Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   mán 05. október 2009 12:40
Magnús Már Einarsson
Sigurvin Ólafsson: Miklu skemmtilegra að spila í 2.deildinni
Sigurvin með viðurkenningu sína á Hótel Borg í gær.
Sigurvin með viðurkenningu sína á Hótel Borg í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er mjög gaman að fá svona verðlaun í lok tímabils eftir að hafa unnið deildabikarinn og titilinn. Það var líka extra bónus að mæta KR í bikarnum, þetta hefur verið ævintýralegt sumar," sagði Sigurvin Ólafsson, miðjumaður Gróttu, sem var valinn besti leikmaðurinn í annarri deildinni í sumar í vali fyrirliða og þjálfara.

Sigurvin ætlaði að taka sér alfarið frí frá fótbolta í fyrra en hann lék þó nokkra leiki með Gróttu. Í ár lék hann síðan ennþá meira með liðinu og skoraði alls tólf mörk í sumar.

,,Þetta gekk vonum framar. Ég fékk gamla fiðringinn aftur. Í fyrra tók ég mér pásu, ég var búinn að vera í 10-12 ára harki á Íslandi. Ég tók rólegt sumar í fyrra en síðan er svo gaman í boltanum að ég ákvað að taka þetta af krafti í sumar," sagði Sigurvin en hann segir henta vel að spila með Gróttu.

,,Ég bý þarna rétt hjá og það er ekkert sérlega mikið vesen að standa í þessu. Það er nóg að gera í vinnunni og maður er ekki tilbúinn að fórna mikið meiri tíma í þetta."

Sigurvin hefur nokkru sinnum orðið Íslandsmeistari á ferlinum og hann hefur leikið lengi í efstu deild. Hann segir þó að það hafi verið skemmtilegra að spila í annarri deildinni í suar.

,,Auðvitað er getumunur á leikmönnum en þetta er miklu skemmtilegra. Menn eru afslappaðri í þessu, sóknarleikurinn er í hávegum hafður og menn hugsa frekar um að skora fleiri en andstæðingurinn frekar en að pakka í vörn. Það er örugglega meira gaman að horfa á 2.deildina en úrvalsdeildina."

Í annarri deildinni er oft mikið um löng ferðalög í útileiki en Sigurvin segir að það hafi verið gaman að ferðast í sumar.

,,Sumir vildu meina að ég væri klikkaður í að standa í þessu en í kreppunni þá er maður ekki að fara út og þá skoðar maður landið. Það var alltaf gaman í þessum útileikjum. Ég hef spilað víða en ég var samt að spila í fyrsta skipti á fullt af völlum í sumar, það er alltaf stemning að fara á bæjarvöllinn."

Grótta sigraði aðra deildina og leikur því í þeirri fyrstu að ári en Sigurvin hefur ekki ákveðið hvort að hann taki slaginn með liðinu þá.

,,Ég hef ekkert ákveðið það. Það er skref upp og maður þarf að leggja meira á sig. Liðin í fyrstu deild æfa kannski meira, eru í betra formi og hafa betri leikmenn. Maður þyrfti að undirbúa sig undir það og ég er ekkert búinn að spá í því hvort ég geri það. Ég byrja samt á að æfa með Gróttu enda er engin ástæða til að fara núna," sagði Sigurvin að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner