. Þau eru síðan plöstuð og komið fyrir í geymslu.
Á heimasíðu KA er sagt frá því að leikmenn hafi unnið frá átta að morgni til 18.30 fyrri daginn en frá sex til sex síðari daginn. Þar kemur einnig fram að allt hafi gengið vel en á síðunni má sjá myndasyrpu frá lönduninni miklu og má nálgast hana á heimasíðu norðanliðsins.
Algengt er að leikmenn taki saman höndum við fjáröflun til æfingaferðanna sem þeir verða oft á tíðum að borga sjálfir að öllum eða stórum hluta.
Athugasemdir