Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   fim 06. mars 2008 08:00
Magnús Már Einarsson
2.deild: Hvað er að frétta af Húsavík?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Á síðasta ári var liður á Fótbolti.net sem nefndist "Hvað er að frétta?" en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild.

Rúmir tveir mánuðir eru í að Íslandsmótið hefjist og því er kominn tími til að blása lífi í þennan lið að nýju en hann verður á dagskrá allt þar til í haust og verður einu sinni í viku til að byrja með.

Fyrsta liðið sem við tökum púlsinn á er Völsungur á Húsavík en við lögðum nokkrar spurningar fyrir Jónas Hallgrímsson þjálfara liðsins.

Eldra úr liðnum: Hvað er að frétta?


Hvernig er stemningin á Húsavík þessa dagana? Hún er þokkaleg og það eru margir spenntir fyrir þessu. Við erum með ungt lið en það er svo sem ekki reiknað með mliku.

Eru miklar breytingar á liði ykkar frá því síðastliðið sumar? Já, það er enginn með sem var í fyrra en reyndar eru þrír eða fjórir sem komu inn á og spiluðu nokkra leiki. Þetta eru bara strákar úr öðrum og þriðja flokki og þrír sem eru komnir upp úr öðrum flokki, voru hættir, en eru að byrja aftur.

Nú auglýstuð þið eftir markverði á dögunum þar sem Björn Hákon Sveinsson, markvörður ykkar, verður í Danmörku í sumar. Hefur leitin að nýjum markverði borið árangur? Nei, við erum ekki stressaðir yfir þessu. Við erum ekki búnir að finna neinn, við erum búnir að hafa samband við tvo en ég veit ekki hvort eitthvað verður úr því.

Má búast við að fleiri leikmenn muni bætast í leikmannahóp ykkar fyrir sumarið? Það á eftir að koma einn Júggi hingað, sem hefur verið hérna í nokkur ár (Sreten Djurovic), og kannski annar með honum en það er ekki vitað. Hann er búinn að vera hér í mörg ár og vill koma aftur.

Í Powerademótinu var mikill meirihluti leikmanna ykkar undir tvítugsaldri. Er framtíðin ekki björt á Húsavík? Jú, hún er náttúrulega björt, það er enginn gamall að þvælast fyrir þeim og eftir tvö til þrjú ár verða þeir búnir að spila mikið saman. Það verður ekkert lið á landinu svona ungt og búið að spila svona marga leiki. Uppistaðan er 17-18 ára aldur þannig að eftir tvö til þrjú ár verður þetta flott hérna. Ef menn æfa vel og standa sig þá er bjart framundan en það tekur smá tíma.

Hvernig hefur undirbúningstímabilinu hjá ykkur verið háttað? Ég byrjaði fyrsta desember og við æfum bara innanhús. Við höfum engan völl og ekki neitt, við höfum bara venjulegt íþróttahús og það er eina aðstaðan okkar þannig að við æfum bara inni. Við spilum síðan bara í Powerademótinu og deildarbikarnum á Akureyri og fyrir Austan, það er það eina sem við höfum.

Ertu sáttur við spilamennsku liðsins í Powerademótinu og í æfingaleikjum til þessa? Já, miðað við að strákarnir eru ungir og hafa ekkert spilað. Ég var sáttur við sumt en ekki allt en þeir eru bara að læra þannig að ég var nokkuð sáttur við þetta.

Þú spilaðir sjálfur með Snerti í 3.deildinni í fyrra og lékst æfingaleik með Völsungi á dögunum. Má búast við að þú komir við sögu, 47 ára gamall, í 2.deildinni í sumar? Nei það held ég ekki. Ég ætla að spila kannski með Timburmönnum í utandeildinni í Boganum en ég ætla ekki að spila í 2.deildinni, ef þess þarf þá eru þeir orðnir lélegir.

Er einhver leikmaður úr liði ykkar sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar? Já já, það eiga þónokkrir leikmenn eftir að springa út í sumar. Ég vil ekki nefna þá en það eru nokkrir strákar sem eru á mjög góði róli, bæta sig mjög hratt og lofa góðu.

Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 2.deildinni í sumar? Ég held að það verði ÍR. Svo veit maður ekki með lið eins og Aftureldingu, Reyni og Víði, hvað þau fá af mönnum sem komast ekki í hóp hjá úrvalsdeildarliðum. Mörg lið fyrir sunnan geta fengið stráka sem hafa verið að æfa með úrvalsdeildarliðum og eru í toppstandi í byrjun móts. Það er enginn af þeim að koma eitthvert lengst út af landi. Þannig að ef einhver lið fyrir Sunnan ætla sér þá geta þau orðið þrælgóð ef þau ætla sér að styrkja sig eitthvað en ég held að ÍR-ingarnir eigi að vera langöflugastir.

Eitthvað að lokum? Þetta er ungt og efnilegt lið og á þremur til fjórum árum ættu þetta að geta orðið mjög öflugir strákar. Ef þeir halda sér í sama liðinu, æfa vel og ná framförum geta þeir orðið mjög góðir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner