Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 23. júlí 2010 17:16
Hafliði Breiðfjörð
John stýrir Aftureldingu - þriðji meistaraflokkurinn (Staðfest)
Þjálfar þrjú lið og spilar með því fjórða
John Andrews í leik með Aftureldingu gegn Val fyrr í sumar.
John Andrews í leik með Aftureldingu gegn Val fyrr í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Ashley Mae Kirk verður aðstoðarþjálfari.
Ashley Mae Kirk verður aðstoðarþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Írinn John Andrews hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Aftureldingar en þetta var leikmönnum félagsins tilkynnt á fundi rétt í þessu. Fyrr í dag hafði félagið staðfest að Ásgrímur Helgi Einarsson hafi látið af störfum af persónulegum ástæðum.

John Andrews mun hafa nóg að gera það sem eftir lifir af tímabilinu því auk þess að þjálfa kvennaliðið í Pepsi-deild kvenna, leikur hann með karlaliði félagsins í 2. deildinni og hefur borið fyrirliðabandið þar í síðustu tveimur leikjum. Hann þjálfar einnig lið Hvíta Riddarans í 3. deildinni sem er varalið Aftureldingar, og 2. flokk karla hjá Aftureldingu. Því mun hann nú þjálfa þrjá flokka hjá félaginu og spila með þeim fjórða.

Sökum þessa álags mun hann missa af verkefnum á einhverjum vígstöðvum. Þannig missir hann af því að stýra liði Aftureldingar gegn Val í Pepsi-deild kvenna þar sem karlaliðið spilar á sama tíma auk þess sem hann missir af leik með Hvíta Riddaranum sem reyndar á aðeins fjóra leiki eftir í 3. deildinni í sumar.

John Henry Andrews er 32 ára gamall. Hann er írskur og kom frá heimalandi sínu til Aftureldingar fyrir tímabilið 2008. Hann hefur staðið sem klettur í vörn liðsins, í 1. og 2. deildinni og hefur leikið 57 leiki fyrir Aftureldingu og skorað þrjú mörk.

Andrews er varnarmaður sem lék með Cork City á Írlandi auk þess sem hann var á mála hjá enska félaginu Coventry á árunum 1995-1998. Hann hafði áður verið aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki kvenna í Aftureldingu sumarið 2008 er Gareth O'Sullivan stýrði liðinu.

Yfirlýsing Aftureldingar
John Henry Andrews hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna í Aftureldingu út tímabilið. Hann hefur getið af sér gott orð sem leikmaður og þjálfari hjá Aftureldingu síðastliðin 3 ár.

Hann hefur þjálfað m.a. yngri flokka kvenna og karla, Hvíta riddarann og að auki aðstoðað við þjálfun meistaraflokka félagsins.

Þess má geta að meistaraflokkur karla í dag er að mestum hluta skipaður ungum leikmönnum Hvíta riddarans sem kom á óvart í 3. deildinni í fyrra undir stjórn Johns.

Einnig hefur John reynslu úr Bandaríska háskóla boltanum þar sem hann var aðstoðarþjálfari hjá Martin Methodist School en skólinn vann Bandaríkjameistaratitilinn árið 2007.

Ashley Mae Kirk mun áfram vera aðstoðarþjálfari.


Við bjóðum John velkominn til starfa.

banner
banner
banner
banner