Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   þri 15. maí 2007 16:39
Magnús Már Einarsson
Landsbankadeild: Leikmaður 1.umferðar - Matthías G. (FH)
Matthías í baráttu við Guðjón Heiðar Sveinsson í leiknum gegn ÍA á laugardaginn.
Matthías í baráttu við Guðjón Heiðar Sveinsson í leiknum gegn ÍA á laugardaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Fótbolti.net mun í sumar velja leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Matthías Guðmundsson leikmaður FH varð fyrir valinu sem leikmaður fyrstu umferðarinnar í Landsbankadeild karla en hann lék vel í 3-2 sigri Íslandsmeistarana á ÍA síðastliðinn laugardag.

Matthías Guðmundsson
Hægri kantmaðurinn Matthías Guðmundsson gekk til liðs við FH í nóvember síðastliðnum. Matthías sem verður 27 ára í ár hefur skorað 19 mörk í 83 leikjum í efstu deild á ferli sínum.
,,Þetta kemur mér skemmtilega á óvart. Það er gaman að þessu," sagði Matthías þegar að Fótbolti.net hafði samband við hann í dag og greindi honum frá útnefningunni.

Matthías átti fínan leik á Skaganum og hann var sáttur með eigin frammistöðu. ,,Mér fannst þetta ganga ágætlega. Þetta var mjög erfiður leikur í erfiðum aðstæðum líka, það var mikill vindur en við erum orðnir ágætlega vanir því. Við erum búnir að spila nokkuð marga leiki í röð í brjáluðu veðri."

Matthías skoraði eitt marka FH í 3-2 sigri liðsins á ÍA en það gerði hann með skalla á 52.mínútu leiksins eftir sendingu frá Tryggva Guðmundssyni. Matthías er ekki þekktur fyrir að skora mikið með skalla.

,,Nei ég er nú ekki þekktur fyrir það. Ég held að þetta sé þriðja úrvalsdeildarmarkið mitt með skalla. Þau eru ekki fleiri en það," sagði Matthías sem var ánægður með að skora sitt fyrsta mark fyrir FH í Landsbankadeildinni.

,,Það var frábært. Maður var búinn að stefna að þessu. Byrja vel og byrja með marki og ég var mjög ánægður með að það tókst."

Matthías gekk til liðs við FH í nóvember síðastliðnum en hann kom til félagsins frá Val. Honum líkar vel hjá FH.

,,Mér finnst þetta alveg frábært. Þetta eru mjög fínir náungar og klassalið, mér líður mjög vel þarna. Allt í kringum þetta er alveg frábært," sagði Matthías en hann telur að leikurinn gegn ÍA hafi verið sá besti síðan hann kom til félagsins.

,,Já klárlega. Það er búið að ganga upp og niður á undirbúningstímabilinu en þetta var það besta hingað til held ég."
FH-ingar byrja vel í Landsbankadeildinni og Matthíasi líst vel á sumar. ,,Það leggst mjög vel í mig. Mér sýnist stefna í hörkumót. Mér sýnist öll liðin vera sterkari en þau voru í fyrra þegar maður lítur á þetta. Ég held að þetta verði hörkumót."

,,Það eru allir að tala um FH, KR og Val og svona en ég sé helling af liðum verða góð. Það voru allir að tala eitthvað rólega um Skagann en það kom í ljós að þeir eru með hörkulið."


FH-ingar fara í heimsókn í Bítlabæinn næstkomandi sunnudag og mæta Keflvíkingum sem byrjuðu einnig vel í Landsbankadeildinni með 2-1 sigri á KR í gær. Matthías býst við að leikur Keflvíkinga og FH verði góður.

,,Það verður bara frábær leikur á móti mjög góðu liði. Þeir hljóta að vera fullir sjálfstrausts eftir að hafa unnið þennan leik í gær. Mér finnst þeir vera með sterkara lið en þeir voru í fyrra."

,,Þeir leggja upp með það sama og við að spila boltanum og ég held að þetta verði bara flottur fótboltaleikur,"
sagði Matthías Guðmundsson, leikmaður 1.umferðar í Landsbankadeildinni að lokum við Fótbolti.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner