Fótbolti.net, Akureyri - Davíð Rúnar Bjarnason
KA 0 - 1 Stjarnan
0-1 Ellert Hreinsson ('93)
0-1 Ellert Hreinsson ('93)
Það var fínasta veður á Akureyri í dag en það var sól en smá vindur. Völlurinn var í fínu standi þegar flautað var til leiks í leik KA gegn Stjörnunni.
Fyrri hálfleikurinn var frekar rólegur og en áttu bæði lið þó nokkur hálffæri. Lang besta færi fyrri hálfleiks fékk Zoran Stojanovic þegar hann átti skalla í stöng á 41. mínútu. Þá kom góð sending frá vinstri beint á kollinn á Zoran sem fór illa með gott færi.
Seinni hálfleikur var einnig rólegur en þó meira um tækifæri. Á 51. mínútu átti Steinn Gunnarsson góða sending inn í teig þar sem Guðmundur Óli Steingrímsson kom á ferðinni en Stjörnumenn komust fyrir skot hans. 10 mínútum seinna fengu Stjörnumenn gott færi. Mikill atgangur var í teig KA manna og á endanum barst boltinn til Zoran sem átti skot en Sandor Matus markvörður KA varði vel.
Eftir þetta gerðist lítið þar til á 84. mínútu fengu KA menn fínt færi. Arnar Már Guðjónsson tók þá aukaspyrnu út á vinstri kantinum inn í teig þar sem Norbert Farkas átti góðan skalla að marki en Bjarni Þórður Halldórsson varði vel. Skömmu seinna fékk Almarr Ormarsson sendingu frá Guðmundi Óla, tók boltann á kassan en var ekki í jafnvægi og skaut því framhjá.
Það var komið fram yfir venjulegan leiktíma þegar umdeilt atvik átti sér stað. Guðmundur Óli átti skot að marki sem fór í varnarmann á endaði á Hjalta Má Haukssyni sem var einn fyrir opnu marki og skoraði. Aðstoðardómari dæmdi hinsvegar rangstöðu og því markið ógilt. En meðan KA menn voru ennþá fagnandi markinu, brunuðu Stjörnumenn upp í sókn þar sem þeir voru tveir gegn einum.
Ellert Hreinsson ákvað hins vegar að fara sjálfur og skoraði framhjá Sandor og út brutust mikil fagnaðarlæti hjá Stjörnunni. Hins vegar voru KA menn ekki jafn sáttir og kvörtuðu mikið undan dómnum. Þrátt fyrir öll mótmælin breyttist staðan ekkert og skömmu seinna flautaði dómarinn til leiksloka.
KA-menn voru mun meira með boltann í leiknum en gekk alltof illa að skapa sér færi meðan Stjörnumenn áttu tvö dauðafæri.
Ummæli eftir leik:
Arnar Már Guðjónsson leikmaður KA var mjög svekktur að leik loknum.
,,Þetta var mjög góður leikur af okkar hálfu fannst mér, stjórnuðum spilinu alveg en vantaði bara að reka endahnútinn á sóknirnar. Svo fáum við þetta mark á okkur í lokin sem er náttúrulega alveg grátlegt, mark dæmt af okkur sem menn eru enn að fagna og þá taka þeir aukaspyrnuna snöggt á kolvitlausum stað og fara fram og skora. mikið áfall þar sem að við áttum þennan leik en við verðum bara að gleyma þessu og fara að hugsa um næsta leik gegn Víking Ó. sem verður að vinnast."
Athugasemdir