Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   þri 07. apríl 2009 12:00
Hafliði Breiðfjörð
Þorgrímur Þráinsson ráðinn aðstoðarþjálfari Vals
Þorgrímur Þráinsson með íslenska landsliðinu í Noregi í haust.
Þorgrímur Þráinsson með íslenska landsliðinu í Noregi í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Þorgrímur ásamt Pétri Péturssyni aðstoðarþjálfara KR og íslenska landsliðsins.
Þorgrímur ásamt Pétri Péturssyni aðstoðarþjálfara KR og íslenska landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Þorgrímur Þráinsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Vals út þessa leiktíð en hann staðfesti þetta sjálfur við Fótbolta.net nú í dag. Hann verður aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar með liðið og tekur við starfinu af Þór Hinrikssyni sem var í því undanfarin ár en hætti í haust til að einbeita sér að yngri flokkum félagsins.

Þorgrímur Þráinsson sem er nýlega orðinn fimmtugur er ein af goðsögnunum úr liði Vals á níunda áratug síðustu aldar. Hann tók að sér sitt fyrsta þjálfarastarf er hann stýrði 2. flokki karla í tvo mánuði á síðasta ári og er nú orðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks. Hann hefur verið í þjálfarateymi íslenska landsliðsins.

,,Ég er ráðinn út september og svo náttúrulega framyfir bikarúrslitaleikinn sem er í október," sagði Þorgrímur í léttum tón við Fótbolta.net í dag.

,,Ég held að Valsmenn hafi viljað leita til einhvers aðila sem þekkir innviði félagsins. Ég hef verið viðloðandi hópinn síðan Willum tók við. Ég hef haldið fyrirlestra fyrir þá og erindi og stundum mætt á æfingar. Ég held að félagið hafi bara verið að leita að traustum manni fyrir Willum til að geta haft þægileg skoðanaskipti um liðið og svo framvegis."

Þorgrímur hefur ekkert verið tengdur daglegum afskiptum af meistaraflokksliði síðan hann lagði skóna á hilluna fyrir 19 árum síðan en kynntist því þó aðeins er hann var ráðinn í starf hjá félaginu á síðasta ári.

,,Ég hætti að spila árið 1990 og það eru öll þessi ár síðan. En ég fékk aðeins smjörþefinn af þessu síðasta sumar þegar ég þjálfaði annan flokkinn hjá Val í tvo mánuði. Við fórum þá upp í A-deild. Ég fann þá að helsti kosturinn við þetta var að koma niður á Hlíðarenda á hverjum degi, mér fannst það mjög skemmtilegt. "

,,Þeir sem þekkja mig vita að ég hef ákveðnar skoðanir á knattpspyrnu og þykir gaman að spá í öll smáatriði. Því ef maður nær að leiðbeina með öll smáatriði sem menn sjá ekki sjálfir þá verður heildarmyndin betri. Það eru oft litlu atriðin sem gera það að menn annað hvort tapa leikjum eða vinna þá. Ég er fullur tilhlökkunar, þetta er verðugt og skemmtilegt verkefni."

Athugasemdir
banner
banner
banner