Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 09. október 2009 13:34
Hafliði Breiðfjörð
Gylfi: Gerði Eyjólfi grein fyrir að mig langaði að spila fyrir landsliðið
Gylfi Þór í leik með U21 árs landsliði Íslands.
Gylfi Þór í leik með U21 árs landsliði Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Reading á Englandi segir ekki rétt að hann gefi ekki kost á sér í U21 árs landslið Íslands eins og Eyjólfur Sverrisson sagði í viðtali við Fótbolta.net fyrr í morgun heldur langi hann til að spila fyrir liðið.

Gylfi Þór var valinn besti leikmaður Reading í ensku Championship deildinni í síðasta mánuði og vegna frammistöðu hans hefur vakið athygli að hann hafi ekki komist í U21 árs landsliðið.

Eyjólfur Sverrisson þjálfari liðsins sagði við Fótbolta.net í morgun að Gylfi gæfi ekki kost á sér í liðið en Gylfi segir það greinilega misskilning, hann hafi aðeins beðið um frí í einum leik í vor.

,,Það er greinilegt að það er einhver misskilningur í gangi. Ég bað Eyjólf um frí í einum æfingaleik síðasta vor og hann hefur ekki valið mig síðan," sagði Gylfi Þór við Fótbolta.net í dag.

,,Ég gerði honum grein fyrir því að mig langaði að spila fyrir landsliðið áfram en þyrfti einungis frí í þessum eina æfingaleik. Ég bíð bara eftir kallinu," hélt Gylfi áfram en hann er ekki í hópnum sem mætir San Marino á Laugardalsvelli í kvöld.

Sjá einnig:
Eyjólfur um Gylfa Þór: Getum ekki pínt menn til að spila í landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner