Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   mán 22. september 2008 13:32
Hörður Snævar Jónsson
Tryggvi Guðmundsson: Gleymdi mér aðeins í gleðinni
Mynd: Fótbolti.net - Egill Tómasson
Tryggvi Guðmundsson leikmaður FH mun missa af síðasta leik liðsins gegn Fylki um næstu helgi vegna leikbanns sem hann fer í vegna fjögurra gula spjalda.

Tryggvi fagnaði sigurmarki FH gegn Keflavík í gær með því að dansa fyrir framan leikmenn Keflavíkur og fékk að launum gult spjald.

Þetta gæti reynst FH-ingum dýrt því einnig mun Dennis Siim vera í banni gegn Fylki. FH-ingar gætu verið í baráttu um sigur í deildinni vinni liðið Breiðablik á miðvikudag og því mikil blóðtaka fyrir liðið.

,,Ég verð að viðurkenna það að ég gleymdi mér aðeins í gleðinni og byrjaði að dansa. Það fór svo í taugarnar á mér hvernig þeir fögnuðu 2-2 markinu, þeir fögnuðu eins og þeir væru orðnir meistarar og svo skorum við þarna í lokinn og ég gleymdi mér aðeins í gleðinni," sagði Tryggvi í samtali við Fótbolta.net í dag.

,,Þetta er klárt gult spjald, ég er að ögra þarna andstæðingunum og það er bara kjánalegt."

Þetta er annað gula spjaldið sem Tryggvi fær í þremur leikjum fyrir að fagna marki en það fyrra fékk hann fyrir að lyfta upp bolnum gegn Val þegar hann skoraði 100 mark sitt í efstu deild.

,,Það er stórhættulegt að fagna, þetta spjald í gær átti ég alveg skilið, ég var að ögra andstæðingunum. Hitt gula spjaldið finnst mér helvíti dapurt, fyrir að lyfta upp og sýna C ið, fagnandi miklum áfanga að gera hundrað mörk. Það hefði alveg mátt líta framhjá því og sleppa mér við það," sagði Tryggvi að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner