
Gífurlega öflugir stuðningsmenn Selfoss sem sungu stöðugt í stúkunni í kvöld svo ómaði um allan Hafnarfjörð.

Leinismaðurinn Einar Orri Einarsson í baráttu við Dalibor Nedic í leik Leiknis og Víkings Ólafsvíkur í kvöld.
Heil umferð var leikin í 1. deild karla í kvöld þar sem topplið ÍBV hélt áfram sínu striki og vann sinn leik og lið Selfoss vann Hauka og er í öðru sæti deildarinnar. Hér að neðan má sjá umfjallanir um leiki kvöldsins.
Sævar Þór afgreiddi Hauka
Haukar 1 - 3 Selfoss
0 -1 Henning Eyþór Jónasson ('16)
1-1 Hilmar Trausti Arnarsson ('80)
1-2 Sævar Þór Gíslason ('82)
1-3 Sævar Þór Gíslason ('90+)
Það var ágætis veður í Hafnarfirðinum í kvöld þegar Selfyssingar heimsóttu Hauka. Lítið gerðist fyrstu mínúturnar en úr fyrsta færi leiksins kom mark. Það voru gestirnir sem skoruðu f yrsta markið.
Uppúr litlu skaut Henning Eyþór Jónasson að marki Hauka rétt fyrir utan teig, skot hans hnitmiðað í hornið. Staðan orðin 1-0 eftir 16. mínútna leik.
Stuttu síðar átti Henning annan skallan að marki Hauka eftir sendingu frá fyrirliða Selfoss, Jón Steindóri Sveinssyni, en skalli Hennings var varinn.
Á 22.mínútu kom fyrsta færi Hauka, Hilmar Geir átti fyrirgjöf á Denis Curic sem átti skot að marki Selfoss, en Elías Örn Einarsson í marki Selfoss varði vel með fótunum. Eftir þetta sóttu heimamenn mun meira og á 30. mínútu átti Guðmundur Kristjánsson skot í stöng. En rétt áður átti Denis Curic skot fyrir utan teig sem fór rétt framhjá.
Áfram héldu Haukamenn að sækja, á 33.mínútu björguðu Selfyssingar á línu. Og fengu Haukamenn horn, og úr horninu varði Elías á línu.
Síðasta færi fyrri hálfleiks áttu heimamenn, Denis átti þá skalla eftir sendingu frá Hilmari Geir, en Elías varði glæsilega í horn.
Í seinni hálfleik var mun minna um opin færi, fyrsta færi seinni hálfleiksins áttu Selfyssingar. Eftir 20. mínútna leik í seinni hálfleik átti Henning skalla en Atli varði nokkuð örugglega.
Heimamenn jöfnuðu síðan á 80.mínútu. Brotið var á Hilmari Trausta rétt fyrir utan teiginn fyrir miðju, hann tók spyrnuna sjálfa og skoraði úr henni. Staðan orðin jöfn 1-1.
Selfyssingar voru ekki lengi að komast yfir aftur. Eftir góða sendingu frá Viðari Erni Kjartanssyni, slapp Sævar Þór einn inn fyrir vörn Hauka og kláraði færið af sinni einkunni snilld.
Á 85.mínútu fékk Denis Curic frábært tækifæri til að jafna leikinn, eftir langa sendingu fyrir frá varamanninum Ediloni Hreinssyni, fékk Ásgeir Ingólfsson boltann inn í teig sendi út í teig á Denis Curic sem var einn og óvaldaður en skot hans rétt framhjá.
Í uppbótartíma kláruðu Selfyssingar síðan leikinn, Viðar Örn átti þá aftur sendingu inn fyrir vörn Hauka á Sævar Þór sem skoraði að öryggi. 3-1 og um 2 mínútur eftir.
Áður en Hans Kristján Scheving dómari leiksins flautaði leikinn af, áttu Haukar gott færi, en Hilmar Trausti átti þá skot í samskeytin og beint í fangið á Elíasi sem hélt Selfyssingum á floti í leiknum.
Lokastaðan í leiknum 1-3 Selfyssingum í vil. Lánleysi Hauka við mark Selfoss var algjört og voru leikmenn Selfyssinga himinlifandi eftir leikinn en þeir voru aftur á móti allir sammála um að sigurinn hafi ekki sanngjarn miðað við gang leiksins. Miðað við færin í leiknum var sigur Selfyssinga nokkuð gegn gangi leiksins, en það eru ekki færin sem sigra leikinn, heldur mörkin.
Fótbolti.net, Hafnarfirði - Arnar Daði Arnarsson.
Eyjamenn enn með fullt hús stiga eftir góðan sigur
ÍBV 3 -0 Fjarðarbyggð
1-0 Bjarni Rúnar Einarsson ('42)
2-0 Andri Ólafsson ('49)
3-0 Agustine Nsumba ('50)
Gott veður var í Eyjum, völlurinn góður og byrjaði leikurinn af krafti.
Fyrsta færi leiksins kom strax eftir hálfa mínútu þegar Atli Heimisson fékk boltann inni í teig eftir sendingu utan af kanti en Srdjan Rajkovic í marki Fjarðabyggðar handsamaði boltann rétt áður en Atli náði að gera sér mat úr færinu. Þar rétt á eftir áttu Fjarðabyggð sitt fyrsta skot að marki en það var Guðmundur Atli Steinþórsson sem átti það en Albert Sævarsson í marki ÍBV varði vel.
Lítið gerðist eftir þessi tvö færi á upphafsmínútum leiksins og það var ekki fyrr en á 15 mínútu sem næsta markverða skot átti sér stað. Eyjamenn lögðu þá af stað í góða sókn þar sem Bjarni Rúnar Einarsson fór illa með varnarmenn Fjarðarbyggðar þangað til á síðustu stundu þegar þeir náðu að hrifsa boltann af Bjarna, boltinn barst þá á Augustine Nsumba sem átti ágætis skot að marki en Srdjan í marki Fjarðarbyggðar varði og hélt boltanum vel.
Eftir um 20 mínútna leik fá heimamenn svo aukaspyrnu ekki langt fyrir utan teig þegar brotið var á Nsumba. Matt Garner tók spyrnuna sem fór beint á kollinn á Andra Ólafssyni sem átti fínan skalla að marki en beint á Srdjan sem greip boltann auðveldlega. Strax á næstu mínútu áttu Fjarðarbyggð svo sitt annað skot að marki og var það Sveinbjörn Jónasson sem skaut að marki en beint í fangið á Albert.
Eftir hálftíma leik skapar Bjarni Rúnar sér svo gott skotfæri inni í teig gestanna og lét vaða með vinstri fæti en Srdjan varði og náði að kasta sér á boltann sekúndubrotum áður en Atli komst að honum.
Það dró svo til tíðinda þegar 5 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þegar Nsumba fékk boltann utan á kanti, fór framhjá tveimur varnarmönnum Fjarðarbyggðar og sendi inn á miðju þar sem Bjarni Rúnar tók við boltanum, tók eina snertingu og hamraði boltann svo að marki þar sem Srdjan í marki gestanna kom engum vörnum við. Glæsilegt mark og heimamenn komnir í 1-0.
Seinni hálfleikur byrjaði með látum og voru það Eyjamenn sem spiluðu mjög hátt uppi og pressuðu. Þessi pressa skilaði árangri og strax eftir þriggja mínútna leik í seinni hálfleik skoruðu heimamenn sitt annað mark. Andri Ólafsson sendi þá háa sendingu fyrir á Bjarna Rúnar sem skallar boltann aftur inni í teig, þar er Anton Bjarnason mættur og á lausan skalla í átt að marki, en þá teigir Andri sig í boltann og nær að stýra honum í hornið þar sem Srdjan átti ekki möguleika á að ná honum.
Strax mínútu seinna kom svo þriðja markið. Eyjamenn lögðu þá upp í góða sókn og létu boltann ganga sín á milli, Bjarni Rúnar lagði svo boltann fyrir Augustine Nsumba, eða Gústa eins og hann er kallaður, sem gerði sér lítið fyrir og setti boltann í netið með vinstri fæti fyrir utan teig. Óverjandi fyrir Srdjan.
Fallegt mark og ÍBV að leiða leikinn með þremur mörkum gegn engu.
Atli Heimisson var svo nálægt því að skora fjórða markið þegar hann komst einn í gegn eftir glæsilega þversendingu frá Bjarna Rúnari. Atli vippaði boltanum yfir Srdjan í markinu en Haukur Ingvar Sigurbergsson, fyrirliði gestanna, náði að hreinsa áður en Atli komst að boltanum. Illa farið með gott færi.
Um miðjan seinni hálfleik átti Egill Jóhannsson gott skot að marki sem Srdjan í marki gestanna varði vel yfir markið.
Bæði lið skiptust svo á að halda boltanum án þess þó að skapa sér nein alvöru færi þangað til á 80 mínútu. Fjarðabyggð áttu þá sitt fyrsta skot að marki í seinni hálfleik. Fannar Árnason fékk þá boltann inni í teig og átti fínt skot að marki en Albert í marki Eyjamanna varði auðveldlega.
Stuttu seinna fengu Fjarðabyggð svo ákjósanlegt færi til að setja mark sitt á leikinn þegar há sending kom fyrir og boltinn datt inni í markteig, beint fyrir framan markið þar sem varnarmenn Eyjamanna voru ekki alveg með á nótunum en Sveinbjörn Jónasson kom boltanum ekki yfir línuna þrátt fyrir dauðafæri.
Strax í sókninni á eftir á Guðjón Ólafsson, nýkominn inn á sem varamaður í lið ÍBV, gott skot að marki gestanna þar sem Srdjan þurfti að kasta sér til að verja boltann, góð markvarsla.
Ingi Rafn Ingibergsson, sem einnig kom inn sem varamaður í lið heimamanna, átti svo tvö dauðafæri í röð. Bæði skot innan úr teig en skot hans silgdu bæði framhjá markinu.
Þessi skot Inga reyndust síðastu færi leiksins og 3-0 sigur Eyjamanna gegn slöku liði Fjarðabyggðar staðreynd.
Fótbolti.net, Vestmannaeyjar - Einar Kristinn Kárason.
Ekkert nýtt á Leiknisvelli
Leiknir R. 0 -0 Víkíngur Ólafsvík
Leiknismenn fengu sitt fyrsta stig í deildinni þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við Víkinga frá Ólafsvík á Leiknisvelli í kvöld. Heimamenn stjórnuðu leiknum frá fyrstu mínútu en Víkingar voru samir við sig og spiluðu með fjölmenna, öfluga og skipulagða varnarlínu. Þar fór Dalibor Nedic mikinn og átti stórleik í hjarta varnarinnar. Niðurstaðan því 0-0.
Þrátt fyrir leiðinlegan leik áhorfs var mikill hressleiki á vallarsvæðinu þar sem trompetleikur tröllreið öllu. Einar Hjörleifsson varði oft á tíðum meistaralega í marki Ólafsvíkinga. Jakob Spangsberg átti fína skottilraun í fyrri hálfleik en Einar varði vel. Þá skaut Vigfús Arnar Jósepsson naumlega framhjá marki gestanna.
Í seinni hálfleik komst varamaðurinn Sævar Ólafsson næst því að brjóta ísinn en Einar varði bylmingsskot. Danski varnarmaðurinn Rune Koertz var að leika sinn fyrsta leik fyrir Leikni í Íslandsmóti og náði að koma knettinum í netið eftir hornspyrnu. Hinsvegar dæmdi dómari leiksins, Gunnar Sverrir Gunnarsson, aukaspyrnu þar sem hann taldi að brotið hefði verið á Einari Hjörleifssyni markverði.
Eina færi Víkings í leiknum var hálffæri en þá átti framherjinn Alfreð Elías Jóhannson skalla framhjá. Alfreð skellti sér síðan í vörnina í lokin enda var pakkinn orðinn ansi þéttur hjá Víkingum.
Fótbolti.net, Breiðholti - Orri Eiríksson
Sanngjarn sigur Stjörnunnar á Þórsurum
Þór Akureyri 0-3 Stjarnan
0-1 Þorvaldur Árnason ('35)
0-2 Ellert Hreinsson ('75)
0-3 Daníel Laxdal ('93)
Í kvöld tóku Þórsarar á móti Stjörnunni frá Garðabæ í fimmtu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Fyrir leikinn bjuggust flestir við jöfnum leik þar sem liðin voru á svipuðum stað í töflunni. Gestirnir sáu hins vegar til þess að leikurinn væri aldrei spennandi og voru með leikinn í höndum sér nánast allan tímann.
Þorvaldur Árnason kom gestunum á bragðið með laglegu marki á 35. mínútu, Ellert Hreinsson jók síðan forystu Stjörnumanna á 75. mínútu eftir laglega sókn gestanna. Loks rak Daníel Laxdal endahnútinn á góðan sigur Stjörnumanna þegar hann skoraði þriðja mark stjörnunnar í uppbótartíma, og því sanngjarn 0-3 sigur stjörnunnar í höfn.
Leikurinn byrjaði aftur á móti mjög rólega, bæði lið fengu nokkur hálffæri en ekkert meir. Það var greinilegt að bæði lið vildu ekki taka neina áhættu í byrjun leiks og spiluðu því mjög varnfærnislega. Það var síðan á 22. mínútu þegar Þórsarar náðu loks skoti að marki gestanna þegar Mattíhas Friðriksson skaut af 20. metra færi en skotið fór hins vegar langt framhjá marki Stjörnunnar.
En á 35. mínútu fengu gestirnir sitt fyrsta alvöru færi sem þeir nýttu heldur betur vel. Zoran Stojanovic var með boltann á miðjum vallarhelmingi heimamanna þegar Kristján reyndi tæklingu til að freistast til að ná boltanum, en tæklingin var ekki nógu góð þannig að Zoran hélt boltanum og náði að renna knettinum til Þorvaldar Árnasonar sem renndi boltanum nett í fjærhornið framhjá Árna Skaptasyni markverði Þórs. 0-1, Stjörnumönnum í vil.
Eftir markið virtust heimamenn í Þór nokkuð vankaðir, og áttu í erfiðleikum með að spila á milli sín og skapa sér hættuleg færi. Hvorugt liðinu tókst að skapa sér einhver færi áður en Ólafur Ragnarsson hinn ágæti dómari leiksins flautaði fyrri hálfleik af.
Seinni hálfleikur byrjaði þó fjörlega, en Zoran Stojanovic komst skyndilega í gegnum vörn þórs á fyrstu mínútu seinni hálfleik, en skot hans var ekki nægilega gott og Árna Skaptason náði að verja skotið. Það var ekki fyrr en á 53. mínútu sem Þórsarar fengu sitt fyrsta alvöru marktækifæri þegar Hreinn Hringsson á fast skot inn í teig að marki Stjörnunnar, en því miður fyrir heimamenn fór boltinn beint á Bjarna Þórð Halldórsson markmann Stjörnunnar.
Það var síðan á 75. mínútu þegar Stjörnumenn nánast kláruðu leikinn. En Stjörnumenn ná að spila ágætlega á milli sín, sem endar á því að Ellert Hreinsson fékk laglega sendingu inn fyrir vörn þórs sem hann klárar með því að renna boltanum framhjá Árna Skaptasyni. 0-2 fyrir gestinna og leikurinn nánast því búinn.
Þórsarar reyndu þó hvað sem þeir gátu til að reyna að minnka muninn,en ekkert gekk. Lárus Orri þjálfari Þórs greip meira segja til þess ráðs að setja hinn reynda leikmann Hlyn Birgisson í fremstu víglínu, en sem fyrr fundu heimamenn enga glufu á vörn gestanna. Stjörnumenn kláruðu síðan leikinn með stæl þegar Daníel Laxdal lauk góðri sókn Stjörnumanna á 93. mínútu með því að renna boltanum í fjærhornið framhjá Árna,staðan því 0-3 fyrir gestinna og leikurinn búinn. Þegar Þórsarar tóku síðan miðjuna flautaði Ólafur Ragnarsson dómari leiksins leikinn af og því sanngjarn 0-3 sigur Stjörnunnar í höfn.
Þórsarar voru frekar slappir í leiknum, náðu einstöku sinnum að spila boltanum sín á milli en náðu aldrei að ógna Stjönumönnum neitt af viti. Vörnin hjá heimamönnum var ekkert til að hrópa húrra yfir, miðjan var ekki nógu sterk og það vantaði allan brodda í sóknarleik heimamanna. Hins vegar náðu Stjörnumenn að loka vel á heimamenn, og í raun stjórnuðu þeir leiknum algjörlega.
Þó svo að þegar staðan væri 0-1 voru þeir aldrei í neinni hættu. Það reyndi lítið sem ekkert á vörn Stjörnunnar þar sem Þórsarar sköpuðu sér fá færi, en miðjumenn og sóknarmenn Stjörnunnar áttu góðan leik, enda stjórnaði miðja Stjörnunnar algjörlega hraða leiksins. 0-3 sigur Stjörnunnar því mjög sanngjarn enda nýttu gestirnir sóknirnar sínar mjög vel.
Ummæli eftir leik:
Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar var að vonum kátur með sigurinn í kvöld. ,,Ég er bara mjög ánægður. Leikurinn hjá okkur í fyrri hálfleik var algjör hörmung, en við erum að verjast mjög vel og það er ég kannski ánægðastur með," sagði Bjarni við Fótbolta.net eftir leikinn.
,,Það er alltaf erfitt að koma hingað norður og spila við Þór og við vissum það að ef við værum þolinmóðir þá myndum við fá færin. Staðan var mjög hagstæð fyrir okkur í hálfleik og þéttum bara pakkan í seinni hálfleik og unnum þetta miklu léttar fyrir okkur og nýttum færin okkar vel í lokin."
,,Varnarleikurinn var afburða vel spilaður hjá okkur í þessum leik. En eins og ég sagði áðan var fyrri hálfleikurinn illa spilaður, héldum þó boltanum betur í síðari hálfleik og náðu mjög hættulegum skyndisóknum á þá. Við erum með ferska stráka frammi og erum að fá nýja menn núna inn í þetta ennþá, þannig að ég fer héðan hrikalega sáttur með þrjú stig og þrjú mörk."
,,Þetta er langt og strangt mót. Fara núna tvo leiki í viku og við verðum að vera vel undirbúnir, nýta skiptimennina okkar vel og láta fleiri hlaupa þetta. Við erum komnir með tíu stig og ég er bara mjög sáttur með það eins og staðan er núna".
Fótbolti.net, Akureyri - Sölmundur Karl Pálsson.
Góður heimasigur hjá Njarðvík gegn KA
Njarðvík 1 - 0 KA
1-0 Frans Elvarsson
Njarðvíkingar fengu KA menn í heimskón á Njarðtaksvöllinn í kvöld. Leikurinn hófst með mikilli baráttu beggja liða og eftir 5 mínútna leik fékk framherji KA manna stungu sendingu innfyrir vörn Njarðvíkinga en Ingvar Jónsson markvörður sá til þessa að enginn hætta skapaðist.
Á 9. mínútu kom sending inn í teig KA manna, Jón Haukur fékk boltann og gaf sendingu fyrir markið en þar kom KA maður í veg fyrir að Aron Smárason fengi boltann. KA menn sóttu mikið upp hægri kantinn og gáfu fyrirgjafir án þess að nokkuð skapaðist.
Frans Elvarsson vann svo boltann fyrir framan vítateig KA-inga og gaf boltann á samherja sinn og fékk hann aftur og skoraði eftir ágætis skot, markið kom á 18. mínútu.Tveimur mínútum seinna fékk Aron Smárason boltann og stakk sér á milli tveggja KA manna og skot hans var máttlaust.
Almar Ormarsson fékk að líta gult á spjald á tuttugustu mínútu eftir að hafa brotið af sér.
KA menn sóttu ennþá upp kantana en ekkert varð úr því .
Njarðvíkingar fengu svo hornspyrnu boltinn datt fyrir utan teiginn þar sem Kristinn Björnsson fékk boltann en skaut framhjá.
Hálfleikstölur 1-0 fyrir heimamenn. Síðari hálfleikur byrjaði að krafti og framan af voru KA menn sterkari og sóttu mikið án árangurs. Allt varð vitlaust þegar leikmaðurKA féll í vítateig Njarðvíkinga en ekkert var dæmt.
Á 72. mínútu skaut Janez Vrenko fram hjá marki Njarðvíkinga eftir að KA komust í skyndisókn þrír á móti þremur. Lítið gerðist efitr þetta og lokatölur voru 1-0 fyrir heimamenn í Njðarvík.
Fótbolti.net, Njarðvík - Hlynur og Teitur Árni.
Umdeilt mark jafnaði metin á Siglufirði
KS/Leiftur 1 -1 Víkingur R.
1-0 Ivan Milenkovic
1-1 Jóhann Örn Guðbrandsson
Víkíngur Reykjavík sótti KS/Leiftur heim í kvöld en fyrir leikinn voru Víkíngar voru með sex stig en KS/Leiftur aðeins eitt.
Valur Úlfarsson fyrirliði Víkings var ekki með þar sem hann þurfti að fara erlendis í starfsviðtal.
Fyrri hálfleikur var mjög bragðdaufur og lítið sem ekkert var um færi. Boltinn var mest megnis á miðju vallarins og því var fótboltinn ekki mikið fyrir augað.
Staðan var 0-0 í einkar bragðdaufum leik þegar flautað var til hálfleiks.
Síðari hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri var, lítið um færi en KS/Leiftur voru þó ögn sterkari aðilinn.
En þvert gegn gangi leiksins komust Víkíngar yfir þegar Ivan Milenkovic skallaði knöttinn í netið. Fyrirgjöf kom inn í teiginn og þar kom Milenkovic og stangaði boltann á fjærstönginni.
Eftir að Víkíngur komst yfir pressuðu leikmenn KS/Leiftur stíft að marki og Þórður Birgisson skaut í stöng en hann var þá kominn inná sem varamaður.
Þegar lítið var eftir af leiknum skoraði Jóhann Örn Guðbrandsson og jafnaði fyrir KS/Leiftur. Hann lék á varnarmann Víkínga og setti knöttinn í fjærhornið. Markið var umdeilt Víkíngar vildu fá aukaspyrnu stuttu áður.
Eftir þetta fjaraði leikurinn út og jafntefli því staðreynd. KS/Leiftur með tvö stig en þau hafa bæði komið á heimavelli en Víkíngur er með sjö stig.
Athugasemdir