Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 10. desember 2008 16:36
Hafliði Breiðfjörð
Edda Garðarsdóttir: Tek samkeppni fagnandi
Edda í landsleik með Íslandi í sumar.
Edda í landsleik með Íslandi í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég vona að KR-stelpurnar skriðtækli mig ekki á síðustu æfingunum þegar ég segi þeim að ég sé að fara.''
,,Ég vona að KR-stelpurnar skriðtækli mig ekki á síðustu æfingunum þegar ég segi þeim að ég sé að fara.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég ætla að spila þarna í deildinni, ég ætla ekki að sitja á rassinum og horfa á hina spila.''
,,Ég ætla að spila þarna í deildinni, ég ætla ekki að sitja á rassinum og horfa á hina spila.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég held að allir hjá KR skilji okkur, að við séum að fara út og spila sem atvinnumenn.''
,,Ég held að allir hjá KR skilji okkur, að við séum að fara út og spila sem atvinnumenn.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Edda Garðarsdóttir tilkynnti í dag að hún og Ólína G. Viðarsdóttir liðsfélagi hennar í KR hefðu samið við sænska félagið KIF Örebro um að leika með þeim í sænsku deildinni á næstu leiktíð. Við ræddum við Eddu um vistaskiptin en spurðum fyrst hvernig þetta hafi komið til.

Allar aðstæður til fyrirmyndar
,,Við sendum út á fjögur félög í sænsku deildinni. Lið sem voru um miðja deild. Mér fannst það skynsamlegast í stöðunni því maður kæmist kannski ekki að hjá þeim allra bestu,” sagði Edda í samtali við Fótbolta.net.

,,Við fengum svör frá þremur liðum og KIF Örebro voru strax áhugasamir og vildu fá okkur í heimsókn. Við þurftum að bíða í smá tíma áður en við færum að heimsækja þær því það hefur verið frí hjá leikmönnum í sænsku deildinni eins og var hjá okkur. Við kíktum svo til þeirra eftir að þær voru búnar að æfa í viku og leyst vel á þetta.”

KIF Örebro endaði í sjöunda sæti sænsku deildarinnar á nýliðinni leiktíð en stefnir enn ofar. Edda sagði aðstæður mjög vel góðar hjá félaginu.

,,Leikvangurinn tekur 14.500 manns og það mæta um 4-5000 manns á heimaleikina þeirra. Allar aðstæður eru til fyrirmyndar og umhverfið fyrir fótboltann er allt annað. Þær æfa alltaf og allan ársins hring á velinnum sem þær spila á og eru með fína aðstöðu þar. Lyftingasalurinn og gymið er hliðina á vellinum og það er allt til alls þarna og allur útbúnaður til fyrirmyndar. Það er markmannsþjálfari og styrktarþjálfari og allt sem til þarf.”

Ætla ekki að sitja á rassinum og horfa á hina spila
Sænska deildin er talin ein af þremur sterkustu deildum heims í dag, ásamt þeirri þýsku og bandarísku. Edda sagði það hafa mikið að segja í ákvörðunatökun þeirra að fara þangað.

,,Það spilar mest inní fyrir okkur að sænska deildin er ein besta deildin í heimi. Það er meiri styrkleiki í þessari deild og fleiri sterk lið. Það voru líka mörg óvænt úrslit í deildinni á síðustu leiktíð og verða örugglega áfram. Það geta allir strítt öllum á meðan hérna heima eru aldrei nema ein til tvö óvænt úrslit yfir sumarið.”

Edda æfði með sænska liðinu í tvö daga nú um helgina og hefur því aðeins fengið að kynnast liðinu. Hún veit að hún mun fá meiri samkeppni þar en er tilbúin í það verkefni.

,,Já það er samkeppni en ég tek henni bara fagnandi og hlakka til að láta til mín taka þarna. Ég ætla að spila þarna í deildinni, ég ætla ekki að sitja á rassinum og horfa á hina spila. Ég hef alltaf verið 90 mínútna manneskja hér heima og ætla að sjálfsögðu að reyna að halda því áfram.”

Getum staðið þessum skvísum á sporði á vellinum
Eftir að Edda og Ólína tóku sína ákvörðun eru nú orðnar sjö íslenskar landsliðskonur sem hafa farið í sænsku deildina eftir að Ísland tryggði sér sæti á EM 2009 í október og fyrir eru tvær aðrar.

,,Landsliðið er komið á visst level og ég held að svona margar landsliðsstelpur séu að fara út því það er svo mikill metnaður í þeim hópi. En samt ekki bara þeim sem eru að fara út heldur líka í þeim sem eru hér heima” sagði Edda.

,,Við erum í þeirri aðstöðu og erum heppnar að geta farið og stigið skrefið lengra. Þetta er rosaleg áskorun og maður hefur tækifæri til að bæta sig meira þegar það eru svona aðstæður sem ýta á mann. Ég held að umhverfið hér heima geri það að vissu marki, en þetta er meira, og við viljum bæta okkur enn meira svo við getum gert betur á EM og í framtíðinni.”

Kvennalandsliðið leikur á Evrópumóti kvennalandsliða í Finnlandi 23. ágúst til 10. september á næsta ári og þar ætla íslensku stúlkurnar að verða enn betri en áður enda verkefnið erfitt, Ísland er í riðli með Noregi, Frakklandi og Þýskalandi.

,,Þó við séum að fara að spila á móti bestu þjóðum í heimi, þá er þetta það sem við viljum og það sem við viljum í framtíðinni. Nú verðum við að stíga enn eitt skrefið til að geta staðið okkur þar. Það er ekki nóg bara að komast þangað og vita ekki hvað við ætlum að gera. Við verðum að reyna að bæta okkur enn meira svo við getum staðið þessum skvísum á sporði á vellinum. Ég held að það hjálpi okkur og þessi félagaskipti okkar hjálpi okkur.”

Ég elska KR
Edda er mikill KR-ingur og hefur ekki farið leynt með að hún hefði verið þar áfram ef hún hefði spilað hér á landi. Hún hefur leikið 132 leiki fyrir félagið í efstu deild auk fjölda leikja í bikar og öðrum mótum.

,,Ég elska KR og aðstæður til knattspyrnuiðkunar í KR eru fínar,” sagði Edda. ,,En ég held að allir sem eru í fótbolta að viti, karlar eða konur, viti hvernig það er að ef maður ætlar að æfa sig eitthvað aukalega, þá verður maður að gera það fyrir vinnu, á frídögunum sínum, eða fyrir eða eftir æfingatíma. Það er ekki mikið svigrúm.”

,,Í fyrravetur var ég í tveimur störfum og í sumar var ég að vinna, þjálfa og spila. Þá var ekki mikill tími til að vera að æfa aukalega. Það er það sem skilar manni lengra en þeim sem maður spilar á móti. Ég held að allir hjá KR skilji okkur, að við séum að fara út og spila sem atvinnumenn. Að geta æft að morgni, farið á einstaklingsæfingar og einbeitt sér alfarið að fótbolta.”


Hef ástríðuna fram yfir litlu skvísurnar
Edda eins og aðrar landsliðsstúlkur sem hafa farið til Svíþjóðar á undanförnum vikum munu eiga kost á mun meiri og betri æfingum í Svíþjóð þar sem þær þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af löngum vinnudögum með fótboltanum. Þetta skilar sér í enn betra formi.

,,Ég held að íslenska landsliðið verði allsvaðalegt í ágúst,” sagði Edda. ,,Ég stefni náttúrulega bara á að komast í form lífs míns. Ég er að verða þrítug næsta sumar og þetta er ennþá það skemmtilegasta sem ég geri, spila fótbolta, leika mér í fótbolta og tala um fótbolta og horfa á fótbolta og stúdera fótbolta."

,,Ég veit ekki hvort ég sé heppin eða óheppin með það, en þetta er bara draumur að rætast að geta gert þetta. Ég þyki nú gömul af fótboltakonu að vera en ástríðuna af leiknum hef ég framyfir þessar litlu skvísur sem ég hef verið að spila með og æfa.”
.

Edda og Ólína halda ekki utan fyrr en í febrúar og þangað til halda þær áfram æfingum með KR. Að lokum óskaði Edda sér þess að viðskilnaðurinn yrði góður.

,,Við förum ekki út fyrr en 1. febrúar svo ég vona að KR-stelpurnar skriðtækli mig ekki á síðustu æfingunum þegar ég segi þeim að ég sé að fara,” sagði hún að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner