þri 23. september 2008 20:06
Magnús Már Einarsson
Viðar Örn: Ég hefði getað skorað tíu mörk í viðbót
Viðar Örn með verðlaunin í dag.
Viðar Örn með verðlaunin í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Guðmundur Karl
Viðar Örn Kjartansson framherji Selfyssinga var valinn efnilegastur í fyrstu deild karla í vali fyrirliða og þjálfara í deildinni. Viðar fékk afhenta viðurkenningu á Silfur við Austurvöll í dag þar sem Fótbolti.net stóð fyrir verðlaunaafheindgu út af valinu.

Viðar skoraði átta mörk í fyrstu deildinni í sumar og var ánægður með eigin frammistöðu. ,,Mjög svo en ég hefði getað skorað fleiri mörk, tíu í viðbót allavega. Ég fékk nokkur dauðafæri sem ég klúðraði, ég var stressaður eða eitthvað en það verður komið á næsta ári," sagði Viðar við Fótbolta.net.

Selfyssingar komu mjög á óvart í fyrstu deildinni í sumar á sínu fyrsta ári í deildinni í mörg ár. Selfyssingar háðu mikla baráttu við Stjörnuna um annað sætið í deildinni en þurftu að lokum að lúta í lægra haldi og enda í þriðja sætinu.

,,Við settum markið á það að halda okkur í deildinni en þegar við erum búnir að vera í öðru sætinu allt tímabilið þá er þetta mjög svekkjandi. Að klúðra þessu í síðustu þremur leikjunum er mjög pirrandi og maður sér eftir því."

Viðar segist merkja meiri fótboltaáhuga á Selfossi eftir þennan góða árangur liðsins í sumar.

,,Fólk var að spyrja mig út í bæ hvort við ætluðum ekki að vinna leikinn um helgina og það er eitthvað sem maður kannaðist ekki mikið við áður yfir," sagði Viðar sem er einnig hæstánægður með stuðningsmannahóp Selfyssinga.

,,Það má þakka Skjálfta fyrir ýmislegt. Þeir komu með okkur í versta veður í heimi til Ólafsvíkur, nokkrir komu á Neskaupsstað og þeir voru frábærir í sumar. Þeir verða vonandi bara betri á næsta ári."

Zoran Miljkovic tók við Selfyssingum í fyrra, stýrði liðinu upp um deild og gerði góða hluti með liðið í sumar.

,,Hann er búinn að kenna okkur þvílíkt mikið í taktík og fleira. Maður vonar að hann verði áfram því að hann á helminginn í þessu, hann á mikinn þátt í þessu. Hann skammar okkur líka en það hjálpar til."

Viðar Örn hefur einnig lært mikið af hinum reynslumikla Sævari Þór Gíslasyni en þeir léku saman í framlínunni í sumar.

,,Hann sendir boltann í eitt skipti af hverjum tíu. Í hin níu skiptin skorar hann eða fiskar víti. Hann gefur mér fullt af góðum ráðum og það er mjög gott að spila með honum frammi."

Sævar hefur gefið það út að hann muni væntanlega leggja skóna á hilluna en Viðar hefur ekki trú á því.

,,Hann veit að ég verð fljótari en hann á næsta ári og það getur verið að hann hætti út af því en ég reikna með að hann verði áfram."

Viðar býst sjálfur við að vera áfram hjá uppeldisfélagi sínu á Selfossi. ,,Já að öllum líkindum," sagði Viðar en hann hefur ekki fengið fyrirspurnir frá öðrum liðum.

,,Nei ég get ekki sagt það en tímabilið er nýbúið að klárast þannig að maður veit aldrei hvað gerist."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner