mán 26. maí 2008 16:05
Magnús Már Einarsson
2.deild: Leikmaður 2.umferðar - Ögmundur Rúnarsson (Grótta)
Ögmundur í markinu hjá Gróttu.
Ögmundur í markinu hjá Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Gróttu.
Úr leik hjá Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ögmundur Viðar Rúnarsson markvörður Gróttu er leikmaður 2.umferðar í annarri deild karla. Ögmundur varði oft á tíðum frábærlega í 1-1 jafntefli Gróttu og Hamars á föstudagskvöldið en hann varði meðal annars vítaspyrnu í leiknum.

Ögmundur Viðar Rúnarsson
Ögmundur Viðar Rúnarsson er þrítugur markvörður sem gekk til liðs við Gróttu í fyrra. Ögmundur lék með Val og KR á sínum yngri árum en hann hefur einnig leikið með Fjölni, KVA og Víkingi Reykjavík hér á landi.
,,Þetta kemur skemmtilega á óvart, þetta var ágætt. Það er aldrei leiðinlegt að taka vítaspyrnu," sagði Ögmundur við Fótbolta.net í dag.

Ögmundur varði einnig vítaspyrnu gegn ÍR í fyrstu umferð en reyndar þurfti hann að játa sig sigraðan undir lok leiksins gegn Hamar þegar að Ágúst Örlaugur Magnússon skoraði úr annarri vítaspyrnunni sem Hvergerðingar fengu í leiknum.

,,Það má segja að þetta sé ca 50/50 hvort menn skori úr víti hjá mér eða ekki," sagði Ögmundur í léttum tón og bætti við: ,,Ég les þá bara eins og opið klámblað."

Jöfnunarmark Hamars kom undir lokin og Ögmundur segir það hafa verið svekkjandi.

,,Þetta var frekar súrt. Það var nú ekki mikið eftir þegar við fengum þessa vítaspyrnu á okkur. Þeir voru ekki búnir að fá mikið af færum í seinni hálfleik þannig að þetta var óneitanlega svekkjandi."

,,Ég held að við séum með þokkalega fínan hóp. Það getur allt gerst ennþá. Mér sýnist þetta vera frekar jöfn deild."

,,Það virðist ekki vera mikið af því að menn séu að bursta einhverja í þessari deild, þetta virðast vera frekar jafnir leiki."


Ögmundur tók fram skónna með Gróttu í fyrra þegar að liðið komst upp úr þriðju deild karla en hann hafði áður ætlað að hætta í fótboltanum.

,,Ég er að reyna að kúpla mig út úr þessu en það gengur eitthvað erfiðlega. Ég er að klára doktorsnám í lyfjafræði og það er mikill tími sem fer í það en þetta er alltaf skemmtilegt, það er ekki hægt að neita því," sagði Ögmundur en Ásmundur Haraldsson þjálfari Gróttu fékk hann til að taka skóna af hillunni í fyrra.

,,Við erum gamlir kunningjar úr KR og vorum saman í menntaskóla og svona þannig að hann fann veika bletti á mér."

Grótta mætir Víði Garði í þriðju umferð og Ögmundur býst við erfiðri rimmu þar.

,,Það er alltaf erfitt að fara suður með sjó og það verður bara baráttuleikur eins og flestir leikir í þessu, þetta getur farið hvernig sem er," sagði Ögmundur að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner