Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   mán 30. apríl 2007 08:01
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 12.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Jón Örvar Arason
Mynd: Fótbolti.net - Jón Örvar Arason
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Guðmundur Karl
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tólfta sætinu í þessari spá voru nýliðar Reynis frá Sandgerði sem fengu 46 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Reynisliðið.


Reynir Sandgerði
Búningar: Hvít treyja, Bláar buxur, Hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.reynir.is

Það er erfitt tímabil framundan hjá nýliðunum í Reyni Sandgerði sem komst upp úr 2. deildinni á síðustu leiktíð. Aðeins eitt lið fellur úr 1. deildinni í sumar og spá þjálfarar og fyrirliðar því að það verði Reynismenn sem munu kveðja deildina. Það hefur gott starf verið unnið í Sandgerði síðustu ár en félagið var þó fast í 3. deildinni í átta ár.

Sumarið 2005 tókst liðinu loks að komast upp í 2. deildina þar sem þeir komu mjög á óvart og sigldu beint upp í 1. deild eftir að hafa verið spáð áttunda sætinu fyrir tímabilið. Reynir tók þriðja sætið en var þó rúmum tíu stigum frá liðinu í öðru sæti.

Það er spurning hvort Reynismenn komi aftur á óvart í sumar og nái að forðast fallbaráttuna. Það er ekki margt sem bendir til þess að það takist. Stemningin fyrir liðinu í Sandgerði er mjög góð og mikil tilhlökkun sem ríkir fyrir þessu verkefni að leika í 1. deildinni. Ef Reynismenn bjarga sér frá falli mun þessi þáttur spila þar stórt hlutverk. Þjálfarar liðsins þurfa að kalla fram baráttuandann í leikmönnum og þá getur allt gerst.

Gunnar Oddsson stýrði liðinu upp um tvær deildir á tveimur árum en hann hvarf á braut eftir tímabilið og tók við liði Þróttar. Hann tók með sér tvo leikmenn frá Reyni og þeirra verður sárt saknað. Adolf Sveinsson sem skoraði þrettán af 37 mörkum Reynis í 2. deildinni og varnar- og miðjumanninn unga Ólaf Þór Berry. Þá fór varnarmaðurinn Gunnar Davíð Gunnarsson í Aftureldingu en hann er búsettur í Mosfellsbæ. Þetta er mikil blóðtaka fyrir lið Reynis.

Markvörðurinn Cristopher McCluskey fór einnig frá liðinu en í hans stað er kominn unglingalandsliðsmarkvörðurinn Atli Jónasson á lánssamningi frá KR. Atli er einn efnilegasti markvörður landsins og mun hann öðlast mikla reynslu í sumar enda má búast við því að hann muni hafa nóg að gera. Reynismenn hafa fengið liðsstyrk í þremur bandarískum leikmönnum og verður fróðlegt að sjá hvernig þeim mun ganga. Gengi Reynis gæti mikið ráðist á þeim.

Styrkleikar: Reynir hefur duglega leikmenn innanborðs og með baráttugleði og samstöðu gæti liðið halað inn stig. Mikill áhugi er fyrir liðinu í bæjarfélaginu og sú stemning sem ríkir þar fyrir sumrinu er liðinu mikilvæg. Ef sá áhugi berst einnig inn á völlinn gætu Reynismenn komið á óvart líkt og í fyrra.

Veikleikar: Það má ekki mikið út af bregða. Reyni skortir breidd og liðið gæti lent í miklu basli ef meiðsli herja á hópinn og ef lykilmenn verða frá. Leikmenn sem spiluðu stórt hlutverk í fyrra hafa horfið á braut og spurning hvernig liðið nær að höndla það. Ef liðið byrjar illa gæti það aldrei náð að jafna sig á því.

Þjálfarar: Jakob Már Jónharðsson og Ragnar Steinarsson. Jakob og Ragnar fengu það verkefni að taka við búinu af Gunnari Oddssyni en þeir eru báðir fæddir 1971. Jakob er uppalinn hjá Reyni þar sem hann lék ungur sinn fyrsta meistaraflokksleik. Einnig hefur hann leikið með Keflavík og Val hér á landi og þá var á sínum tíma aðstoðarþjálfari hjá Keflavík. Ragnar lék einnig á sínum tíma með Keflavík. Þeir eru ekki með mjög mikla reynslu af þjálfun á þessum styrkleika og þeirra bíður erfitt verkefni í sumar að viðhalda uppganginum í Sandgerði.

Lykilmenn: Atli Jónasson, Hafsteinn Rúnar Helgason og Guðmundur Gísli Gunnarsson.


Komnir: Anton Ingi Sigurðsson frá FH (lán), Aron Örn Reynisson frá Keflavík, Atli Jónasson frá KR (lán), Jóhann Magni Jóhannsson frá Framherjum, Pétur Þór Jaidee frá Keflavík, Sigurður Freyr Helgason frá Keflavík, Sigurður Gunnar Sigurðsson frá Keflavík, Salvador Benitez frá Bandaríkjunum, Michael Brown frá Bandaríkjunum, Shawn Dixon frá Bandaríkjunum.

Farnir: Adolf Sveinsson í Þrótt, Christopher McCluskey í Aftureldingu, Darko Milojkovic til Serbíu, Davíð Örn Hallgrímsson í Keflavík, Gunnar Davíð Gunnarsson í Aftureldingu, Oddur Björnsson í Álftanes, Ólafur Þór Berry í Þrótt.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. Reynir Sandgerði
Athugasemdir
banner
banner
banner