Verðmiðinn á Rashford - Mikið tap hjá Ratcliffe - Newcastle vill Gittens
   mán 26. apríl 2010 12:00
Hafliði Breiðfjörð
Andri Marteinsson: Verðugt verkefni að afsanna þessa spá
Andri Marteinsson þjálfari Hauka.
Andri Marteinsson þjálfari Hauka.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég verð að viðurkenna að það kemur mér ekki á óvart en samt pínulítið," sagði Andri Marteinsson þjálfari Hauka við Fótbolta.net í morgun en liði hans er spáð 12. og neðsta sæti í Pepsi-deild karla þetta sumarið. Það eru 10 sérfræðingar sem Fótbolti.net fékk til að spá og þegar þær spár voru lagðar saman kom í ljós að Haukar voru neðstir.

,,Það er nokkuð ljóst að við erum að koma upp úr 1. deildinni og vorum lið númer 2 sem kom þar upp. Eðlilega ætti þessi spá að eiga við, en við ætlum okkur aðra hluti. Það er verðugt verkefni framundan, að afsanna þessa spá þessara ágætu manna sem þarna standa á bakvið og endurspeglar örugglega það sem mörgum öðrum finnst," hélt Andri áfram.

Skemmtilegt að byrja með stæl í Vesturbænum
Haukar hefja tímabilið á tveimur mjög erfiðum leikjum gegn tveimur bestu liðum síðasta árs. Þeir mæta KR á KR-velli í fyrstu umferð og taka svo á móti FH á Vodafonevellinum á Hlíðarenda í annarri umferð.

,,Ég held að það leggist ágætlega í mig. Ég hef trú á að strákarnir komi mótiveraðir til leiks og það er ágætt að taka strax á móti þessum sterkari liðum. Annars er þetta þannig núna að það er nýtt mót og það eru fleiri lið sem gera tilkall til titilsins en áður að mínu mati. Ég held að þessir leikir verði allir mjög erfiðir en það er bara skemmtilegt að bryja mótið með stæl í Vesturbænum og fara svo og taka á móti Íslandsmeisturunum á Vodafonevellinum."

Það er alltaf ákveðin upplifun að fara á KR-völl og mæta heimamönnum þar en fæstir leikmenn Hauka þekkja það að fara þangað. Andri veit það hinsvegar vel sjálfur enda var hann sjálfur leikmaður KR um tíma.

Viljum geta veitt öllum liðum verðuga mótspyrnu
,,Ég átti gott ár í Vesturbænum og þetta er mjög skemmtilegur völlur að spila á. Ég held að það komi ekki til með að valda þeim vonbrigðum að koma í Vesturbæinn að spila fyrir áhorfendur sem styðja við sitt lið og gera mjög góða umgjörð enn betri."

Haukar enduðu í 2. sæti 1. deildar í fyrra en er nú spáð 12. sæti í efstu deild. En hafa þeir sett sér sjálfir markmið fyrir sumarið?

,,Við höfum alltaf komið saman og sett okkur markmið fyrir hvert mót sem við höfum tekið þátt í síðustu árin. Hvernig þetta verður núna á eftir að koma í ljós því við eigum eftir að koma saman og spjalla saman. Við þjálfararnir höfum sett okkur persónuleg markmið sem eiga við liðið og þau eru að vera með það frambærilegt lið að við getum veitt öllum liðum, sama hvað þau heita, verðuga mótspyrnu. Ef það markmið tekst þá held ég að stigin verði alveg nægilega mörg í sarpinn þegar upp er staðið."

Vonsvikinn með að meiðsli hafi sett strik í reikninginn
Haukar enduðu í 5. sæti síns riðils í Lengjubikarnum með tíu stig og hafa auk þess leikið nokkra æfingaleiki. En er Andri ánægður með undirbúningstímabilið?

,,Við höfum verið með gott undirbúningstímabil en því miður hafa meiðsli sett svolítið strik í reikninginn hjá okkur. Ég er pínulítið vonsvikinn með það en það er erfitt að koma í veg fyrir meiðsli. Að öðru leiti er ég mjög ánægður og held að við komum vel tilbúnir og stemmdir til leiks."

Haukar hafa fengið nokkra sterka leikmenn til liðs við sig í vetur og halda flestum sínum mönnum frá síðasta ári. Við spurðum Andra að lokum hvort hann sé búinn að loka hópnum, eða gætu komið fleiri leikmenn?

,,Það er ekkert sem heitir að loka hóp, ekki í mínum orðabókum. Við erum alltaf opnir fyrir einhverju nýju, en ef þessir leikmenn sem við erum með standast prófið, og það sýnir sig að þeir standa sig vel, þá erum við ekki að hafa áhyggjur af því að fá nýja leikmenn. Ef eitthvað dettur inn þá skoðum við það bara. "