Fimm af sex leikjum dagsins í fyrstu deild karla er lokið. ÍBV er á toppnum með sex stig eftir leiki dagsins en liðið lagði Þór 2-0 á útivelli. Víkingur Reykjavík lagði KA 3-1 þar sem Jón Guðbrandsson skoraði tvívegis.
Zoran Stojanovic skoraði bæði mörk Stjörnunnar í sigri á KS/Leiftri, Denis Curic tryggði Haukum stig gegn Fjarðabyggð í viðbótartíma og Víkingur Ólafsvík lagði Njarðvík 1-0. Kíkjum á umfjallanir um leiki dagsins.
Jón með tvö í sigri Víkings á KA
Víkingur Reykjavík 3 - 1 KA
1-0 Jón Guðbrandsson ('23)
2-0 Jón Guðbrandsson ('24)
3-0 Jimmy Hoyer ('70)
3-1 Dean Martin ('73)
Rautt spjald: Almarr Ormarsson (KA)
Víkingar tóku á móti KA mönnum í Víkinni í dag. Víkingar töpuðu 3-2 gegn Selfoss í fyrstu umferð deildarinnar, en KA gerðu 2-2 jafntefli gegn Fjarðabyggð.
Leikurinn fór frekar hægt af stað og engin almennileg færi sköpuðust fyrr en á áttundu mínútu leiksins og það var eftir hornspyrnu frá Dean Martin, spilandi þjálfara KA manna. Hann kom með góðan bolta inn í teiginn og Janez Vrenko skallaði boltan rétt framhjá markinu.
Hörður Sigurjón Bjarnason, leikmaður Víkinga átti góða sendingu inn fyrir vörn KA sem fór beint fyrir fætur Jóns Guðbrandssonar en hann var of lengi að afgreiða boltann þannig að Janez Vrenko hirti boltan af honum.
Fyrsta mark leiksins kom á 23.mínútu leiksins og þar var að verki Jón Guðbrandsson eftir gott samspil hjá Herði Bjarnasyni og Gunnari Kristjánssyni. Gunnar kom með sendinguna inn í teiginn og Jón var ekki í erfiðleikum með að afgreiða boltan í autt markið.
Aðeins einni mínútu síðar skoraði Jón Guðbrandsson annað mark Víkinga og aftur var það Gunnar Kristjánsson sem kom með sendingu inn í teiginn af vinstri kantinum eftir að hafa leikið á Srdjan Tufegdzic og Jón lagði boltann í fjær hornið, 2-0 fyrir Víking.
Ekkert markvert gerðist yfir þetta og Víkingar því í mjög góðri stöðu fyrir seinni hálfleikinn.
Á upphafsmínútum seinni hálfleiks fékk Almarr Ormarsson, fyrirliði KA manna að líta rauða spjaldið eftir að hafa slegið Hörð Sigurjón Bjarnason, leikmann Víkinga.
Róðurinn var mjög þungur fyrir gestina frá Akureyri eftir að rauða spjaldið kom og lágu þeir mest allan tímann á sínum vallarhelmingi. Jimmi Hoyer var að spila sinn fyrsta leik fyrir Víkinga eftir að hafa komið frá danska félaginu AGF fyrir tímabilið. Hann gerði sér lítið fyrir og kom Víkingi í 3-1 þegar hann skoraði beint úr hornspyrnu.
KA menn svöruðu fyrir sig aðeins þremur mínútum síðar þegar að Janez Vrenko var felldur rétt fyrir utan vítateig Víkinga og aukaspyrna dæmd. Dean Martin tók spyrnuna á meðan að Ingvar Kale, markvörður Víkinga var að stillla upp varnarveggnum og boltinn endaði uppi í fjærhorninu. Ekki urður mörkin fleiri og 3-1 sannfærandi sigur heimamanna því staðreynd.
Víkingur: Ingvar Þór Kale, Runólfur Sveinn Sigmundsson, Jimmi Hoyer, Milos Glogovac, Jón Guðbrandsson (Halldór Smári Sigurðsson '68), Gunnar Kristjánsson, Sinisa Kekic (Brynjar Orri Bjarnason ('88), Egill Atlason, Þórhallur Örn Hinriksson (Christopher Vorenkamp ('40), Þorvaldur Sveinn Sveinsson, Hörður Sigurjón Bjarnason.
KA: Sandor Matus, Arnar Már Guðjónsson, Dean Edward Martin, Janez Vrenko, Srdjan Tufegdzic, Guðmundur Óli Steingrímsson, Almarr Ormarsson, Ingi Freyr Hilmarsson, Andri Fannar Stefánsson, Steinn Gunnarsson (Þórður Arnar Þórðarson ('70), Norbert Farkas.
Ummæli eftir leik:
Jón Guðbrandsson leikmaður Víkings R.:
Aðspurður um hvort að samspil hans og Gunnars Kristjánssonar yrði það sem koma skyldi í sumar þá sagði hann: ,,Já,er það ekki? Við náðum mjög vel saman. Í rauninni var allt liðið að spila mjög vel, þó sérstaklega í fyrri hálfleik."
Jimmi Hoyer var að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið eftir að hann kom frá danska félaginu AGF fyrir tímabilið. Jóni fannst hann vera að spila vel. ,,Mér fannst hann standa sig frábærlega. Hann spilaði boltanum vel frá sér og kom mjög vel inn í liðið."
Jón sagði að leikurinn hafi verið í höndum Víkinga í fyrri hálfleik og þeir hafi átt sigurinn skilin. ,,Við vorum miklu betri í fyrri hálfleik. Vorum að spila vel. Þetta datt aðeins niður í seinni háflleik, en við áttum sigurinn hundrað prósent skilið," sagði Jón að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Fótbolti.net, Fossvogi - Davíð Atlason.
Tíu Eyjamenn lögð Þór
Þór 0-2 ÍBV
0-1 Atli Heimisson (26)
0-2 Andri Ólafsson (38)
Rautt spjald: Atli Heimisson ÍBV (30)
Þórsarar fengu í dag sterkt lið Eyjamanna í heimsókn en leikurinn fór fram í Boganum þar sem grasvellir Akureyrarbæjar eru ekki tilbúnir.
Jafnræði var með liðunum mestallan fyrri hálfleikinn en Eyjamenn voru hættulegri fram á við. Á 26.mínútu gerði Lárus Orri Sigurðsson mjög slæm mistök sem Atli Heimisson færði sér í nyt og kom Eyjamönnum yfir. Atli hafði fram til þessa verið í góðri gæslu hjá Lárusi og Atla Jens í vörn Þórsara. Markaskorarinn lét svo reka sig útaf fjórum mínútum eftir markið en hann braut á Árna Skaftasyni, markverði Þórs, og hikaði Frosti Viðar Gunnarsson ekki við að senda hann af velli með rautt spjald.
Þrátt fyrir að vera einum færri voru Eyjamenn hættulegri fram á við og á 38.mínútu skoraði Andri Ólafsson með skalla eftir aukaspyrnu. Stuttu seinna fékk Lárus Orri svo ágætis færi en skaut boltanum rétt yfir. Á 40.mínútu fór Árni Skaftason af velli vegna meiðsla sem hann hlaut er Atli Heimisson fékk rautt spjald. Gunnar Líndal kom í markið í hans stað.
Í hálfleik bættu Þórsarar í sóknina og fór Lárus Orri af velli fyrir Sigurð Marinó Kristjánsson. Á 56.mínútu fékk Hreinn Hringsson frábæra sendingu innfyrir frá Atla Sigurjónssyni og skoraði framhjá Alberti Sævarssyni en markið var dæmt af vegna rangstæðu sem Þórsurum fannst afar vafasamt.
Á 63.mínútu var annað vafaatriði en Sigurður Marinó var þá við það að komast fram hjá Alberti í markinu þegar Albert fellti hann. Dómarinn dæmdi aukaspyrnu en Albert fékk aðeins gult spjald og vildu Þórsarar sjá annan lit á spjaldinu, sem hefði e.t.v. verið réttari dómur. Aukaspyrnan frá Aleksandar Linta fór þónokkuð yfir.
Þegar þarna var komið við sögu voru Þórsarar farnir að færa sig verulega upp á skaftið en áttu erfitt með að finna leið framhjá Alberti sem átti stórleik í marki Eyjamanna. Á 78.mínútu fundu Þórsarar þó netmöskvuna þegar Ibra Jagne skoraði stórbrotið mark sem virtist fullkomnlega löglegt. Línuvörðurinn var þó ekki á sama máli og dæmdi markið af vegna rangstöðu.
Þórsarar gáfust ekki upp og á 79.mínútu átti Sigurður Marinó góðan skalla á markið en Albert Sævarsson var frábærlega staðsettur og varði vel. Þórsarar þjörmuðu að Eyjamönnum en allt kom fyrir ekki, Eyjamenn fóru með sigur af hólmi á Akureyri þrátt fyrir að vera manni færri meirihluta leiksins.
Fótbolti.net, Akureyri - Arnar Geir Halldórsson.
Curic tryggði Haukum stig í viðbótartíma
Fjarðabyggð 2 - 2 Haukar
1-0 Jóhann Benediktsson ('17)
2-0 Sigurður Víðisson ('67)
2-1 Guðmundur Kristjánsson ('77)
2-2 Denis Curic ('92)
Fjarðabyggð og Haukar mættust á gervigrasvellinum á Neskaupsstað í dag en bæði þessi lið gerðu jafntefli í fyrstu umferð.
Guðmundur Atli Steinþórsson framherj Fjarðabyggðar meiddist eftir korter í dag og inn á í hans stað kom Fannar Árnason.
Fannar var ekki lengi að láta til sín taka en tveimur mínútum síðar lagði hann upp mark fyrir Jóhann Benediktsson sem skoraði með skoti sem fór undir Atla Jónasson í marki Hauka.
Bæði lið þurftu að gera breytingu á sínu liði um miðjan hálfleikinn en Haukur Ingvar Sigurbergsson fyrirliði Fjarðabyggðar fór af velli eftir að hafa fengið höfuðhögg og Goran Lukic miðjumaður Hauka fór meiddur af velli.
Á 67.mínútu var brotið á Sveinbirni Jónassyni og í kjölfarið skoraði Sigurður Víðisson úr aukaspyrnunni og kom Fjarðabyggð í 2-0.
Haukar lögðu ekki árar í bát og tíu mínútum síðar minnkaði Guðmundur Kristjánsson metin en hann skallaði boltann í netið eftir aukaspyrnu frá Úlfari Pálssyni.
Í viðbótartíma skoraði Denis Curic síðan eftir sendingu Hilmars Trausta Arnarssonar frá vinstri og tryggði Haukum þannig stig. Lokatölurnar 2-2 og bæði lið hafa nú tvö stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í deildinni.
Ummæli eftir leik:
Magni Fannberg þjálfari Fjarðabyggðar:
,,Við gáfum þeim tvö stig, það er ekkert öðruvísi. Það er eins gott að við höfum efni á þessum tveimur stigum þegar að líður á mótið. Við vorum með leikinn alveg í hendi okkar og stjórnuðum alveg hvað fór fram þarna fyrir utan þessi tvö mörk."
Zoran Stojanovic stimplaði sig inn með tveimur mörkum
Stjarnan 2 - 1 KS/Leiftur
0-1 Sjálfsmark ('27)
1-1 Zoran Stojanovic ('36)
2-1 Zoran Stojanovic ('63)
Stjörnumenn byrjuðu betur gegn KS/Leiftri í Garðabænum í dag en það voru hins vegar gestirnir sem tóku forystuna á 27.mínútu.
Langur bolti kom fram völlinn þar sem Ragnar Hauksson var í kapphlaupi við varnarmenn Stjörnunnar. Bjarni Þórður Halldórsson markvörður Stjörnunnar kom út á móti, boltinn fór af honum og í Tryggva Svein Bjarnason og þaðan rúllaði boltinn hægt í átt að marki.
Tryggvi Sveinn og Kári Ársælsson ætluðu báðir að reyna að bjarga marki og þeir renndu sér báðir í boltann með þeim afleiðingum að hann fór yfir marklínuna. Afar slysalegt sjálfsmark og staðan orðin 1-0 KS/Leiftri í vil.
Um það bil tíu mínútum síðar átti Halldór Orri Björnsson góðan sprett upp völlinn, hann sendi síðan boltann á Zoran Stojanovic sem skoraði og jafnaði 1-1, í sínum öðrum leik með Stjörnunni.
