Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 28. maí 2007 09:55
Magnús Már Einarsson
1.deild: Leikmaður 3.umferðar - Hreinn Hringsson (Þór)
Hreinn fagnar marki í leiknum gegn Reyni.
Hreinn fagnar marki í leiknum gegn Reyni.
Mynd: Jón Örvar Arason
Þórsarar fagna marki gegn Reynismönnum á laugardaginn.
Þórsarar fagna marki gegn Reynismönnum á laugardaginn.
Mynd: Víkurfréttir/Jón Björn
Úr leik Þórs og Reynis.
Úr leik Þórs og Reynis.
Mynd: Víkurfréttir/Jón Björn
Fótbolti.net hefur í sumar valið leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Þriðja umferðinni í 1.deild karla lauk á laugardaginn þar sem Þór burstaði Reyni Sandgerði 5-1 á útivelli og skaust um leið á topp deildarinnar. Þar lék Hreinn Hringsson vel með Þór og skoraði tvö mörk auk þess að vera mjög ógandi.

Hreinn Hringsson
Framherjinn Hreinn Hringsson er 32 ára gamall. Hreinn er uppalinn í Þór en hann kom aftur til félagsins síðastliðið haust eftir að hafa leikið með KA í
sex ár. Áður hafði Hreinn einnig leikið með Þrótti og í Skotlandi sem og uppeldisfélaginu Þór. Hann hefur skorað 19 mörk í 75 leikjum í efstu deild á ferlinum.
Hreinn segir það hafa komið sér á óvart að vera valinn leikmaður umferðarinnar. ,,Já ég bjóst ekki við símtalinu, ég sat ekki við símann," sagði Hreinn við Fótbolti.net en hann var sáttur með leikinn gegn Reyni.

,,Þetta var mjög fínt. Við erum að nálgast það sem við teljum okkur geta. Þetta var fyrsta skrefið í rétta átt að okkur fannst. Þetta fór að smella betur saman en það hefur gert."

Hreinn gekk til liðs við uppeldisfélag sitt Þór síðastliðið haust en hann segir leikinn gegn Reyni ekki hafa verið þann besta síðan hann kom aftur til félagsins.

,,Nei, ég átti fína leiki á undirbúningstímabilinu. Ég hefði verið sáttur hefði ég gert 5-6 mörk í leiknum en maður nýtir ekki öll færin sem maður fær."

Þórsarar skutust á toppinn í fyrstu deildinni með þessum góða sigri á Reyni og Hreinn er að vonum ánægður með það. ,,Það er alltaf gott að vera kominn á toppinn. Þá er þetta undir sjálfum manni komið hvað maður gerir, maður þarf ekki að treysta á annað lið eða önnur úrslit. Þetta er í okkar höndum eins og staðan er í dag og það verður gaman að sjá hvernig framhaldið verður," sagði Hreinn sem líkar vel að vera kominn aftur í Þór.

,,Þetta er frábært. Þetta er rosalega samheldinn hópur. Meirihlutinn eru Norðanmenn og það eru engir útlendingar. Við erum að nota rosalega mikið af strákum úr öðrum flokki, það er fullt af efniviði til staðar. Það á að keyra á sumarið með því hugarfari að gefa þessum strákum séns og það er frábært."

Lárus Orri Sigurðsson fyrrum landsliðsmaður og leikmaður í ensku úrvalsdeildinni þjálfar Þór annað árið í röð. Hreini líkar mjög vel við Lárus Orra.

,,Mér líkar mjög vel við hann. Hann hefur komið mér rosalega á óvart hvað hann er skipulagður og vel hugsandi, svo er hann sjálfur í fínu formi kallinn og rekur okkur áfram."

Mörkin gegn Reyni voru þau fyrstu hjá Hreini í fyrstu deildinni í sumar en hann hefur ekki sett sér nein markmið hvað varðar markaskorun á tímabilinu.

,,Nei, ég er alltaf mjög ánægður þegar þau koma. Ég var orðinn frekar svekktur eftir að hafa ekki skorað í fyrstu tveimur. Það var aðeins öðruvísi undirbúningur andlega hjá mér fyrir þennan leik heldur en fyrir hina tvo. Það er alltaf talað um þennan vegg sem maður þarf að brjóta en það er vonandi að þetta fari að koma núna," sagði Hreinn sem vill ekki gefa út hver markmið Þórs eru í sumar.

,,Það er mjög gott markmið innan liðsins sem við höldum bara út af fyrir okkur. Við ætlum að ná því markmiði og við erum á góðri leið með það eins og er. Það er ákveðið markmið í gangi hjá okkur og ég get sagt þér það eftir tímabilið hvort það næst eða ekki," sagði Hreinn Hringsson, leikmaður 3.umferðar í 1.deildinni að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Leikmaður 2.umferðar - Scott Ramsay (Grindavík)
Leikmaður 1.umferðar - Árni K. Skaftason (Þór)
Athugasemdir
banner
banner
banner