Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 24. janúar 2008 19:20
Hafliði Breiðfjörð
Geir Þorsteinsson í viðtali: Ljóst að RÚV gæti gert betur
Geir Þorsteinsson í höfuðsstöðvum KSÍ í dag.
Geir Þorsteinsson í höfuðsstöðvum KSÍ í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frederik Luett stjórnandi norrænna sjónvarpsréttinda hjá SportFive, Geir Þorsteinsson og Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ við undirritunina.
Frederik Luett stjórnandi norrænna sjónvarpsréttinda hjá SportFive, Geir Þorsteinsson og Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ við undirritunina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við undirskriftinga, Þórir, Geir, Luett og Gísli Gíslason formaður samtaka efstu deildar félaga.
Við undirskriftinga, Þórir, Geir, Luett og Gísli Gíslason formaður samtaka efstu deildar félaga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Geir og Luett takast í hendur eftir undirskriftina.
Geir og Luett takast í hendur eftir undirskriftina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Gíslason ásamt Geir að lokinni undirskriftinni.
Gísli Gíslason ásamt Geir að lokinni undirskriftinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ tilkynnti í dag að sambandið hafi gert nýjan samning við SportFive sem lýtur að útsendingarétti leikja innan sambandsins sem skilar sambandinu um 500 milljónum króna á tveimur árum en fyrri samningur var til fjögurra ára og skilaði samskonar upphæð. Geir Þorsteinsson formaður KSÍ var að vonum ánægður með samninginn en í samtali við Fótbolta.net viðurkenndi hann að RÚV gæti staðið betur að útsendingum úr VISA-bikarnum.

,,Ég vil ekki segja beint að við höfum tvöfaldað samninginn en við höfum látið að því liggja í textanum í fréttatilkynningunni," sagði Geir um nýja samninginn. ,,Meginástæðan fyrir því að ná þessum samning er vinsældir knattspyrnunnar á heimsvísu og það að sjónvarpsréttur fyrir knattspyrnu hefur hækkað verulega á erlendum mörkuðum. Ísland er lítill markaður en þær þjóðir sem koma hingað og spila hafa stóran markað og það er það sem þeir eru fyrst og fremst að sækjast eftir og kaupa."

Nú í desember var dregið í riðla í undankeppni HM 2010 þar sem Íslendingar mæta meðal annars Hollendingum og Skotum. Þeir leikir taka ekki til nýja samningsins heldur eru hluti af þeim gamla. Skömmu áður en drátturinn fór fram skrifaði KSÍ hinsvegar undir skuldbindingu um að gera nýja samninginn svo SportFive veit í raun og veru ekki alveg hvað þeir eru að kaupa.

,,Það er akkúrat þetta sem skiptir miklu máli, hvort menn séu heppnir eða óheppnir í drætti," sagði Geir Þessi dráttur sem við fengum núna í riðlinum er ekkert sérstaklega hagstæður sjónvarpsriðill fyrir SportFive. Þeir voru ekkert sérstaklega ánægðir með hann, þó við höfum fengið Holland og Skotland þá er það ekki stóri markaðurinn í fótboltanum. Stóri markaðurinn er Þýskaland, England, Spánn, Ítalía og Frakkland."

Næsti samningur sem skrifað var undir í dag gildir hinsvegar um undankeppni EM 2012. Sjónvarpsstöðvarnar hér á landi eiga enn eftir að semja við SportFive um útsendingar á þeim tíma sem nýji samningurinn tekur yfir en Sýn hefur haft rétt á Landsbankadeildinni og útileikjum landsliðsins en RÚV á VISA-bikarnum og heimaleikjum landsliðsins. Geir sagði að það hjálpi við samningagerðina að útsendingarréttur er á hagstæðu verði auk þess sem hann er sífellt að sækja meiri þekkingu.

,,SportFive taka áhættu en við settum pressu á að klára samninginn. Það voru fleiri aðilar sem vildu gera við okkur samning svo það er mjög hagstætt ástand núna fyrir þá sem vilja selja sjónvarpsefni," sagði hann.

,,Menn eru að fá meiri þekkingu og aðstoð frá UEFA í þessum málum. Ég hef setið fyrirlestra hjá UEFA um þetta og aflað upplýsinga mjög víða um hvernig maður á að snúa sér í þessu. Ég hef verið í þessari samningagerð í mörg önnur skipti en það er betra að ná hagstæðari samningi eftir því sem maður talar við fleiri."

Auk þess að selja útsendingarrétt fyrir sjónvarp og útvarp er einnig um að ræða kostunarsamninga fyrir efstu deildir sem í dag heita Landsbankadeild og bikarkeppnina sem heitri VISA-bikarinn samkvæmt kosturnarsamning SportFive við þessa aðila.

,,Svo er einnig hluti af skiltunum á A-landsliðsleikjum og svo útvega þeir okkur strax ljósaskiltaumgjörð á völlinn sem við munum geta notað á landsleikjum sem á að geta gefið okkur og þeim auknar tekjur frá þeim þætti," sagði Geir en hann taldi það ekki hagstæðara fyrir sambandið að selja réttinn beint til kaupenda heldur en milliliðar eins og SportFive.

,,Stóri hluturinn í þessu er í raun og veru landsliðið.Við seljum þeim A-landsliðið sem þeir eru að sækjast eftir en við gerum þá kröfu að þeir verði þá að kaupa íslenska knattspyrnu sem er ekkert sérstök ásókn í. Þannig hefur okkur tekist að auka tekjur íslenskra félaga af þessum réttindum. Fyrst þegar við gerðum þetta þá tífölduðum við til íslenskra félagsliða það sem við hefðum fengið með því að fara beint hér og semja um réttinn. Meðan við erum sannfærðir um að þessi leið gefi okkur mestar tekjur þá held ég að við verðum að fara hana. Á undanförnum árum hafa félögin fengið 50 milljónir fyrir þennan rétt."

Sjónvarpsstöðvarnar sem hafa keypt réttinn hafa haldið misjafnlega á sínum málum en á sama tíma og Sýn hefur staðið sig frábærlega með umfjöllun um Landsbankadeildina og sífellt verið að auka beinar útsendingar og umfjöllun má það sama ekki segja um RÚV.

,,Sýn hefur fjölgað verulega útsendingum og slíkt og það hefur hjálpað okkur að auka áhuga á deildinni. Ásókn hefur aukist svo það tengist líkt og víða erlendis. Áhugi á fótbolta eykst á meiri fjölmiðlaumfjöllun og fleiri útsendingum," sagði Geir.

RÚV hefur hinsvegar nýtt rétt sinn mjög illa og á síðasta ári mátti telja upp nokkur dæmi þar sem óánægja var með þeirra nýtingu á réttinum. Þannig má benda á að einn stærsti leikur VISA-bikarsins í fyrra, viðureign Vals og FH sem enduðu í tveimur efstu sætum deildarinnar, í átta liða úrslitum VISA-bikarsins var ekki í beinni útsendingu heldur aðeins undanúrslitaleikirnir og úrslitaleikurinn sem allir fóru í framlengingu. Útsendingu á þeim leikjum var öllum hætt áður en kom að framlengingunni í vefútsendingu RÚV.

,,Það er alveg ljóst að þeir gætu gert betur," sagði Geir um nýtingu RÚV á rétti sínum. ,,SportFive er fullkunnugt um þá stöðu. Ríkissjónvarpið er með mjög mikilvægan miðil fyrir íslenska knattspyrnu og ég vonast til að þeir líti á það þannig líka sín megin og hafi áfram réttindi í íslenskri knattspyrnu. Við ræðum taktíska hluti við SportFive en að lokum eru það þeir sem taka ákvörðun um hverjum skal selja enda eru þeir búnir að kaupa af okkur. En við viljum hafa sem stærstan glugga fyrir íslenska knattspyrnu í íslensku sjónvarpi."

,,Það var ekki bara í fyrra heldur fyrri ár líka. Við hefðum gjarnan viljað sjá meiri sjónvarpssendingar frá bikarnum. Þetta er auðvitað eitthvað sem við munum skoða og SportFive mun skoða á komandi árum því það er það sem varan snýst um. Þeir þurfa líka að geta lyft vörunni upp með fleiri útsendingum. Nú er breyting á bikarkeppninni á þessu ári svo það gætu komið spennandi sjónvarpsleikir frá 32 liða úrslitum."

Sama má segja um kvennaboltann því RÚV sýndi aðeins einn leik í Landsbankadeild kvenna síðastliðið sumar. Það var úrslitaleikur KR og Vals og til að ná að sýna hann var leiktímanum breytt í 17:00 á virkum degi.

,,Því miður hefur okkur ekki tekist að selja kvennaréttinn en þegar maður lítur til baka hafa orðnar stórstígar framfarir. Það er von mín að í nánustu framtíð getum við gert okkur meiri mat úr því. Núna erum við með samning við RÚV um landsleiki kvenna og deild og bikar. Þeir hafa sinnt því ágætlega en hinsvegar eru mjög lágar og takmarkaðar greiðslur úr því."

,,Stelpurnar vilja meira og við viljum meira, en við höfum líka sýnt skilning og þolinmæði. Vonandi er hægt að auka þar og gera betur. Auðvitað snýst þetta líka um að fá tekjur af þessum réttindum. Það hefur ekki tekist með umtalsverðum hætti svo það er dýrmætt að fá þennan glugga og sýna kvennaknattspyrnu. Kvennalandsliðið hefur staðið sig með þeim hætti að þær eiga rétt á að fá góða og öfluga umfjöllun í sjónvarpi."


Að lokum spurðum við Geir hvort samningagerðin við SportFive hafi verið erfið og tekið mikinn tíma. ,,Þetta voru margir fundir á síðasta ári. Svona gerist ekki hratt. Þetta tekur langan tíma og svo voru maraþonfundir í Durban til að lemja þetta saman," sagði hann og í lokin játti hann því að um mikilvægasta samning KSÍ hafi verið að ræða.

,,Ég myndi segja það ef við lítum til teknanna. Þetta eru náttúrulega stærstu samningar sem við höfum gert og eru mjög mikilvægir fyrir rekstur sambandsins sem sífellt verður umfangsmeiri. Það þarf sífellt að afla meiri tekna. Kröfurnar aukast sífellt."
Athugasemdir
banner
banner
banner