Framherjarnir Þórður Birgisson og Oliver Jaeger voru ekki með KS/Leiftri í dag og því fór sóknarleikurinn mikið í gegnum Ragnar sem lék fremstur. Hins vegar voru það Stjörnumenn sem höfðu tögl og haldir og voru beittari.
Það skilaði sér og eftir þunga sókn komst Stjarnan í 2-1 á 63.mínútu. Eftir að hafa átt nokkrar hornspyrnur í röð barst boltinn aftur inn í teig eftir eina slíka, og þar var Zoran mættur á fjærstöng og skallaði í netið.
Undir lokin var Zoran í dauðafæri en hann var óeigingjarn, renndi boltanum á Halldór Orra sem var í góðu færi en Róbert Örn Óskarsson í marki KS/Leifturs varði.
Mörkin í Garðabæ urðu hins vegar ekki fleiri og Stjörnumenn unnu 2-1. Liðið er því með fjögur stig eftir tvo leiki en KS/Leiftur er án stiga eftir að hafa byrjað mótið á tveimur töpum á útivelli.
Ummæli eftir leik:
Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar:
,,Ég er þokkalega sáttur við spilamennsku liðsins en það er staðreynd að það er alltaf erfitt að spila við KS/Leiftur, þeir eru vel skipulagðir og þéttir. Við fengum á okkur klaufamark en náðum að vinna okkur út úr því og vinna leikinn."
Mark Gísla Freys gerði gæfumuninn í Ólafsvík
Víkingur Ólafsvík 1 - 0 Njarðvík
1-0 Gísli Freyr Brynjarsson ('64)
Víkingar tóku á móti Njarðvíkingum í miklum baráttuleik í Ólafsvík í dag. Leikurinn fór rólega af stað og greinilegt að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt enda þrjú dýrmæt stig í boði. Fátt markvert gerðist í upphafi leiks þó Víkingur hafi verið meira með boltann og öllu líklegri en gestirnir til þess koma knettinum í netið.
Njarðvíkingar sóttu hins vegar í sig veðrið og voru nálægt því koma boltanum í netið en vindurinn var mikill og mátti Einar Hjörleifsson markvörður Víkinga hafa sig allan við að koma knettinum frá.
Mikil stöðubarátta hafði verið fram að þessu en færin létu á sér standa. Á 32. mínútu fengu Njarðvíkingar dæmda vítaspyrnu þegar dómari leiksins Ólafur Ragnarsson taldi boltann hafa farið í höndina á Dalibor Nedic og verður þessi vítaspyrnudómur að teljast frekar vafasamur.
Kristinn Agnarsson steig á punktinn en Einar í markinu varði geysilega vel og má því segja að réttlætinu hafi þar með verið fullnægt. Eftir vítið fengu Víkingar tvö kjörinn marktækifæri. Það fyrra kom eftir snaggaralegt spil Ragnars Sigrúnarson og Dalibor upp vinstri kantinn sem endaði með því að Eyþór Guðnason fékk sendingu frá Kulas inn í teig en Ingvar Jónsson markvörður Njarðvíkinga varði skotið hjá Eyþóri úr þröngu færi, klárlega hættulegasta færi leiksins.
Seinna færið kom eftir stórhættulega sendingu frá Tryggva Hafsteinssyni hægra meginn og fékk Brynjar Gauti Guðjónsson úrvals skallafæri. Honum tókst hins vegar ekki að stýra boltanum fram hjá markverðinum sem gerði vel í markinu og greip boltann,0-0 í hálfleik staðreynd.
Seinni hálfleikur fór rólega af stað líkt og sá fyrri. Bæði lið vörðust vel og gáfu fá færi á sér. Það var þó á 60. mínútu þegar eina mark leiksins leit dagsins ljós þegar Gísli Freyr Brynjarsson kom knettinum í netið. Gísli þrumaði þá knettinum í netið af stuttu færi fram hjá markverði Njarðvíkinga eftir góða sendingu frá Brynjari Víðissyni. Lítið gerðist það sem eftir lifði leiks og tókst hvorugu liðinu að skapa sér hættuleg færi.
Þrjú baráttustig í höfn og ljóst að Víkingar koma vel stemmdir inn í mótið. Fjögur stig úr tveimur leikjum verður að teljast viðunandi og kærkomið í upphafi móts.
Athugasemdir