Alonso mikill aðdáandi Zubimendi - Funda í þriðja sinn um Fernandes - Ten Hag að taka við Leverkusen?
   mán 07. apríl 2008 17:04
Hafliði Breiðfjörð
Margrét Lára Viðarsdóttir spilar með Val í sumar
Kvenaboltinn
Margrét Lára fagnar Íslandsmeistaratitli með Val haustið 2006.
Margrét Lára fagnar Íslandsmeistaratitli með Val haustið 2006.
Mynd: Karítas
Bikarmeistaratitli fagnað sama ár.
Bikarmeistaratitli fagnað sama ár.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Margrét Lára Viðarsdóttir landsliðskona Íslands og Íþróttamaður ársins 2007 hefur tekið ákvörðun um að leika með Val í sumar og fara ekki í atvinnumennsku erlendis að sinni. Þetta staðfesti hún í samtali við Fótbolta.net í dag.

Margrét Lára hafði hug á því að leika erlendis þetta árið og hafði meðal annars skoðað aðstæður hjá sænska félaginu Djurgården og Indiana í Bandaríkjunum en hefur nú tekið ákvörðun um að vera eitt ár til viðbótar með Val. Hún býst þó við að þetta verði hennar síðasta ár hér á landi.

,,Ég fór og kíkti á nokkur lið í haust og leist ekki nógu vel á það sem ég sá. Ég var reyndar mjög heit fyrir Bandaríkjunum og var að komin með annan fótinn þangað en svo klikkaði það og helsta ástæða þess var þau verkefni sem eru framundan með landsliðinu í sumar," sagði Margrét Lára í samtali við Fótbolta.net í dag.

,,Dagskráin er mjög stíf þar og það er mjög erfitt að fljúga 10 tíma í landsleiki þegar það er svona mikið í húfi eins og er hjá okkur í sumar. Svo hentar deildin í Bandaríkjunum okkur mjög illa. Hún er búin í byrjun ágúst og þá á landsliðið eftir marga sterka leiki, þar á meðal leik á móti Frakklandi. Ég taldi það ekki möguleika að vera ekki í standi í þeim leik. Þó ég hefði verið dugleg að æfa sjálf þá er það allt annað að vera að æfa á fullu með liði en að vera að æfa sjálf."

,,Ég ákvað því að fresta þessu um ár og ég ætla að skoða mín mál aftur í haust því auðvitað er draumurinn ennþá að fara út, það er engin spurning. Svo má ekki gleyma því að Valur er frábært félag og við erum með marga góða leikmenn og frábæran hóp og það er ekkert svo auðvelt að finna lið sem er jafnvel mannað og með jafn góða umgjörð og þjálfara eins og Valur."

,,Það sem ég sá núna í haust hreif mig ekki nægilega vel, en auðvitað langar mig út og það er alltaf stefnan og verður áfram. Það er langt tímabil framundan með Val og landsliðinu, Evrópukeppnin og undankeppni EM og ég reikna með að skoða málin aftur eftir það."

,,Ég veit að minn tími er að verða búinn á Íslandi og geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta er spurning hvað maður er sjálfur tilbúinn að leggja á sig til að ná árangri og verða betri.

,,Ég er líka byrjuð í háskólanámi á Íslandi og það er þannig með okkur stelpurnar að við lifum ekki á fótboltanum einum, við verðum að mennta okkur, það er það skref sem ég tók líka í haust, að fara og byrja að mennta mig. Ég tel það jafn nauðsynlegt og að fara út. Ég gæti náttúrulega tvinnað það saman með fótboltanum en það þarf líka að vera toppskóli og topplið á sama stað og ég þarf að gefa mér tíma til að finna svoleiðis."

Margrét Lára átti frábært tímabil með Val á síðstu leiktíð og skoraði 38 mörk í 16 leikjum í Landsbankadeildinni, eitt mark í einum bikarleik og átta mörk í sex leikjum í Evrópukeppni. Þá spilaði hún alla 9 landsleiki Íslands og skoraði í þeim átta mörk. Hún var í lok ársins kjörin Íþróttamaður ársins 2007.
Athugasemdir
banner
banner