Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   sun 06. maí 2007 08:01
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 6.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Jónas Erlendsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjötta sætinu í þessari spá voru Fjarðabyggð sem fengu 149 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Fjarðabyggð.


Fjarðabyggð
Búningar: Rauð treyja, dökkbláar buxur, rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.kff.is

Fjarðabyggð er það lið sem verður hvað mest spennandi að fylgjast með í 1. deildinni í sumar. Uppgangurinn í bæjarfélaginu hefur verið mikill undanfarið og hefur árangur fótboltaliðsins verið í samræmi við hann. Eftir að hafa komist upp úr 3. deildinni sumarið 2004 er liðið nú í næstefstu deild og því spáð að það endi í efri helmingnum.

Það er ljóst að mikill metnaður ríkir hjá félaginu og hefur það sýnt mikil klókindi á leikmannamarkaðnum síðustu ár. Stuðningurinn við liðið er að aukast hratt samhliða góðum árangri. Fjarðabyggð tapaði í síðustu viku í úrslitaleik B-deildar Lengjubikarsins en fram að þeim leik hafði liðið ekki tapað í tuttugu mótsleikjum í röð. Nítján af þeim leikjum voru sigurleikir. Sú staðreynd talar sínu máli.

Fjarðabyggð hefur sterkt miðvarðarpar, þá Andra Hjörvar Albertsson og Hauk Ingvar Sigurbergsson. Liðið fékk fá mörk á sig í Lengjubikarnum en þó verður að horfa til þess að mótherjarnir voru flestir úr neðri deildum. Á miðjunni má finna baráttuhundinn Halldór Hermann Jónsson sem er mikill drifkraftur í liðinu og skilar auk þess nokkrum mörkum.

Það var slæmt fyrir liðið að missa Elmar Dan Sigþórsson en það hefur þó marga leikmenn sem eru góðir fram á við. Guðmundur Atli Steinþórsson kom til liðsins í vetur frá Grindavík en hann hefur verið þeirra helsti markaskorari á undirbúningstímabilinu, skoraði tíu mörk í Lengjubikarnum og er fullur sjálfstrausts.

Aðstaða liðsins til æfinga hefur gjörbreyst með tilkomu knattspyrnuhallar í Fjarðabyggð. Nú hefur liðið getað æft saman í allan vetur og ljóst að það getur aðeins haft jákvæð áhrif. Ef allt gengur upp hjá Fjarðabyggð í sumar gæti það vel gert atlögu að sæti í Landsbankadeildinni.

Styrkleikar: Heimavöllurinn hjá Fjarðabyggð verður hiklaust mjög sterkur en þegar liðið vann aðra deildina í fyrra tapaði það ekki leik heima. Liðið hefur mjög sterkt byrjunarlið. Stemningin í bænum er mjög mikil enda náði liðið sínum besta árangri frá upphafi í fyrra og ljóst að það verður toppað í sumar.

Veikleikar: Breiddin er ákveðið vandamál hjá Fjarðabyggð eins og reyndar fleiri liðum í deildinni. Ekki má það við því að missa marga hlekki úr byrjunarliðinu. Þetta er fyrsta ár liðsins í 1. deildinni og ef byrjunin verður ekki góð gæti það lent í einhverjum vandræðum. Markvörður liðsins hefur verið hjá þeim lengi og á það til að vera nokkuð mistækur þó oftast spili hann vel.

Þjálfari: Þorvaldur Örlygsson. Hefur fyrir löngu sýnt hversu fær þjálfari hann er og ljóst að hann er stór ástæða þess að margir leikmanna Fjarðabyggðar ákváðu að ganga til liðs við félagið. Þjálfaði KA í fimm ár en hætti vegna persónulegra ástæðna. Þegar hann tilkynnti að hann væri reiðubúinn að snúa aftur í þjálfun var hann gripinn af Fjarðabyggð. Elvar Jónsson sem þjálfaði liðið áður er honum til aðstoðar.

Lykilmenn: Andri Hjörvar Albertsson, Halldór Hermann Jónsson og Guðmundur Atli Steinþórsson.

Komnir: Guðmundur Atli Steinþórsson frá Grindavík, William Geir Þorsteinsson frá KS/Leiftri, Ingi Þór Þorsteinsson frá HK, Andri Valur Ívarsson frá Val, Jón Gunnar Eysteinsson frá KA.

Farnir: Elmar Dan Sigþórsson í KA, Marjan Cekic hættur.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. Fjarðabyggð 149 stig
7. KA 117 stig
8. Þór 106 stig
9. Njarðvík 87 stig
10. Leiknir Reykjavík 71 stig
11. Víkingur Ólafsvík 47 stig
12. Reynir Sandgerði 46 stig
Athugasemdir
banner
banner