Sjöunda umferðin í fyrstu deild karla hófst í dag þegar að fimm leikir voru á dagskrá en umferðinni lýkur annað kvöld þegar að Njarðvík og Selfoss mætast.
Topplið ÍBV heldur áfram sínu skriði en liðið lagði KA á heimavelli í dag og er nú með átta stiga forskot en það gætu þó breyst eftir leikinn hjá Selfyssingum annað kvöld.
Stjarnan sigraði Víking Ólafsvík örugglega, Leiknir vann sinn fyrsta sigur í sumar þegar að liðið lagði Víking R., Haukar lögðu KS/Leiftur á Ólafsfirði og Þór sigraði Fjarðabyggð 1-0 á heimavelli.
Þrjú skallamörk hjá Stjörnunni
Stjarnan 3 - 0 Víkingur Ó.
1-0 Þorvaldur Árnason ('23)
2-0 Zoran Stojanovic ('47)
3-0 Ellert Hreinsson ('58)
Daníel Laxdal fékk tvö góð færi til að koma Stjörnumönnum yfir í dag áður en fyrsta markið leit dagsins ljós.
Bjarki Páll Eysteinsson tók aukaspyrnu, Zoran Stojanovic flikkaði boltanum áfram á Þorvald Árnason sem skallaði í netið og Stjörnumenn komnir yfir.
Undir lok fyrri hálfleiks slapp Eyþór Guðnason leikmaður Víkings í gegn en hann náði ekki að gera sér mat úr færinu.
Strax í upphafi síðari hálfleiks komust Stjörnumenn í 2-0. Björn Pálsson, sem lék mjög vel í dag, átti góða stungusendingu fram á Zoran sem skoraði í annarri tilraun með skalla.
Um það bil tíu mínútum síðar átti Halldór Orri Björnsson hornspyrnu og Ellert Hreinsson var mættur á nærstöng þar sem hann skoraði með skalla.
Stjörnumenn hefðu getað bætt við fleiri mörkum en Einar Hjörleifsson stóð vaktina vel í marki Víkings.
Með þessum sigri eru Stjörnumenn með 14 stig í öðru sætinu líkt og Selfyssingar sem eiga leik til góða gegn Njarðvík annað kvöld.
Atli afgreiddi KA í sólinni í Eyjum
ÍBV 1 - 0 KA
1-0 Atli Heimisson ('66)
Leikur ÍBV og KA byrjaði skemmtilega í sólinni í Eyjum og það leið ekki langur tími þar til fyrsta færið leit dagsins ljós. Pétur Runólfsson átti þá sendingu inn í teig gestanna þar sem Atli Heimisson skallaði boltann en skallinn fór vel yfir.
Leikurinn var nokkuð jafn fyrstu 10 mínúturnar en heimamenn þó ívið meira með boltann. ÍBV áttu þó fyrsta alvöru færi leiksins á 12 mínútu þar sem Atli komst einn í gegn eftir sendingu frá Bjarna Rúnari Einarssyni en Sandor Matus í marki gestanna var mættur út og varði. Smá töf varð þá á leiknum þar sem skot Atla fór í andlit Sandors sem þurfti aðhlynningu.
Næsta færi leiksins var einnig að marki KA manna þar sem Augustine Nsumba komst aleinn í gegn, nú eftir sendingu frá Atla, en skot hans lélegt og vel framhjá.
Aftur varð svo töf á leiknum þegar Eyjamenn áttu hornspyrnu þar sem Atli Heimisson var mættur í boltann en varð fyrir höggi í andlitið frá varnarmanni gestanna þar sem það opnaðist sár á Atla og hann allur alblóðugur. Hann þurfti því að bíða eftir nýrri treyju.
Akureyringar voru þarna farnir að sækja meira en þó án þess að skapa svakalega hættu. Þeir áttu þó flotta sókn sem endaði með sendingu inn í teig þar sem Arnar Már Guðjónsson, fyrrverandi Skagamaður, var mættur en skalli hans fór beint á Albert Sævarsson í marki ÍBV.
Stuttu seinna fengu heimamenn aukaspyrnu rétt fyrir utan teig eftir að Bjarni Rúnar hafði farið illa með varnarmenn KA manna. Srdjan Tufegdzic braut þá á honum og uppskar gula spjaldið. Matt Garnar tók spyrnuna en hún vel lesin af Sandor í marki gestanna sem greip boltann nokkuð auðveldlega. Bæði lið skiptust þá á sóknum þó án þess að skapa nein alvöru færi.
Ekkert skot að marki hafði komið í langan tíma þegar Andri Fannar Stefánsson átti skot að marki heimamanna. Þetta reyndist seinasta skotið áður en dómarinn flautaði til hálfleiks eftir dapran fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikur byrjaði með látum. Eyjamenn lögðu af stað í hörkusókn þar sem Bjarni Rúnar átti fremur skrýtið skot að marki sem Sandor náði ekki að halda. Boltinn barst þá til Augustine Nsumba sem átti fast skot að marki sem Sandor varði vel yfir markið. Úr hornspyrnunni kom svo annað hörku færi þar sem Andri Ólafsson skallaði að marki en boltinn fór í hliðarnetið.
Heimamenn áttu einnig næsta færi en þar átti Nsumba, eða Gústi, ágætt skot að marki en boltinn framhjá. Leikurinn enn markalaus þótt ótrúlegt sé. Nsumba átti svo strax stuttu seinna annað hörkuskot að marki en beint á Sandor í marki Akureyringa. KA menn fengu svo aukaspyrnu rétt fyrir utan teig en skotið beint í vegg Eyjamanna.
Gestirnir fóru aðeins að sækja í veðrið þegar um 20 mínútur voru búnar af seinni hálfleik. Fyrirliði þeirra, Almarr Ormarsson, átti þá viðstöðulaust hörkuskot fyrir utan teig að marki ÍBV en það fór í hliðarnetið. Eyjamenn nokkuð heppnir þarna.
Það dró til tíðinda strax í næstu sókn þar sem Bjarni Rúnar fékk boltann úti á hægri kanti, sendi fyrir þar sem Atli var aleinn og yfirgefinn og skallaði boltann í fjærhornið framhjá Sandor sem átti ekki möguleika á að verja. Heimamenn komnir sanngjarnt yfir.
ÍBV áttu svo annað gott færi þegar Nsumba lék á varnarmenn gestanna upp við endalínu, sendi boltann inn þar sem Atli Heimisson fékk boltann en varnarmenn KA manna skjótir til og náðu að komast fyrir boltann.
Gústi Nsumba var klárlega besti leikmaður vallarins á þessum tímapunkti og sogaði að sér færin. Bjarni Rúnar átt þá góða þversendingu yfir á vinstri kant þar sem Gústi var mættur og tók boltann niður og hamraði að marki þar sem Sandor þurfti að hafa sig allan við að verja.
Ingi Rafn Ingibergsson, sem hafði komið inn sem varamaður í lið ÍBV, átti svo skot í stöng eftir darraðadans í teig gestanna. Vægast sagt óheppinn að ná ekki að skora.
KA menn fengu svo loksins færi þegar þeir fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan teig sem Sandor Matus markvörður þeirra tók. Hann átti hörkuskot að marki sem Albert Sævarsson þurfti að hafa sig allan við að verja í horn.
Mikil læti voru í teig Eyjamanna rétt fyrir lok leiks en Eyjamenn gátu þar talið sig heppna að hafa ekki fengið á sig mark í lokin. Þetta reyndist síðasta færi leiksins og Eyjamenn gengu sáttir af velli í sólinni í Vestmannaeyjum.
Fótbolti.net, Vestmannaeyjar - Einar Kristinn Kárason
Góður Haukasigur á Ólafsfirði
KS/Leiftur 1 - 4 Haukar
0-1 Ómar Karl Sigurðsson ('30)
0-2 Goran Lukic ('35)
0-3 Denis Curic ('65)
1-3 Ragnar Hauksson ('77)
1-4 Ásgeir Þór Ingólfsson ('79)
KS/Leiftur náði að skora eftir einungis fjórar mínútur í dag þegar að Þórður Birgisson kom boltanum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Eftir hálftíma leik komust Haukar hins vegar yfir. Haukar komust upp vinstri kantinn, Ómar Karl Sigurðsson sendi fyrir og boltinn fór framhjá öllum og í netið.
Fimm mínútum síðar fór Denis Curic upp hægri kantinn, Goran Lukic fékk boltann í teignum, sneri sér og skaut upp í þaknetið, óverjandi fyrir Þorvald Þorsteinsson í marki KS/Leifturs og Haukar leiddu 2-0 í leikhléi.
Um miðjan síðari hálfleik juku Haukar forskot sitt í 3-0. Rangstöðutaktík KS/Leifturs klikkaði, Denis Curic slapp aleinn í gegn, lék á Þorvald og skoraði sitt sjötta mark í sumar.
Ragnar Hauksson, þjálfari KS/Leifturs, kom inn á sem varamaður og hann var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn því hann minnkaði muninn með góðu skoti fyrir utan vítateig.
Haukar voru ekki lengi að svara aftur því strax í næstu sókn komst Ásgeir Þór Ingólfsson í gegn og hann innsiglaði 4-1 sigur Hafnfirðinga.
Fyrsti sigur Leiknis
Leiknir R. 1 - 0 Víkingur R.
1-0 Rune Koertz ('31)
Leiknir vann sinn fyrsta sigur í 1. deildinni þetta tímabilið þegar liðið vann 1-0 heimasigur á Víkingi Reykjavík í Breiðholtinu í dag. Það viðraði vel til knattspyrnuiðkunar þegar Jesper Tollefsen mætti með sína menn á kunnuglegar slóðir en Jesper þjálfaði Leikni síðasta tímabil. Hann fékk þó ekki engar gjafir á Leiknisvelli í dag.
Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks en Víkingar voru nálægt því að komast yfir í leiknum. Halldór Kristinn Halldórsson, varnarmaður Leiknis, náði hinsvegar að bjarga á marklínu.
Leiknir komst yfir eftir um hálftíma leik. Mikill darraðadans var í teig Víkinga og Aron Fuego Daníelsson átti skalla í slá, eftir klafs barst boltinn til danska varnarmannsins Rune Koertz sem skoraði.
Staðan var 1-0 í hálfleik. Seinni hálfleikur var frekar bragðdaufur. Víkingum gekk virkilega illa að skapa sér alvöru marktækifæri og heimamenn sýndu mikla skynsemi og náðu að innbyrða stigin þrjú. Besti maður vallarins var tvímælalaust Rune Koertz sem átti stórleik í hjarta varnar Leiknis. Það var mikið fagnað þegar flautað var til leiksloka enda langþráður sigur Leiknismanna í höfn.
Baslið hjá Víkingi heldur áfram en liðið hefur ollið miklum vonbrigðum á tímabilinu. Það vantaði allt hungur í liðið í dag og bitleysið fram á við var algjört.
Ummæli eftir leik:
Halldór Kristinn Halldórsson, varnarmaður Leiksins:
,,Tilfinningin er frábær. Það er mjög ánægjulegt að fyrsti sigurinn datt loksins inn. Við höfum verið óheppnir í síðustu tveimur leikjum að ná ekki að innbyrða sigur og frábært að við náðum þremur stigum í dag. Það var komin talsverð pressa á liðið og menn mættu hungraðir til leiks í dag. Maður fann það á öllum fyrir leikinn að ekkert annað kæmi til greina en að vinna þennan leik."
,,Það kryddar þetta líka að við vorum að mæta Jesper og auðvitað Pétri Svans. Það gerir þennan sigur enn sætari. Liðið í heild sinni var að spila vel og allir náðu sér vel á strik. Sérstaklega Rune Koertz sem átti enn einn stórleikinn. Hann er happafengur fyrir okkur og er að koma vel inn í þetta. Líka gaman að því að við munum fagna þessum sigri með veglegri grillveislu heima hjá Kára Einarssyni í Fossvoginum í kvöld. Ég hvet lesendur Fótbolta.net til að mæta!"
Fótbolti.net, Breiðholti - Viktor Bjarnason
Þór 1 - 0 Fjarðabyggð
1-0 Aleksandar Linta ('81)
Í dag tóku Þórsarar á móti liði Fjarðarbyggðar á Akureyrarvelli í 7. umferð Íslandsmótsins í 1. deild karla. Fyrir leikinn hafði Fjarðabyggð unnið tvo leiki og gert þrjú jaftefli og voru því með 9 stig. Þórsarar hins vegar höfðu tapað þremur leikjum í röð og höfðu aðeins sex stig úr sex leikjum. Því bjuggust flestir við jöfnum og spennandi leik sem varð raunin.
Heimamenn voru í heild sterkari aðilinn í leiknum, en gestirnir treystu algjörlega á skyndisóknir. Allt virtist stefna í jafntefli þegar Alexander Linta átti gott skot rétt fyrir utan teig, knötturinn fór í þverslá og í bakið á Srdjan Raijkovic og þaðan yfir marklínuna, því fóru öll stigin til heimamanna í Þór.
Gestirnir byrjuðu þó leikinn ögn betur en Þórsarar. Strax á 3. mínútu gerðu gestirnir sig líklega til að skora þegar Guðmundur Steinþórsson átti góðan sprett á vinstri kanti, gaf góða sendingu á Sveinbjörn Jónasson sem skot að marki Þórs en skotið var mjög slakt og Árni Skaptason markmaður Þórs átti ekki í neinum vandræðum með að verja skotið frá Sveinbirni. Fjórum mínútum síðar áttu heimamenn í Þór góða sókn.
Linta áttimjög góða sendingu á Sigurð Marínó Kristjánsson sem lagði knöttin fyrir Matthías Örn Friðriksson sem skaut að marki Fjarðarbyggðar en skotið fór rétt yfir mark gestanna. Á 22. mínútu leiksins áttu gestirnir fína sókn sem endaði með að Sveinbjörn Jónasson fékk góða sendingu frá vinstri en skallaði knöttinn rétt yfir mark Þórsara.
Þórsarar gerðu sig líklega til að ná forystunni á 36. mínútu þegar Sigurður Marinó átti góða sendingu inn í teig frá hægri. Andri Hjörvar varnarmaður Fjarðarbyggðar mætti þó fyrstur að boltanum og ætlaði að skalla knöttinn frá en skallinn var ekki betri en svo að knötturinn fór í þverslá og útaf. Gestirnir áttu þó síðasta færi hálfleiksins, en á 44. mínútu spiluðu þeir vel sín á milli á vinstri kantinum, kom góð sending inn í teig og enn og aftur var Sveinbjörn mættur á staðinn til að taka við boltanum en hitti boltann illa og skot hans fór framhjá marki Þórsara. Hinn ágæti dómari leiksins, Þorvaldur Árnason flautaði síðan til hálfleiks á 46. mínútu.
Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn betur en gestirnir og ætluðu sér greinilega að setja mark á gestinna. Það gekk hins vegar erfiðlega í byrjun síðari hálfleiks en það var svo á 58. mínútu þegar Hreinn Hringsson komst í gott færi þegar hann var nánast kominn innfyrir vörn gestanna, var þó með mann á bakinu og átti í raun aðeins markmanninn eftir. Skot Hreins var þó ekki nægilega gott, og skotið fór beint á Srdjan markmann Fjarðabyggðar sem lokaði þó markinu nokkuð vel. Heimamenn héldu áfram að sækja að marki gestanna, og sköpuðu sér nokkur hálffæri.
Á 69. mínútu á Hreinn Hringsson fínan sprett þegar hann kemst í gegnum tvo varnarmenn Fjarðarbyggðar, gaf síðan á Ármann Pétur Ævarsson sem skaut þó rétt yfir mark gestanna. Þórsarar náðu alltaf betri og betri tökum á leiknum en það var ekki fyrr en á 80 mínútu að Þórsarar náðu að brjóta ísinn.
Hreinn Hringsson fékk knöttinn inn í vítateig gestanna og átti fast skot að marki Fjarðabyggðar en beint á Srdjan sem sló boltann út í teig aftur, þaðan barst knötturinn til Alexander Linta sem lét bara vaða á markið, knötturinn fór í þverslánna og í bakið á Srdjan og þaðan yfir línuna. 1-0 fyrir heimamenn sem virtust hafa allt í hendi sér. Eftir mark heimamanna ógnuðu gestirnir heimamönnum voða lítið og sköpuðu sér enginn færi og því var langþráður sigur heimamanna í höfn sem sitja því nú í 7. sætinu með níu stig.
Ummæli eftir leik:
,,Ég er mjög ánægður. Það sem er enn betra er að ég er ánægður með leik liðsins. Það var aldrei nema eitt lið í þessum leik. Fjarðabyggð komu aðeins hingað til að verjast og negla boltanum fram, við hins vegar tókum boltanum niður og spiluðu honum. Unnum sanngjarnan 1-0 sigur. Ég er alveg tvímælalaust ánægður með spilamennsku liðsins."
,,Þeir eru erfiðir í föstum leikatriðum, við héldum einbeitingunni þar. Við vorum búnir að tapa síðustu þrem leikjum. Töpuðum síðast hér heima gegn Stjörnunni þar sem við mættum hreinlega ekki til leiks, spiluðum boltanum ágætlega en þar vantaði allan brodd í sóknarleik liðsins og gerðum stjörnumönnum þetta of auðvelt fyrir. Heimaleikirnir eiga að vera eins og þeir voru í dag. Menn eiga að berjast fyrir öllu og vera klárir í slaginn. Þannig á það að vera og þannig verður það í framtíðinni."
Fótbolti.net, Akureyri - Sölmundur Karl Pálsson.
Athugasemdir