Fjórðu umferðinni í fyrstu deild karla lauk í kvöld. Suðurlandsliðin ÍBV og Selfoss eru ennþá í efstu tveimur sætunum eftir sigra í kvöld. Fjarðabyggð og KA unnu einnnig heimasigra en við skulum kíkja á umfjallanir um leikina.
Selfoss með sigur í markaleik
Selfoss 5 - 2 Þór
1-0 Arilíus Marteinsson
1-1 Hreinn Hringsson
2-1 Sævar Þór Gíslason
2-2 Matthías Örn Friðriksson
3-2 Henning Jónasson
4-2 Viðar Örn Kjartansson
5-2 Henning Jónasson
Selfoss og Þór áttust við í fjörugum leik á Selfossvelli í dag, bæði þessi lið hafa farið vel á stað og spilað góðan sóknarbolta. Selfyssingar byrjuðu leikinn mun betur, heldu bolta og byggðu upp góðar sóknir.
Það skilaði árangri strax á 13. mínútu gaf Sævar boltann upp kantinn á Arnar Þór og hann gaf góðan kross fyrir á Arilíus sem nelgdi boltanum með vinstri í netið. Virkilega fallegt mark og staðan orðin 1-0 fyrir Selfoss.
Á 20 mínútu brutu Selfyssingar á Jagne innan teigs og réttilega dæmt víti. Hreinn Hringsson skoraði af öryggi úr vítinu. Aðeins þremur mínútum seinna var Henning tekinn niður í teignum hinu meginn og aftur var réttilega dæmt víti. Hjá Selfyssingum fór Sævar Þór á punktinn og setti boltann örugglega í netið. Staðan orðin 2-1 eftir 23 mínútur og liðin ekkert að slaka á í sínum sóknarleik.
Á 29. mínútu átti Sævar gott skot rétt yfir markið eftir hraða sókn. Tveimur mínútum seinna komst Viðar einn inn fyrir, en Gunnar markmaður Þórs varði vel. Á 35. mínútu virtist lítið vera að gerast í leiknum, en Matthías Örn var ekki á sama máli og hamraði boltann í netið af löngu færi, mjög fallegt mark.
Á 38. mínútu slapp Viðar Örn aftur einn inn fyrir en aftur var varið í horn. Úr horninu átti Dusan skot sem Þórs markmaðurinn varði skrautlega í annað horn. Og upp úr því skoraði Henning Eyþór Jónasson með glæsilegu skallamarki. Staðan því 3-2 fyrir Selfoss í hálfleik.
Lítið gerðist fyrstu 15 mínútur seinni hálfleiks og liðin líklega komið í síðari hálfleik með það markmið að fá ekki á sig mark. En á 60. mínútu tók Boban aukaspyrnu á fjær stöng og þar var Viðar Örn mættur og setti boltann örugglega í markið. 4-2 fyrir heimamenn. Nú tóku Selfyssingar öll völd á vellinum og áttu hverja sóknina á fætur annarri. á 67. mínútu komst Sævar Þór einn í gegn, en Kristján varnarmaður Þórsara tók boltann virkilega vel af honum.
Eftir nokkrar góðar sóknir Selfyssinga slapp svo Viðar í gegnum vörn Þórsara og gaf boltan út í teig á Sævar, en Gunnar í marki Þórs varði á ævintýralegann hátt. Hreinn Hringsson slapp svo einn í gegn mínútu seinna, en Elías í marki Selfoss lokaði markinu og varði vel.
Tíu mínútum fyrir leikslok var Sævar klipptur niður fyrir utan teig og Henning innsiglaði sigur Selfyssinga með fallegri aukaspyrnu í nær hornið. Henning var svo nálægt því að setja þrennuna rétt fyrir leikslok er skot hans fór rétt framhjá.
Selfyssingar unnu því sanngjarnan 5-2 sigur á vel spilandi liði Þórsara. Bæði lið voru að spila góðan fótbolta á köflum og góður dómari leiksins Garðar Örn lét leikinn fljóta vel. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en í þeim seinni tóku heimamenn öll völd á vellinum og 5-2 sigur síst of stór. Það má þó ekki taka það af Þórsurum að þeir hafa á að skipa góðu fótbolta liði, en í þessum leik voru Selfyssingar einfaldlega að spila virkilega vel. Selfyssingar halda því 2. sæti deildarinnar, en Þórsarar duttu niður í það 6. sæti.
Ummæli eftir leik
Hennig Eyþór Jónsson - Selfoss
,,Það var aðeins skjálfti í okkur í fyrri hálfleik og óþarfi að fá á okkur tvö mörk. Í hálfleik gerðum við taktískar breytingar eftir að hafa lesið Þórsara, sem notabene spila mjög góðann fótbolta. Seinni hálfleik áttum við svo algjörlega og eins og við spiluðum þá erum við nokkuð erfiðir viðureignar:"
Fótbolti.net Selfoss - Tómas Þóroddsson
Eyjamenn á toppnum með fullt hús
Víkingur Ólafsvík 0 - 2 ÍBV
0-1 Pétur Runólfsson ('43)
0-2 Ingi Rafn Ingibergsson
Völlurinn á Ólafsvík var rennblautur þegar að Eyjamenn sóttu Víking heim í kvöld.
Leikurinn fór rólega af stað, Eyjamenn voru meira með boltann en lítið gerðist þar til á markamínútunni eða 43.mínútu.
Eftir mistök í vörn Ólafsvík náði Pétur Runólfsson miðjumaður Eyjamanna að skora og staðan í leikhléi 1-0 fyrir ÍBV.
Víkingar komu sprækir til leiks í síðari hálfleik, breyttu í 4-3-3 og freistuðu þess að jafna. Vörn Eyjamanna hefur hins vegar verið firnasterk í sumar, gefið fá færi á sér og í kvöld var engin breyting þar á.
Þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma náðu Eyjamenn að innsigla 2-0 sigur þegar að Ingi Rafn Ingibergsson skoraði með skalla á nærstöng en boltinn fór undir Einar Hjörleifsson í marki Víkings.
Lokatölurnar 2-0 fyrir Eyjamenn sem hafa fullt hús eftir fjórar umferðir en liðið hefur ekki ennþá fengið mark á sig í sumar.
KA með góðan sigur á Haukum
KA 2- 1 Haukar
1-0 Guðmundur Steingrímsson (51)
1-1 Denis Curic (63)
2-1 Þórður Arnar Þórðarsson (76)
Kalt var í veðri og eilítil gola þegar Haukar sóttu KA menn heim.
Fyrri hálfleikur var bragðdaufur og tíðindalítill og lítið um opinn marktækifæri á báða bóga. Eina almennilega færi fyrri hálfleiks átti Steinn Gunnarsson eftir að hafa unnið boltann út við hliðarlínu og skaut á markið úr þröngu færi en Atli Jónasson varði vel.
Leikurinn því markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja. Í fyrri hálfleik voru liðin ekki mikið að gera sig líkleg til að skora en það átti eftir að breytast í þeim síðari.
Á 51. mínútu komust KA menn yfir. Dean Martin tók góða hornspyrnu og boltinn var laus í teignum og Guðmundur Óli Steingrímsson var fyrstur að átti sig og skoraði af stuttu færi.
Eftir markið sóttu Haukar stíft að marki KA og uppskáru mark upp úr því. Það gerðist á 63. mínútu þegar Denis Curic skoraði eftir að það kom löng sending frá miðju og hann nýtti sér misskilning milli varnarmann KA og Sandor Matus og teygði sig í boltann og jafnaði metinn fyrir gestina.
Eftir jöfnunarmarkið efldust gestirnir til muna og voru mun líklegri en heimamenn. KA áttu þó góðan skalla á 68. mínútu frá Janez Vrenko en Atli Jónasson varði meistaralega.
Á 76. mínútu fengu KA menn horn, boltinn barst út til Þórðar Arnars Þórðarsonar sem hamraði boltann í slá og inn. Gullfallegt mark frá Þórði en hann hafði komið inn á sem varamaður skömmu áður.
KA menn voru síðan hættulegri undir lok leiks og hefðu hæglega geta bætt við. Fyrsti sigur KA manna í sumar og þungu fargi létt af mörgum KA mönnum.
Ummæli eftir leik:
Arnar Már Guðjónsson leikmaður KA
,,Alveg frábært að taka loksins 3 stig. Þetta var mikill baráttuleikur og létu þeir okkur hafa mikið fyrir sigrinum. En við vorum við að spila mjög vel og vorum mjög þéttir og allir að berjast fyrir hvorn annan og það skilaði þessum sigri hérna í kvöld. Þetta gefur okkur auðvitað mikið sjálfstraust og frábært að geta gefið stuðningsmönnum sigur. Svo er stefnan bara sett á að halda áfram á þessari braut . "
Fótbolti.net, Akureyri - Aðalsteinn Halldórsson
Fjarðarbyggð lagði KS/Leiftur
Fjarðabyggð 2 - 1 KS/Leiftur
0-1 Agnar Sveinsson ('15)
1-1 Jóhann Ragnar Benediktsson (Víti) ('35)
2-1 Sigurður Víðisson ('76)
KS/Leiftur hóf leikinn af krafti á gervigrasvellinum á Norðfirði í kvöld og liðið uppskar mark eftir korter.
Einar Örn Daníelsson dæmdi vítaspyrnu á bakhrindingu og Agnar Þór Sveinsson steig á punktinn og skoraði.
Einar Örn hafði í nógu að snúast en hann þurfti að benda aftur á vítapunktinn síðar í hálfleiknum þegar ýtt var á bakið á Vilberg Marinó Jónassyni. Jóhann Ragnar Benediktsson steig á punktinn og jafnaði 1-1.
Þannig var staðan í leikhléi en KS/Leiftur var öllu sterkari aðilinn. Framan af síðari hálfleik snerist dæmið síðan við og heimamenn voru sterkari.
Fjarðabyggð uppskar síðan mark þegar um korter var til leiksloka. Sigurður Víðisson tók þá til sinna ráða og skoraði með laglegu skoti fyrir utan teig en boltinn fór niður í bláhornið.
Fjarðabyggð bar 2-1 sigur úr býtum en liðið er ennþá taplaust eftir fjórar umferðir. Eftir tvö jafntefli hefur liðið nú unnið tvo leiki í röð og situr í þriðja sætinu með átta stig. KS/Leiftur er hins vegar í tíunda sæti með eitt stig en liðið hefur leikið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum á útivelli.
Ummæli eftir leik:
Ragnar Hauksson spilandi þjálfari KS/Leifturs:
,,Við fengum 0 stig en við erum á útivelli og það erum við sem erum að spila boltanum meðan þeir eru að kýla langa bolta og að minni hálfu finnst mér þeir ekki einu sinni reyna að spila boltanum."
,,Við keyrum framhjá iðagrænum grasvelli og þurfum að koma hingað á gervigras sem er ótrúlegt. Þú líkir ekkert saman grasi og gervigrasi, þetta er allt annar fótbolti."
,,Þetta er þriðji útileikurinn okkar núna og allir tapast með einu marki. Það er spurning hvor við þurfum að endurskoða þetta og fara í sömu taktík og aðrir en það er eitthvað sem ég vil ekki. Stigin þurfa að fara að koma í hús og ég er klár að þau fari að koma."
Athugasemdir