Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   mið 02. maí 2007 08:01
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 10.sæti
Mynd: Leiknir.com - Matthías Ægisson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Jón Steinarr
Mynd: Matthías Ægisson
Mynd: Fótbolti.net - Jón Steinarr
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tíunda sætinu í þessari spá var Leiknir Reykjavík sem fékk 71 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Leikni.


Leiknir Reykjavík
Búningar: Vínrauð treyja, bláar buxur, bláir og rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.leiknir.com

Leiknir úr Breiðholti er mikið spurningamerki fyrir sumarið. Liðið er mikið stemningslið og mikil samheldni sem einkennir það. Í fyrra náði liðið sínum besta árangri frá upphafi þegar það hélt sæti sínu í 1. deild eftir mikla spennu í fallbaráttunni. Fyrri hluta sumarsins lék liðið stórskemmtilegan sóknarbolta og skoraði mest allra liða en svo skyndilega kom upp mikil markaþurrð og illa gekk hjá liðinu seinni hluta tímabilsins. Á endanum var liðið aðeins einu sæti frá fallsæti.

Uppgangur Leiknis hefur verið mikill síðustu ár en liðið er byggt upp á uppöldum leikmönnum sem hafa spilað lengi saman. Það hefur þó misst talsvert marga frá síðustu leiktíð. Haukur Gunnarsson, fyrirliði liðsins, lagði skóna á hilluna og þá fóru vængmaðurinn Pétur Örn Svansson og sóknarmaðurinn Einar Örn Einarsson í úrvalsdeildina. Þá léku tveir sænskir leikmenn með Leikni í fyrra en báðir eru þeir farnir til heimalands síns. Danski sóknarmaðurinn Jakob Spangsberg kom aftur til Leiknis seinni hluta tímabilsins í fyrra eftir að hafa ekki fengið mörg tækifæri hjá Val. Hann verður nú allt tímabilið hjá Leikni og er það mikill styrkur fyrir Breiðhyltinga.

Leiknir hefur einnig endurheimt Helga Pjetur Jóhannsson sem var markahæsti leikmaður liðsins þegar það vann 2. deildina 2005. Þá er varnarmaðurinn sterki Elinbergur Sveinsson er kominn frá Víkingi Ólafsvík en Elinbergur var fyrirliði í liði Ólafsvíkinga. Einnig hafa margir ungir leikmenn fengið tækifæri með Leiknisliðinu í vetur.

Það má eiginlega segja að Leiknisliðið sé óútreiknanlegt. Ef allt gengur upp hjá liðinu gæti það vel komið á óvart og blandað sér í baráttuna í efri hlutanum. Ef það finnur ekki stöðugleika mun það verða í baráttu á hinum enda töflunnar en því spá þjálfarar og fyrirliðar í deildinni.

Styrkleikar: Leiknir er fjölskylduklúbbur og flestir leikmenn hafa spilað lengi saman og eru tilbúnir að fórna sér fyrir málstaðinn. Mikil samheldni einkennir liðið og getur það spilað flottan fótbolta. Liðið hefur unga og spræka stráka sem geta skapað mikla hættu. Eru með sterkan heimavöll þar sem skapast oft góð stemning.

Veikleikar: Óstöðugleiki. Leiknisliðið á það til að vera sveiflukennt milli leikja. Spila glimrandi bolta í einum leik en svo stendur ekki steinn yfir steini í þeim næsta. Þá skortir liðinu breidd sóknarlega og ef þeir missa Jakob Spangsberg í meiðsli lenda þeir í vandræðum.

Þjálfari: Óli Halldór Sigurjónsson. Ungur en skipulagður þjálfari sem hefur ekki mikla reynslu af þjálfun í þessum styrkleika. Leiknir fylgdi þeirri stefnu sinni að byggja liðið upp á heimamönnum með ráðningu hans en hann tók við eftir síðasta leiktímabil. Óli hefur þjálfað 2. og 3. flokk Leiknis ásamt því að hann stýrði Neista Djúpavogi í eitt ár.

Lykilmenn: Halldór Kristinn Halldórsson, Steinarr Guðmundsson og Jakob Spangsberg.

Komnir: Aðalsteinn Arnarson frá Tindastóli, Elinbergur Sveinsson frá Víkingi Ólafsvík, Halldór Jón Sigurðsson frá Víkingi Reykjavík, Helgi Óttarr Hafsteinsson frá Hvöt, Helgi Pjetur Jóhannsson frá Stjörnunni, Orri Erlingsson frá Val.

Farnir: Björn Sigurbjörnsson til Þróttar, Einar Örn Einarsson til Keflavíkur, Jeton Gorqaj til Norrby IF, Mentor Zhubi til Örgryte, Pétur Örn Svansson til Víkings Reykjavík, Viðar Guðmundsson til ÍH.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Leiknir Reykjavík 71 stig
11. Víkingur Ólafsvík 47 stig
12. Reynir Sandgerði 46 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner