Man Utd ætlar að hreinsa til í leikmannahópnum - Vardy orðaður við Valencia
   fim 06. maí 2010 13:07
Hafliði Breiðfjörð
Sjúkrabíll á æfingu Fylkis: Ólafur kippti Oddi Inga í hnélið
Oddur Ingi Guðmundsson sem er hér hægra megin á myndinni gekk til liðs við uppeldisfélag sitt, Fylki, í vetur frá Þrótti. Hann fór úr hnélið á æfingu liðsins í gær.
Oddur Ingi Guðmundsson sem er hér hægra megin á myndinni gekk til liðs við uppeldisfélag sitt, Fylki, í vetur frá Þrótti. Hann fór úr hnélið á æfingu liðsins í gær.
Mynd: Heimasíða Fylkis
,,Þetta er það versta sem ég hef lent í. Ég hef tvisvar meitt mig á hnénu áður og þetta er það allra versta,," sagði Oddur Ingi Guðmundsson miðjumaður Fylkis við Fótbolta.net í dag en hann fór úr hnélið á æfingu liðsins í gær og óvíst hversu lengi hann verður frá.

Ólafur Þórðarson þjálfari Fylkis aðstoðaði hann svo við að komast í hnélið að nýju áður en sjúkrabíll kom og flutti hann á sjúkrahús.

,,Ég lenti í samstuði en ég man rosalega lítið eftir fyrstu mínútunum eftir þetta. Óli kippti hnénu aftur í liðinn. Það er það besta sem hægt er að gera sagði læknirinn, að kippa því í liðinn strax. Óli tók það bara á sig og fór hægt og rólega með hnéð niður aftur og þá poppaði það aftur í lið."

Oddur Ingi sagði ljóst að hann verði ekki með Fylki í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar gegn Selfoss á þriðjudaginn en það skýrist ekki fyrr en í næstu viku hversu alvarleg meiðslin eru.

,,Það kom ekkert út úr myndatökum útaf bólgum en þetta verður skoðað aftur eftir viku. Þó læknirinn viti ekki mikið þá heldur hann að krossböndin hafi sloppið. En þetta gæti verið eitthvað í liðböndum, það er samt ómögulegt að segja hversu alvarlegt þetta er," sagði hann að lokum.
banner
banner