Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   fim 27. mars 2008 07:26
Magnús Már Einarsson
2.deild: Hvað er að frétta af Blönduósi?
Kristján Óli Sigurðsson í búningi Hvatar.
Kristján Óli Sigurðsson í búningi Hvatar.
Mynd: Fótbolti.net - Steinar Ægisson
Mynd: Fótbolti.net - Steinar Ægisson
Mynd: Fótbolti.net - Steinar Ægisson
Mynd: Kristján Blöndal
Mynd: Valgeir Kárason
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild.

Að þessu sinni förum við á Blönduós og tökum púlsinn á liði Hvatar sem mun leika í 2.deild í sumar eftir langa dvöl í 3.deild.

Kristján Óli Sigurðsson fyrrum leikmaður Blika tók við við þjálfun Hvatar síðastliðið haust en hann mun einnig leika með liðinu í sumar. Kristján Óli tók að sér að svara nokkrum spurningum fyrir komandi sumar.

Eldra úr liðnum: Hvað er að frétta?


Hvað er að frétta af Blönduósi?
Það er bara allt ljómandi gott að frétta. Enda styttist óðum í að tímabilið byrji og bæjarbúar fái að sjá sitt lið leika í 2.deild í fyrsta skipti í 20 ár. Þannig að ég held að tilhlökkunin sé mikil bæði meðal leikmanna, aðstandenda liðsins og bæjarbúa almennt.

Er liðið mikið breytt frá því síðastliðið sumar?
Já hafa orðið töluverðar breytingar milli ára. Það eru horfnir á braut nokkrir útlendingar ásamt nokkrum öðrum leikmönnum. Í staðinn eru komnir nokkrir afburðaleikmenn sem styrkja liðið mikið á öllum stöðum á vellinum, auk þess erum við með nokkra bráðefnilega stráka sem eiga eftir að fá fullt af tækifærum í sumar og verður gaman að sjá hvernig þeir nýta þau.

Býstu við að fá fleiri leikmenn fyrir sumarið?
Já ég geri fastlega ráð fyrir því að fá 1-2 sterka leikmenn í viðbót og þá erum við komnir með fullmótaðan hóp sem á að geta valdið hvaða liði sem er í 2. deild vandræðum.

Það vakti mikla athygli þegar þið fenguð Egil “Gillzenegger” Einarsson á dögunum. Mun hann spila mikið í sumar?
Það á bara eftir að koma í ljós. Hann mun fá sínar mínútur og ef ég þekki hann rétt þá mun hann setja pressu á þjálfarann með því að standa sig vel þegar hann fær tækifæri. Þannig að þetta er allt undir honum sjálfum komið, og það skal taka það skýrt fram að þetta er ekkert grín að við höfum fengið hann til liðs við okkur.

Hvernig hefur þér gengið að takast á við þjálfarahlutverkið?
Bara ágætlega hingað til. Eina sem hefur verið að valda mér vandræðum er snjórinn sem er búinn að vera alltof mikill hérna í vetur. Maður var orðinn svo góðu vanur í Blikunum að maður þurfti aldrei að pæla í veðri, en núna er maður búinn að þurfa að taka veðrið nokkrum sinnum á dag. Eins hef ég getað leitað til góðra manna með ráðleggingar um þjálfunaraðferðir, eins og Óla blikaþjálfara, Adda Grétars, Kristófers Sigurgeirssonar og Arnars Bill fyrrverandi aðstoðarþjálfara Blika.

Hvernig líst þér sjálfum á að leika í 2.deildinni?
Bara ágætlega. Ég er búinn að vera að spila við nokkur af þessum liðum í deildinni á undirbúningstímabilinu og það er skiljanlega töluverður munur á að spila við þau heldur en úrvalsdeildarliðin eins og maður er vanur. En verður mitt hlutverk að reyna að vera leiðtogi bæði innan sem utan vallar og vonandi gengur það vel.

Hver eru markmiðin fyrir sumarið?
Markmiðin okkar fyrir sumarið verða skýr. En ég er ekki að fara að ljóstra því upp hér og nú. Ég vona bara að menn taki okkur alvarlega í sumar því við erum ekki að fara í þessa deild til þess að rétt hanga í henni það er alveg á kristaltæru.

Hvernig hefur undirbúningstímabilinu verið háttað?
Það hefur bara gengið ljómandi vel hingað til. Við höfum verið að æfa 4-5 sinnum í viku frá áramótum í fótbolta, útihlaupum og lyftingum. Eins erum við búinir að spila nokkra æfingaleiki og liðið er að komast í fínasta form og menn hafa sloppið að mestu við meiðsli sem er mjög jákvætt. Þannig að við verðum klárir í fyrsta leik og rúmlega það.

Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Okkar helstu styrkleikar eru að við erum með mjög vel spilandi lið, frekar reynslumikið þó ungt sé. Eins er hópurinn mjög samheldinn og menn eru alltaf til í að fórna sér fyrir samherjann og það mun bara hjálpa okkur í sumar.

Ertu sáttur við spilamennsku og árangur liðsins í æfingaleikjum og Lengjubikarnum?
Já svona heilt yfir er ég það. Þó svo það sé allaf hægt að bæta sinn leik þá finnst mér hafa verið stígandi í okkar leik frá áramótum og hann á bara eftir að batna. Við höfum verið að skora mikið af mörkum og höldum því vonandi áfram og þegar við verðum búnir að þétta varnarleikinn þá verð ég sáttur.

Nú hafið þið æft í Reykjavík í vetur. Verður allur leikmannahópurinn á Blönduósi í sumar?
Það er afar ólíklegt. Einhverjir leikmenn verða hérna í bænum og munu æfa hér en spila með okkur. Það er bara þannig að þegar þú ert með lið úti á landi þá er ekkert grín að fá stráka úr bænum til þess að halda til úti á landi. Enda töluvert meira framboð af atvinnu í bænum, sérstaklega fyrir menn sem eru í eða búnir með háskóla. En það verður ekkert vandaál með það í sumar.

Er einhver leikmaður úr liði ykkar sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Ég veit það það eru nokkrir strákar sem eiga eftir að sýna í sumar að þeir geta spilað í betri deild en 2. deild það er á hreinu. Ég get nefnt nokkur nöfn eins og Aron Bjarna, Frosti bróðir hans, Gissur, Árni Einar, Ágúst Þór , Óskar Vignis og Bjarni Pálma eru allt menn sem geta gert verulega góða hluti í þessari deild í sumar. Það er svo bara þeirra að sýna það.

Hvaða lið telur þú sigurstranglegast í 2.deildinni í sumar?
Í raun og veru held ég að þetta snúist um hvað lið fari upp með ÍR. Ég held að sé ekki á neinn hallað þegar ég segi að ÍR sé með sterkasta mannskapinn og að öllu óbreyttu spila þeir í næst efstu deild á næsta ári. Eins eru lið eins og Afturelding og Höttur með góðan mannskap og gætu farið upp.

Eitthvað að lokum?
Vonandi flykkjast Blönduósingar bara á völlinn í sumar og styðja okkur af krafti í baráttunni sem framundan er.
Athugasemdir
banner
banner