Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
   fim 13. mars 2008 08:04
Magnús Már Einarsson
1.deild: Hvað er að frétta af Njarðvíkingum?
Guðni Erlendsson í leik gegn KR.
Guðni Erlendsson í leik gegn KR.
Mynd: Víkurfréttir - Þorgils
Mynd: Agl.is - Gunnar Gunnarsson
Mynd: Leiknir.com - Matthías Ægisson
Mynd: Víkurfréttir - Jón Björn Ólafsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild.

Liðurinn hófst að nýju eftir vetrarfrí í síðustu viku þegar við kíktum á stemninguna hjá Völsungi á Húsavík.

Að þessu sinni tökum við púlsinn á Njarðvíkingum sem mæta með nokkuð breytt lið til leiks í fyrstu deild í sumar. Guðni Erlendsson fyirliði liðsins sat fyrir svörum og hér að neðan má sjá afraksturinn.

Eldra úr liðnum: Hvað er að frétta?


Hvernig er stemningin hjá Njarðvíkingum þessa dagana?
Stemningin í Njarðvíkurliðnu er alltaf eins. Það er ákveðinn munaður fólginn í því að fá að spila fyrir ungmennafélagið sem gerir það að verkum að hópurinn er þéttur og leikmenn njóta hverrar mínútu. Sú samkennd sem ávallt hefur ríkt hjá félaginu verður ekki haggað, samkenndin er einmitt sá þáttur sem önnur lið af svæðinu öfunda okkur af.

Eru miklar breytingar á liði ykkar frá því síðastliðið sumar?
Já, þó nokkrar breytingar. Þeir Albert, Eyþór og Alfreð eru farnir í önnur lið, Snorri Már, Sverrir Þór, Matti og Sævar eru hættir. Þrátt fyrir þessar breytingar erum við vel settir, því inn í hópinn hafa komið sterkir spilarar upp úr 2. flokknum sem við ætlum að nýta okkur.

Bjarni Sæmundsson tvífótbrotnaði á dögunum og verður ekkert með ykkur í sumar. Það er væntanlega mikið áfall?
Jú, það var gríðarlegt áfall fyrir liðið að missa Bjarna Sæm., enda algjör lykilmaður í þessu liði. Mönnum var mjög brugðið. Reynsla hans og drifkraftur er svo sannarlega eitthvað sem hið unga lið Njarðvíkur hefði getað nýtt sér.

Má búast við að fleiri leikmenn muni bætast í leikmannahóp ykkar fyrir sumarið?
Nei, það er ekki á dagskrá. Við höfum góðan efnivið og ungu strákunum verður gefið tækifæri til að sanna sig í sumar. Í raun er stefnumótun okkar frábrugðin mörgum öðrum liðum og gildin að sama skapi önnur. Að klæðast græna búningnum er það sem knýr mína leikmenn áfram, en ekki kúlur eða kex.

Hvernig hefur undirbúningstímabilinu hjá ykkur verið háttað?
Undirbúningurinn hefur verið nokkuð hefðbundinn, en þó spiluðum við mun fleiri æfingaleiki fyrir áramót en við höfum að jafnaði gert. Helgi Arnars þjálfari tók við liðinu í haust og nýtti leikina fyrir áramót til að meta styrkleika hópsins. Eftir áramót höfum við síðan verið að þróa okkar leik í rétta átt.

Ertu sáttur við spilamennsku liðsins í Lengjubikarnum og í æfingaleikjum til þessa?
Spilamennskan í æfingaleikjunum var misjöfn en eftir að Lengjubikarinn byrjaði hefur verið góður stígandi í okkar leik. Við höfum spilað þéttan varnarleik og í fyrstu þremur leikjum bikarsins höfum við aðeins fengið eitt mark á okkur úr opnum leik. Í framhaldinu vinnum við að því að þróa okkar varnarleik enn frekar auk þessa að bæta við sóknarvopnum.

Hver eru markmið ykkar fyrir sumarið?
Grunnmarkmið okkar eru að búa til stöðugt lið sem spilar árangursríkan fótbolta. Að sama skapi er það einnig hluti af okkar markmiði að gefa þeim ungu og efnilegu leikmönnum sem ungmennafélagið á tækifæri til að þroskast og bæti sig sem knattspyrnumenn.

Nú tókuð þið nýjan heimavöll í notkun á síðustu leiktíð, hvernig hefur hann reynst ykkur?
Að hluta til vorum við sviknir síðastliðið sumar því gamli völlurinn var tekinn af okkur áður en sá nýi var tilbúinn. Af þeim sökum spiluðum við ekki heimleik fyrr en 2. júlí sem var slæmt bæði fyrir liðið og okkar dyggu stuðningsmenn. En í ár munum við hefja leik á okkar heimavelli sem mun eflaust reynast okkur vel nú sem áður. Til að mynda vorum við ósigraðir frá 1. júlí 2005 til 17. ágúst 2007 á okkar heimavelli og á ég ekki von á öðru en við verðum áfram sterkir á heimavelli.

Er einhver leikmaður úr liði ykkar sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Ég gæti nefnt mjög marga enda er liðið nánast einungis byggt upp á ungum og efnilegum leikmönnum fyrir utan mig og Gest, meðalaldurinn er rétt rúmlega 23 ár. En til að nefna einhverja nefni ég Ingvar markamann (19), Frans (18), Ísak (20) og Jón Hauk (23). Allt eru þetta strákar sem hafa alla burði til að verða toppspilarar ef hugur og hönd fara saman.

Telur þú að það sé pláss fyrir þrjú Suðurnesjalið í efstu deild?
Já, það gæti alveg hugsanleg gengið. Okkar vinna miðast við langtímaáætlun þar sem áhersla er lögð á uppbyggingu innan frá. Ef allt gengur upp hjá okkur er það ekki svo fjarstæðukennt að Njarðvík komi sér fyrir í efstudeild eftir einhvern tíma.

Gamla kempan Gestur Gylfason er núna orðinn 39 ára, er hann alltaf jafn sprækur?
Já, svo segja stelpurnar. Hann er alveg í lygilega góðu formi og hefur verið að spila mjög vel ásamt því að gera yngri leikmennina að betri leikmönnum.

Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 1. deildinni í sumar?
Það er mjög erfitt að segja á þessari stundu, en mín tilfinning segir að sigurvegarar sumarsins munu koma úr óvæntri átt.

Eitthvað að lokum?
Við verðum vopnaðir í sumar þó herinn sé farinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner