Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 15. maí 2007 18:09
Magnús Már Einarsson
1.deild: Leikmaður 1.umferðar - Árni K. Skaftason (Þór)
Árni Kristinn í leik gegn Fram í 1.deildinni í fyrra.
Árni Kristinn í leik gegn Fram í 1.deildinni í fyrra.
Mynd: Pedromyndir/Þórir Tryggvason
Mynd: Pedromyndir/Þórir Tryggvason
Fótbolti.net mun í sumar velja leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Leikmaður 1.umferðarinnar í 1.deild karla er Árni Kristinn Skaftason markvörður Þórsara sem varði nokkrum sinnum frábærlega í 1-1 jafntefli liðsins gegn ÍBV í Vestmannaeyjum á sunnudaginn.

Árni Skaftason
Markvörðurinn Árni Skaftason hefur leikið með Þór undanfarin tvö ár. Áður var hann hjá Leiftri/Dalvík en hann hefur einnig leikið með KA, BÍ, Bolungarvík og Erni Ísafirði.
,,Þetta kemur mér virkilega á óvart. Ég bjóst ekki við þessu vali og það er virkilega gaman að fá svona viðurkenningu," sagði Árni Kristinn við Fótbolti.net í dag þegar hann fékk að vita af útnefningunni.

Árni varði eins og fyrr segir frábærlega þegar að Þórsarar gerðu jafntefli á sterkum heimavelli ÍBV í Eyjum.

,,Við áttum fínan leik í Eyjum en við náðum ekki í 3 stig eins og við ætluðum okkur. Eyjamenn fengu tvö dauðafæri sem mér tókst að verja en það var svekkjandi að ná ekki að verja þetta víti sem Eyjamenn fengu," sagði Árni og vísaði þar með í vítaspyrnuna sem Bjarni Hólm Aðalsteinsson fyrirliði heimamanna skoraði úr undir lok leiksins og jafnaði þar með leikinn 1-1.

Árni spilaði tvo leiki í fyrstu deildinni í fyrra en þá þurfti hann oft að vera á bekknum þar sem að Gunnar Líndal sem er núna í Fram var í markinu. Árni er núna aðalmarkvörður Þórsara sem hann er ánægður með.

,,Ég er mjög ánægður með það og traustið frá Lárusi (Orra Sigurðssyni, þjálfara Þórs) og hlakka mikið til sumarsins, það eru mörg sterk lið í deildinni sem verður gaman að spila við," sagði Árni sem segist vera í fínu formi. ,,Ég er í mjög góðu standi núna og klár í slaginn í sumar."

Í ár eru í fyrsta skipti tólf lið í fyrstu deildinni í stað tíu eins og áður. Á næsta ári verða einnig tólf lið í Landsbanka og annarri deild karla en Árni er ánægður með að verið sé að fjölga liðum í deildunum.

,,Ég er mjög ánægður með þessa ákvörðun um að fjölga liðum í deildunum, þetta mun gera þær meira spennandi, fleiri stig í pottinum," sagði Árni en komandi sumar leggst vel í hann.

,,Sumarið leggst bara vel í mig, það er mikil til hlökkun í hópnum fyrir átök sumarsins," sagði Árni Kristinn Skaftason, markvörður Þórs og leikmaður fyrstu umferðar í fyrstu deildinni að lokum við Fótbolti.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner