Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   þri 01. maí 2007 08:01
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 11.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Jón Steinarr
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í ellefta sætinu í þessari spá var Víkingur Ólafsvík sem fengu 47 stig af 242 mögulegum og vor því stigi á undan Reyni Sandgerði. Kíkjum á umfjöllun okkar um Víking.


Víkingur Ólafsvík
Búningar: Gul treyja, gular buxur, gulir sokkar.
Heimasíða: http://vikingur.vdsl.is/

Ólafsvíkingar voru í fallbaráttu 1. deildarinnar í fyrra og samkvæmt spá Fótbolta.net verður það sama uppi á teningnum í ár. Víkingar verða í harðri baráttu við Reynismenn á botninum og mun sú staðreynd að aðeins eitt lið fellur úr deildinni koma í veg fyrir að þeir leiki í 2. deild 2008 ef þessi spá verður að veruleika. Víkingar hafa ekki litið vel út á undirbúningstímabilinu og allt sem bendir til þess að þeir verði í basli í sumar.

Liðið er frægt fyrir öflugan varnarleik en sóknarleikur þess hefur þó ekki verið mjög bitmikill. Í fyrra skoraði liðið ásamt Þór fæst mörk allra liða í deildinni. Erlendir leikmenn hafa verið fyrirferðamiklir hjá Víkingum en sjö erlendir leikmenn léku með þeim í 1. deildinni í fyrra. Ekki getur talist ólíklegt að Víkingar eigi eftir að fá einhverja nýja erlenda leikmenn á seinustu dögunum fyrir mót en það er alltaf ákveðið happdrætti hverju það skilar.

Víkingar hafa misst einn af sínum sterkustu mönnum en varnarjaxlinn Elinbergur Sveinsson sem bar fyrirliðabandið hjá liðinu er kominn í Breiðholtið og hefur gengið til liðs við Leikni. Það er mikill missir fyrir Víkinga þar sem Elinbergur hefur spilað lykilhlutverk í sterkri vörn liðsins. Annars hefur veturinn verið frekar rólegur í leikmannamálum félagsins en það hefur þó fengið lánsmenn frá úrvalsdeildarliðum sem munu leika á Ólafsvík í sumar.

Víkingum vantar sárlega markaskorara í sitt lið en markahæstur hjá liðinu í fyrra var Ellert Hreinsson sem gerði fjögur mörk í tíu leikjum í 1. deildinni. Hann var lánaður til Víkinga frá Breiðabliki en er nú kominn aftur í Kópavoginn.

Styrkleikar: Það er aldrei auðvelt fyrir lið að heimsækja völlinn á Ólafsvík sem er mikil gryfja. Víkingar eru gríðarlega skipulagðir og með mjög samstillta vörn ásamt því að markvörður liðsins er sterkur. Leikaðferð liðsins snýst um að verjast vel og reyna að refsa andstæðingunum um leið og þeir gefa færi á sér. Þannig hefur liðið leikið með mjög góðum árangri undanfarin ár og verður væntanlega engin breyting þar á.

Veikleikar: Leikmannahópur liðsins er frekar þunnur og nokkrir kornungir leikmenn sem eru óreyndir verið að spila stórt hlutverk á undirbúningstímabilinu. Víkingum vantar styrkingu framar á vellinum en liðið hefur engan afgerandi markaskorara. Mikið mun mæða á lykilmönnum liðsins og ef þeir bregðast eru Víkingar í slæmum málum.

Þjálfari: Ejub Purisevic. Hefur þjálfað Víkingsliðið í fimm ár og þekkir liðið því eins og handarbakið á sér. Hann hefur stýrt liðinu upp um tvær deildir og er nú að reyna að festa það í sessi í 1. deildinni. Er vægast sagt mjög varnarsinnaður þjálfari og nánast allir leikmenn á vellinum hafa varnarskyldum að gegna. Hann spilaði einnig með Víkingsliðinu en er nú bara að einbeita sér að því að þjálfa það.

Lykilmenn: Einar Hjörleifsson, Dalibor Nedic og Helgi Reynir Guðmundsson.

Komnir: Brynjar Kristmundsson frá Grundarfirði, Heimir Þór Ásgeirsson frá Grundarfirði, Hjörvar Hermannsson frá Breiðabliki (lán), Sigurður Víðisson frá HK (lán), Steinar Már Ragnarsson frá Snæfelli, Þorsteinn Már Ragnarsson frá Snæfelli, Jón Pétur Pétursson kominn heim úr námi.

Farnir: Adis Sjerotanovic til Bosníu, Elinbergur Sveinsson til Leiknis, Sivko Aljosa til Slóveníu, Slavisa Mitic til Víðis, Þór Steinar Ólafs til Breiðabliks.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. Víkingur Ólafsvík 47 stig
12. Reynir Sandgerði 46 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner