Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 11. júní 2007 11:45
Magnús Már Einarsson
1.deild: Leikmaður 5.umferðar - Ólafur Páll Snorrason (Fjölnir)
Ólafur Páll í baráttu í leiknum gegn KA síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem að Fjölnismenn unnu 6-0.
Ólafur Páll í baráttu í leiknum gegn KA síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem að Fjölnismenn unnu 6-0.
Mynd: Pedromyndir
Ólafur Páll með boltann í leiknum á Akureyri.
Ólafur Páll með boltann í leiknum á Akureyri.
Mynd: Pedromyndir
Fótbolti.net hefur í sumar valið leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Ólafur Páll Snorrason fór á kostum í liði Fjölnis sem að sigraði KA 6-0 á útivelli í fimmtu umferð 1.deildarinnar um síðustu helgi. Ólafur sem er nýkominn til Fjölnis á láni frá FH var þarna að leika sinn fyrsta leik fyrir Grafarvogsliðið en hann er leikmaður 5.umferðarinnar í fyrstu deildinni.

Ólafur Páll Snorrason
Ólafur Páll Snorrason er uppalinn hjá Fjölni en hann fór árið 1998 í Val. Þessi 25 ára gamli leikmaður fór haustið 1998 í Bolton og var þar til sumarsins 2001. Þá spilaði hann með Fjölni og síðan Stjörnunni áður en að Fylkir fékk hann í sínar raðir fyrir tímabilið 2003. Ólafur fór í FH árið 2005 og í vor var hann lánaður í Fjölni eftir að hafa ekki fengið tækifæri hjá Fimleikafélaginu í byrjun móts. Ólafur Páll hefur leikið fyrir öll yngri landslið Íslendinga, þar af 25 leiki með U-17 ára landsliðinu á sínum tíma en hann hefur skorað fimm mörk í 59 leikjum í efstu deild.
,,Þetta gekk vel. Það var gott að fara Norður og vinna og hvað þá 6-0, það er alveg frábært," sagði Ólafur Páll við Fótbolta.net í dag um leikinn fyrir Norðan en Fjölnismenn skoruðu mörkin sex á síðasta hálftíma leiksins.

,,Við fengum víti sem við klúðruðum reyndar. Ég held að þeir hafi dottið aðeins úr gírnum við það að fá á sig í víti. Við náðum að skora fyrsta markið stuttu seinna og þá hrundi leikur þeirra og við peppuðumst upp. Það gekk vel eftir að við skoruðum fyrsta markið, það eru miklir markaskorarar í liðinu hjá okkur og það opnuðust flóðgáttir," sagði Ólafur Páll sem spilaði fremstur á miðjunni í leiknum og líkaði vel.

,,Það er mjög gaman, maður er meira í boltanum heldur en þegar maður er úti á kantinum. Maður vill reyna að vera með boltann á löppunum eins og maður getur í leik, það er mjög gaman að spila fremstur á miðjunni en ég veit ekki hvort það sé skemmtilegra en á kantinum, það er öðruvísi."

Ólafur Páll er uppalinn hjá Fjölni en fór frá félaginu á unglingsárum. Hann náði að leika með meistaraflokki félagsins og er nú kominn aftur.

,,Ég spilaði nokkra leiki áður en ég fór á sínum tíma með meistaraflokk en þá var ég bara fimmtán ára. Það er mjög gaman að koma í æskufélagið og hjálpa til við að reyna að rífa það í gang. Það er búinn að vera mikill uppgangur í félaginu og það eru spennandi tímar framundan held ég, það er gaman að taka þátt í þessu í smá tíma í bili allavega en maður veit ekki hvað verður með framhaldið."

Ólafur Páll kom til FH fyrir tímabilið 2005 og lék vel það sumar. Hann náði sér ekki eins vel á strik í fyrra en hver er skýringin?

,,Ég var hálfmeiddur meira og minna allt sumarið í fyrra og spilaði. Ég lít þannig á það að ég hafi ekki verið 100% heill, það er kannski aðalskýringin. Maður hefði átt að jafna sig á meiðslunum í staðinn fyrir að þrjóskast og spila en annars er góð skýring að ég var ekki eins góður og árið áður, það er ekki flóknara en það," sagði Ólafur Páll sem kom ekki við sögu í fyrstu leijkum FH í Lansdbankadeildinni. Hann segir það ekki hafa verið mikil vonbrigði.

,,Nei nei, ég fór í aðgerð fyrr í vetur þannig að ég bjóst ekki við því að vera notaður mikið í fyrstu leikjunum. Það er helsta ástæðan fyrir því að ég fór í Fjölni að ég vil fá að spila og koma mér í form til að eiga séns á að spila með FH. Hópurinn er það sterkur að leikmenn sem eru ekki í leikformi eiga ekki séns á að detta þar inn, sama hver það er," sagði Ólafur Páll sem veit ekki hvort að hann verði hjá Fjölni út tímbilið.

,,Eins og staðan er núna er þetta mánaðar lánssamningur. Óli Jó þjálfari hjá FH stjórnar því hvort hann kalli mig til baka eftir þennan mánuð eða leyfir mér að vera lengur. Það er fyrst og fremst hann sem stjórnar því en tíminn verður að leiða það í ljós hvað gerist í enda þessa mánaðar, auðvitað vill maður berjast fyrir sæti sínu í FH-liðinu, það er ekki spurning," sagði Ólafur Páll Snorrason leikmaður 5.umferðarinnar í 1.deild að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 3.umferðar - Hreinn Hringsson (Þór)
Leikmaður 2.umferðar - Scott Ramsay (Grindavík)
Leikmaður 1.umferðar - Árni K. Skaftason (Þór)
Athugasemdir
banner
banner
banner