Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   fös 04. maí 2007 08:01
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 8.sæti
Mynd: Leiknir.com/Matthías Ægisson
Mynd: Matthías Ægisson
Mynd: Pedromyndir/Þórir Ó. Tryggvason
Mynd: Pedromyndir.is
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í áttunda sætinu í þessari spá voru Þórsarar sem fengu 106 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Þórsara.



Þór
Búningar: Hvít treyja, rauðar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.thorsport.is

Þórsarar eru ákveðnir í að snúa við blaðinu frá síðasta sumri. Fyrir síðasta sumar var liðinu spáð upp í úrvalsdeildina en tímabilið fór á annan veg og Þórsarar soguðust niður í botnbaráttuna. Liðið náði að bjarga sér frá falli í lokaumferðinni. Margir Akureyringar voru ósáttir við hve slakan bolta liðið spilaði en Þórsarar skorðu minnst í deildinni ásamt Víkingi Ólafsvík (16 mörk) og fengu á sig langflest mörk (38 en næst komu Haukar með 29 mörk fengin á sig).

Síðustu tvö leiktímabil hefur Þórsliðið fengið samtals 72 mörk í 36 leikjum sem er í raun ótrúlegt miðað við hve vel vörn þeirra hefur litið út á pappírnum. Það er ljóst að liðið þarf að ná að stilla saman strengi varnarlega ef það ætlar sér að ná viðunandi árangri í sumar. Varnarleikur liðsins hefur lofað ágætum á undirbúningstímabilinu núna og stuðningsmenn liðsins sjá fram á bjartari tímabil þó enginn reikni með að liðið geri atlögu að úrvalsdeildarsæti.

Hlynur Birgisson var að spila djúpan miðjumann í fyrra en búast má við því að hann verði nú í hjarta varnarinnar. Óvíst er hve mikið skrokkur Lárusar Orra Sigurðssonar leyfir honum að spila í sumar en þeir tveir mynda reynslumesta miðvarðarpar landsins. Ljóst er að reynsla er eitthvað sem ekki vantar í Þórsliðið. Lárus er á 34. aldursári og Hlynur er 38 ára, en sá síðarnefndi þó í fantaformi sem aldrei fyrr.

Markaskorun hefur verið akkilesarhæll hjá Þór. Liðinu hefur vantað alvöru markaskorara en nú er Hreinn Hringsson kominn hinumegin við ána frá KA og eru miklar væntingar gerðar til þess að hann leysi þetta vandamál. Þórður Halldórsson sem gat ekkert spilað með Þór í fyrra vegna vinnu er kominn af stað á ný og styrkir það miðju liðsins talsvert.

Styrkleikar: Eru með reynslumikið lið og efnilega spræka leikmenn í bland. Hafa sterka varnarlínu og leikmenn sem geta barist af krafti. Eru með samstilltan hóp og ættu að vera komnir með meira flæði í miðjuspil sitt og meiri ógn fram á við en í fyrra.

Veikleikar: Þórsarar hafa fremur þunnskipaðan hóp en þeir hafa misst nokkra leikmenn sem spiluðu talsvert í fyrra. Liðið getur verið mjög brothætt og í fyrra gerðu liðsmenn sig seka um uppgjöf í mörgum leikjum. Þá hefur verið neikvæð umræða um félagið vegna fjárhagsstöðu þess og það hjálpar ekki til.

Þjálfari: Lárus Orri Sigurðsson. Var atvinnumaður í Englandi í mörg ár og harður í horn að taka. Á yfir 40 landsleiki fyrir Ísland að baki. Kom heim fyrir sumarið 2005 og lék með Þór, liðinu sem hann yfirgaf 1994 þegar hann hélt erlendis. Eftir tímabilið það ár tók hann við þjálfun liðsins og stýrði því í 1. deildinni í fyrra. Ætti að vera reynslunni ríkari eftir tímabilið í fyrra.

Lykilmenn: Hlynur Birgisson, Ingi Hrannar Heimisson og Hreinn Hringsson.

Komnir: Hreinn Hringsson frá KA, Ingólfur Ágústsson frá Grindavík, Þórður Halldórsson tekið skóna úr hillunni.

Farnir: Daði Kristjánsson í Stjörnuna, Freyr Guðlaugsson í Fylki, Gunnar Líndal Sigurðsson í Fram, Ibra Jagne í KA.



Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. Þór 106
9. Njarðvík 87 stig
10. Leiknir Reykjavík 71 stig
11. Víkingur Ólafsvík 47 stig
12. Reynir Sandgerði 46 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner