Napoli reynir aftur við Garnacho - Arsenal ekki að ná að semja við Sporting um Gyökeres - Kudus í læknisskoðun hjá Spurs
   lau 12. júlí 2008 20:02
Fótbolti.net
1.deild umfjallanir: Jöfnunarmark og sigurmark í viðbótartíma
Stefán Kári Sveinbjörnsson á fleygiferð.
Stefán Kári Sveinbjörnsson á fleygiferð.
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Sveinbjörn kom Fjarðabyggð yfir og hér er hann með boltann í leiknum.
Sveinbjörn kom Fjarðabyggð yfir og hér er hann með boltann í leiknum.
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Víkingar fagna marki í dag.
Víkingar fagna marki í dag.
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Úr leik Víkings Ó. og KA.
Úr leik Víkings Ó. og KA.
Mynd: Alfons Finnsson
Mynd: Alfons Finnsson
Víkingar eru hér nýbúnir að skora sigurmarkið gegn KA.
Víkingar eru hér nýbúnir að skora sigurmarkið gegn KA.
Mynd: Alfons Finnsson
Tveir leikir fóru fram í 1.deild karla í dag. Fjarðabyggð og Víkingur R. gerðu 2-2 jafntefli fyrir Austan þar sem gestirnir jöfnuðu í viðbótartíma bæði í fyrri og seinni hálfleik. Þá var einnig dramatík á Ólafsvík þar sem heimamenn í Víkingi skoruðu sigurmark gegn KA í viðbótartíma. Kíkjum á umfjallanir um leikina.

Dramatík á Eskifirði
Fjarðabyggð 2-2 Víkingur:
1-0 Vilberg Marino Jónasson ('9, víti)
1-1 Christopher Vorenkamp ('45+)
2-1 Sveinbjörn Jónasson ('53)
2-2 Þórhallur Hinriksson ('90+, víti)

Fjarðabyggð tók á móti Víkingum í 1. deild karla í dag en fyrir leikinn var Fjarðabyggð í 10. sæti deildarinnar með 10 stig en Víkingur í því fimmta með 17 stig.

Leikurinn byrjaði fjörlega og heimamenn lágu í sókn fyrstu mínúturnar og það skilaði þeim marki eftir átta mínútna leik.

Halldór Smári Sigurðsson leikmaður Víkings fékk þá boltann í höndina þegar Víkingar hreinsuðu frá marki sínu og vítaspyrna var dæmd.

Markahrókurinn Vilberg Marinó Jónasson fór á punktinn og skoraði framhjá Ingvar Kale í marki gestanna.

Þremur mínútum eftir þetta var Gunnar Kristjánsson nálægt því að jafna metin fyrir Víking þegar aukaspyrna hans fór í þverslá.

Vilberg Marino og Sveinbjörn Jónasson fengu svo góð færi hinum megin á vellinum en tókst ekki að nýta þau.

Víkingar jöfnuðu svo metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Markið skoraði Christopher Vorenkamp eftir að Valur Úlfarsson fyrirliði liðsins hafði skallað boltann fyrir fætur hans eftir sendingu frá vinstri kanti.

Staðan í hálfleik 1-1 en eftir um sjö mínútna leik í þeim síðari kom Sveinbjörn Jónasson heimamönnum aftur yfir með glæsilegu skoti fyrir utan vítateiginn.

Eftir þetta voru Víkingar mun sterkara liðið á vellinum en góður varnarleikur heimamanna og markvarsla Srdjan Rajkovic markvarðar Fjarðabyggðar varð til þess að heimamenn héldu forystu sinni.

Litlu munaði að Fjarðabyggð skoraði þriðja markið í uppbótartíma þegar Guðmundur Atli Steinþórsson slapp einn í gegn en Ingvar Kale varði glæsilega.

Það var svo þegar þrjár mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma að Víkingar jöfnuðu metin. Gunnar Kristjánsson kantmaður þeirra var þá felldur innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Þórhallur Hinriksson tók spyrnuna og jafnaði metin. Nokkrum sekúndum síðar var flautað til leiksloka.

Ummæli eftir leik:

Ingvar Kale markvörður Víkings á Vikingur.net
,,Við þurftum sigur en úr því sem komið var tökum við þetta stig. Völlurinn var mjög blautur og þungur sem gerði okkur erfitt fyrir að spila boltanum almennilega. Það var líka erfitt fyrir mig og auðvitað hinn markvörðinn að halda knettinum því hann spíttist mikið um eins og gerðist hjá Halla greyinu. Þetta sýnir karakterinn sem þetta lið hefur að geyma."

,,Auðvitað er þetta gaman á meðan leik stendur en við eigum að geta gert betur og ekki alltaf verið að taka sigrana eða jafnteflin eins og í dag á síðasta séns. Nú hefst nýtt mót þar sem við getum tekið allt þetta jákvæða með okkur og farið að hala inn fleiri stig til að koma okkur aftur upp. Það hefst á Selfossi í næsta leik."



Gísli Freyr hetja Víkings
Víkingur Ó. 2 - 1 KA
0-1 Almarr Ormarsson ('57)
1-1 Brynjar Víðisson ('71)
2-1 Gísli Freyr Brynjarsson ('90+)

Víkingar úr Ólafsvík sigruðu KA í dag 2-1 í miklum rokleik á Ólafsvíkurvelli.

KA menn léku undan sterkum vindi í fyrri hálfleik og voru mun meira með boltann, án þess þó að skapa sér mörg opin færi, næst því að skora komst Almarr Ormarsson þegar hann skallaði í þverslá eftir góða fyrirgjöf. Auk þessa færis átti Einar Hjörleifsson glæsilega markvörslu frá Almarri sem skaut af vítateigslínunni. Stórkostleg tilþrif.

Víkingar lágu aftarlega og beittu skyndisóknum og upp úr vel heppnaðri aukaspyrnu fékk Dalibor Nedic besta færi hálfleiksins þegar hann skaut yfir úr dauðafæri í markteignum. En semsagt markalaus fyrri hálfleikur þar sem Kári réð logum og lofum.

KA menn komu mun ákveðnari til síðari hálfleiks og uppskáru mark á 57.mínútu þegar boltinn barst til áðurnefnds Almarrs sem fékk mikinn tíma til að athafna sig og skaut föstu skotu á markið og boltinn lá í netinu. Víkingar mótmæltu og töldu um rangstöðu vera að ræða, en dómurunum var ekki haggað og norðanmenn yfir. Verðskulduð forysta KA manna sem virtust hafa leikinn í hendi sér á þessum tímapunkti.

Ejub þjálfari Víkings skipti þá sóknarmanni inn og breytti það talsvert gangi leiksins, Víkingar pressuðu hærra og smám saman náðu þeir tökum á leiknum, en KA menn voru nú þeir sem beittu skyndisóknunum.

Á 71.mínútu fengu Víkingar svo aukaspyrnu um 40 metra frá markinu, út við hliðarlínu. Brynjar Víðisson skaut föstum bolta upp í vindinn, Sandor Matus misreiknaði boltann sem hálfpartinn fauk inn, staðan 1-1 og 20 mínútur eftir.

Það sem eftir lifði voru það Víkingar sem pressuðu en KA menn voru skeinuhættir í skyndisóknunum. Josip Marusovic skaut framhjá úr dauðafæri á 86.mínútu fyrir heimamenn og þegar tvær mínútur voru komnar í uppbótartíma fékk Gísli Freyr Brynjarsson, sem þá var nýkominn inná sem varamaður, boltann óvænt í markteig KA manna, sem náðu á síðustu stundu að bjarga í horn.

Það var svo uppúr horninu sem sigurmark Víkinga kom, eftir mikið klafs í teignum datt boltinn fyrir fætur Gísla Freys Brynjarssonar sem hálfkiksaði á boltann, sem svo lak undir Sandor í markinu. KA menn mótmæltu og töldu brot hafa átt sér stað, en dómari leiksins, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, var ekki á því og markið stóð.

KA menn náðu svo bara rétt að taka miðju áður en flautað var af og gríðarmikilvægur sigur Víkinga staðreynd! Vissulega gátu KA menn farið svekktir af Snæfellsnesi stigalausir en ekkert skyggði á fölskvalausa gleði heimamanna sem komust í 7.sæti með sigrinum. Ekki má gleyma þætti dómaranna sem stóðu sig afar vel!
Fótbolti.net, Ólafsvík - Magnús Þór Jónsson.
Athugasemdir
banner