Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   mán 07. maí 2007 08:01
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 5.sæti
Mynd: Rögnvaldur Már Helgason
Mynd: Rögnvaldur Már Helgason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fimmta sætinu í þessari spá voru Stjörnumenn sem fengu 163 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Stjörnuna.


Stjarnan
Búningar: Blá treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.stjarnan.is

Stjarnan hefur verið að ná fínum úrslitum á undirbúningstímabilinu og liðið lítur ansi vel út fyrir sumarið. Það er ekkert launungarmál í Garðabænum að stjórn félagsins vill sjá liðið sem fyrst aftur í efstu deild eftir talsvert langa útlegð í neðri deildum. Liðið hefur mannskap til að berjast um efstu sætin en hvort það sé nógu sterkt fyrir alvöru atlögu að úrvalsdeildarsæti mun koma í ljós.

Aðstaða Stjörnunnar er hreint frábær og heimavöllur liðsins á úrvalsdeildarklassa. Liðið er eina liðið í 1. deild sem hefur gervigras á aðalvelli sínum en það fékk fimmtán stig á heimavelli í fyrra. Betur má ef duga skal og líklegt er að ef Stjarnan ætlar sér að vera með í baráttunni um að komast upp í ár þurfi liðið fleiri heimavallarstig en það. Stemningin fyrir liðinu í Garðabæ virðist vera að aukast jafnt og þétt og er það jákvætt.

Markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson er horfinn á braut til Fram en hann var valinn besti leikmaður Stjörnunnar í fyrra. Í stað hans er þó ekki kominn verri markvörður, Magnús Þormar sem kom frá Keflavík. Þá hefur Stjarnan fengið Frank Posch í vörnina en hann lék með Fram í fyrra og þótti mistækur. Ef hann finnur sig í Garðabænum er þó ljóst að hann verður þeim Stjörnumönnum góður styrkur.

Á miðjunni er ungur leikmaður, Halldór Orri Björnsson, sem við mælum með að fólk hafi auga með. Meðalaldur Stjörnuliðsins er ekki hár og gæti ferskleikinn sem fylgir liðinu skilað þeim mörgum stigum.

Sóknarmaðurinn Guðjón Baldvinsson var mikið í umræðunni fyrr í vetur en þessi ungi leikmaður var eftirsóttur af Landsbankadeildarliðum. Stjarnan vildi ekki selja Guðjón og sagði leikmaðurinn þá reiður við fjölmiðla að hann væri hættur með liðinu fyrst hann fengi ekki að fara. Það liðu þó ekki margir dagar þar til Guðjón skipti um skoðun og klæddi sig á ný í Stjörnubúninginn og verður hann með liðinu í sumar.

Styrkleikar: Hraðinn er helsti styrkleiki Stjörnunnar. Liðið á það til að liggja aðeins til en getur síðan sótt mjög hratt fram enda með marga spræka leikmenn. Stjarnan hefur fína liðsheild og með smá heppni verður liðið með í baráttunni um að komast upp í Landsbankadeildina.

Veikleikar: Reynsluleysið gæti orðið ákveðinn veikleiki. Unglingastarf Stjörnunnar er gott og margir efnilegir leikmenn hjá liðinu en því gæti vantað fleiri reynslubolta fyrir baráttuna framundan. Ef liðið lendir í einhverju mótlæti gæti það orðið brothætt.

Þjálfari: Lárus Guðmundsson. Tók við af Jörundi Áka Sveinssyni eftir síðasta tímabil. Sem leikmaður lék hann á sínum tíma m.a. með Stjörnunni og hefur verið lengi í kringum félagið. Hann þekkir því leikmannahópinn mjög vel. Hann lék sautján A-landsleiki og var atvinnumaður í Belgíu og Þýskalandi. Hann hefur áður þjálfað meistaraflokka Víkings og Aftureldingar.

Lykilmenn: Daníel Laxdal, Þorvaldur Árnason og Guðjón Baldvinsson.

Komnir: Daði Kristjánsson frá Þór Akureyri, Elvar Freyr Arnþórsson frá Val, Frank Posch frá Fram, Guðni Páll Viktorsson frá Fylki, Jónmundur Grétarsson frá Haukum, Magnús Þormar frá Keflavík, Sigurður Brynjólfsson frá Markaregni.

Farnir: Dragoslav Stojanovic til Hvatar, Geoff Miles til Bandaríkjana, Goran Lukic til Hauka, Hannes Þór Halldórsson til Fram, Haukur Þorsteinsson til Hvatar, Helgi Pjetur Jóhannsson til Leiknis, Sigurjón Magnús Kevinsson til ÍR.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Stjarnan 163 stig
6. Fjarðabyggð 149 stig
7. KA 117 stig
8. Þór 106 stig
9. Njarðvík 87 stig
10. Leiknir Reykjavík 71 stig
11. Víkingur Ólafsvík 47 stig
12. Reynir Sandgerði 46 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner