Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   þri 08. maí 2007 08:01
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 4.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fjórða sætinu í þessari spá voru Fjölnismenn sem fengu 174 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Fjölni.


Fjölnir
Búningar: Gul treyja, gular buxur, gulir sokkar.
Heimasíða: http://www.fjolnir.is

Fjölnismenn hafa verið undanfarin þrjú ár í fyrstu deildinni og ávallt bætt árangur sinn. Í fyrra endaði liðið í þriðja sæti eftir að hafa fylgt HK fast eftir í baráttunni um annað sætið. Það var í lokaumferðinni sem ljóst var að HK hefði betur og færi upp en Fjölnismenn höfðu fram að því verið í skottinu á þeim.

Eftir að hafa verið svona nálægt því í fyrra að komast upp er það rökrétt stefna hjá Fjölni að ná alla leið í ár. Ekki er farið leynt með það í Grafarvoginum að markmið sumarsins er að komast upp í Landsbankadeildina.

Stemningin hefur oft ekki verið nógu góð á heimavelli Fjölnismanna í Grafarvoginu þó að stuðningsmenn liðsins hafi oft tekið við sér í fyrra. Þá gerði liðið hins vegar fjögur jafntefli á heimavelli og tapaði einum leik. Það er of mikið ætli liðið sér að fara upp í Landsbankadeildina.

Fjölnismenn misstu kantmanninn Ingimund Níels Óskarsson í KR en þeir hafa tvo aðra spræka kantmenn í Ómari Hákonarsyni og Pétri Georg Markan. Möguleikarnir fram á við og á köntunum hafa einnig aukist með tilkomu Tómasar Leifssonar og Rannvers Sigurjónssonar sem komu til Fjölnis frá FH og Víkingi. Það er því fín breidd framarlega á vellinum.

Stærsti fengurinn fyrir Fjölni er þó líklega að hafa fengið Davíð Þór Rúnarsson aftur frá Víkingi Reykjavík. Fjölnismenn skoruðu einungis 22 mörk í fyrra og þeirra langmarkahæsti maður var Ómar Hákonarson sem lék á kantinum. Hann skoraði átta mörk fyrir liðið en næstu menn komu með tvö mörk. Nái Davíð Þór að skora nokkur mörk frammi í sumar er það mikll bónus fyrir Fjölnismenn frá því á síðasta tímabili. Þá er Atli Viðar Björnsson framherji FH líklega á leið í Fjölni á láni eins og við höfum greint frá og hann mun einnig styrkja sóknarlínu liðsins.

Styrkleikar: Liðið hefur marga möguleika sóknarlega og ættu að vera ansi sterkir fram á við. Fjölnisliðið hefur sýnt að það getur spilað fínan fótbolta og miðað við mannskap þeirra ætti það að vera uppi á teningnum í ár.

Veikleikar: Vörnin er veikleiki Fjölnis en þar skortir breidd. Hætta er á að Fjölnir lendi í vandræðum varnarlega. Stemningsleysið sem hefur verið kringum liðið gæti einnig haft áhrif. Þá er spurning hvernig liðið smellur saman en það er ákveðinn samtíningur héðan og þaðan.

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson. Ásmundur er efnilegur þjálfari en eftir að hafa þjálfað Völsung í 2 ár tók hann við Fjölnismönnum haustið 2004 og hefur hann stýrt Grafarvogspiltum undanfarin þrjú ár. Ásmundur hefur náð fínum árangri með liðið en árið 2005 stýrði hann liðinu í fimmta sæti fyrstu deildarinnar og í fyrra endaði liðið í fjórða sætinu.

Lykilmenn: Ómar Hákonarson, Davíð Þór Rúnarsson og Gunnar Már Guðmundsson.

Komnir: Davíð Þór Rúnarsson frá Víkingi, Rannver Sigurjónsson úr Víkingi, Ragnar Heimir Gunnarsson úr Breiðablik, Tómas Leifsson frá FH, Sölvi Sturluson frá KR, Ríkharð Bjarni Snorrason úr Drangi.

Farnir: Ágúst Þór Ágústsson í Breiðablik, Gunnar Örn Jónsson í Breiðablik, Haraldur Guðmundsson í Breiðablik, Ingimundur Níels Óskarsson í KR, Ögmundur Viðar Rúnarsson í Gróttu,


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. Fjölnir 174 stig
5. Stjarnan 163 stig
6. Fjarðabyggð 149 stig
7. KA 117 stig
8. Þór 106 stig
9. Njarðvík 87 stig
10. Leiknir Reykjavík 71 stig
11. Víkingur Ólafsvík 47 stig
12. Reynir Sandgerði 46 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner