Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   fim 03. maí 2007 08:01
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 9.sæti
Mynd: Víkurfréttir - Jón Björn
Mynd: Njarðvík
Mynd: Gunnar Gunnarsson
Mynd: Gunnar Gunnarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í níunda sætinu í þessari spá voru Njarðvíkingar sem fengu 87 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Njarðvíkinga.


Njarðvík
Búningar: Græn treyja, grænar eða hvítar buxur, grænir eða hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.umfn.is

Njarðvíkingar höfnuðu í öðru sæti 2. deildar í fyrra og munu því leika í 1. deildinni í sumar. Fróðlegt verður að sjá hvernig þeir spjara sig en hingað til hafa þeir verið í skugganum af grönnum sínum í Keflavík og Grindavík. Nú eru þeir hinsvegar með Grindvíkingum í deild og verður gaman að fá alvöru grannaslagi milli þessara tveggja Suðurnesjaliða.

Það er ljóst að ekkert lið mun geta bókað þrjú stig gegn Njarðvík í sumar. Liðið hefur marga reynslubolta í sínum röðum sem skiptir miklu máli fyrir baráttuna framundan. Við stýrið er síðan þaulreyndur skipstjóri, Helgi Bogason, sem hefur þjálfað liðið með góðum árangri síðustu ár.

Njarðvík hefur haldið sama kjarna leikmanna í nokkur ár og getur liðið spilað fínan bolta. Ekki eru miklar breytingar á leikmannahópnum frá því í fyrra. Liðið skoraði mest allra í 2. deildinni í fyrra enda hefur það marga leikmenn sem skila mörkum og markaskorun dreifist vel. Sóknarleikur liðsins ætti að vera öflugur í sumar enda hefur það fengið Alfreð Elías Jóhannsson og Sævar Eyjólfsson.

Árangur Njarðvíkinga á heimavelli í fyrra vakti athygli en þeir unnu alla níu leiki sína á Njarðvíkurvelli í 2. deildinni. Hinsvegar eru framkvæmdir við nýjan aðalvöll liðsins í gangi og en hann á að vera tilbúinn fyrir sumarið. Það verður athyglisvert að sjá hvernig liðinu tekst að gera þennan nýja Njarðvíkurvöll að sterkum heimavelli.

Í marki Njarðvíkinga stendur Albert Sævarsson. Þessi reynslumikli markmaður hefur spilað marga leiki í efstu deild og er einn besti, ef ekki besti, markvörður í 1. deildinni. Hann fékk aðeins eitt mark á sig í leikjum liðsins í Lengjubikarnum. Svo má ekki gleyma Gesti Gylfasyni sem einnig er hokinn af reynslu en hann var valinn besti leikmaður 2. deildarinnar í fyrra en Njarðvík átti einnig fjóra leikmenn í liði ársins í 2. deildinni.

Styrkleikar: Styrkur Njarðvíkinga felst fyrst og fremst í þeirri miklu reynslu sem leikmannahópurinn býr yfir. Njarðvík er nýkomið upp og ætti baráttuandinn svo sannarlega að vera til staðar hjá liðinu. Eru með einn besta markvörð deildarinnar og öfluga sóknarmenn.

Veikleikar: Áhugaleysið í kringum liðið hefur verið mikið og virðist engin breyting þar hafa orðið á. Þrátt fyrir gott gengi liðsins í fyrra og að liðið var ósigrandi á heimavelli var mætingin á leiki liðsins ekki góð. Ef áhuginn eykst ekki nú þegar liðið er að leika í 1. deild gæti það komið niður á liðinu í sumar.

Þjálfari: Helgi Bogason. Hefur verið við stjórnvölinn hjá Njarðvík nokkuð lengi og náð góðum árangri. Hann tók við Njarðvík árið 2001 en fyrir það var hann aðstoðarþjálfari hjá Grindavík. Lið sem Helgi stýrir þykja leika skemmtilegan fótbolta. Aðstoðarþjálfari hans er nafni hans Helgi Arnarson.

Lykilmenn: Albert Sævarsson, Gestur Gylfason og Sævar Eyjólfsson.

Komnir: Alfreð Elías Jóhannsson frá Sindra, Frans Elvarsson frá Sindra, Sævar Eyjólfsson frá ÍBV.

Farnir: Einar Sigurjón Oddsson í Víking Reykjavík, Eyþór Guðnason í HK.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Njarðvík 87 stig
10. Leiknir Reykjavík 71 stig
11. Víkingur Ólafsvík 47 stig
12. Reynir Sandgerði 46 stig
Athugasemdir
banner
banner