mið 01. apríl 2015 22:15
Ívan Guðjón Baldursson
Gabriel Paletta: Það var logið að okkur í hverri viku
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Gabriel Paletta, fyrrverandi varnarmaður Parma, fór til Milan í janúar eftir að hafa ekki fengið greidd laun í hálft ár.

Parma er gjaldþrota eftir mikla dramatík í kringum eigendur félagsins sem hafa verið að kaupa og selja félagið á eina evru.

Giampietro Manenti er núverandi forseti og eigandi Parma en honum hefur ekki tekist að rétta úr kútnum þrátt fyrir stór loforð og er mjög illa liðinn fyrir vikið. Paletta segir ástandið hafa verið gríðarlega slæmt fyrir komu Manenti.

,,Þegar ég var hjá Parma þá var Tommaso Ghirardi forseti og svo Rezart Taci, allt fyrir komu Giampietro Manenti, en ástandið þá var nokkurn veginn eins og það er núna," sagði Paletta við Sky Sport Italia.

,,Leikmenn komu og þeim voru lofaðir peningar en það var í raun augljóst að þetta myndi enda með gjaldþroti.

,,Þeir sögðu okkur að launin kæmu næsta mánudag, svo fórum við í bankann á mánudegi og þá var okkur sagt að koma aftur á miðvikudegi, og svona hélt þetta áfram í hverri einustu viku.

,,Það er til skammar að svona stórkostlegt félag í svona fallegri borg með stórkostlega stuðningsmenn bakvið sig sé komið á þennan stað.

,,Þrátt fyrir að hafa verið á botni deildarinnar með allt gegn okkur gáfum við aldrei neitt eftir á vellinum."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner