Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   mið 01. júlí 2015 10:00
Magnús Már Einarsson
Leikmenn Tindastóls fóru í rútu í leik á heimavelli
Tindastólsmenn í rútunni í gær.
Tindastólsmenn í rútunni í gær.
Mynd: Tindastóll
Leikmenn Tindastóls fóru í rútuferð fyrir leikinn gegn KF í 2. deildinni í gærkvöldi. Það væri líklega ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að um var að ræða heimaleik Tindastóls á Sauðárkróki.

Tindastóll hefur unnið tvo leiki í 2. deildinni í sumar en báðir sigurleikirnir voru eftir langa rútuferð. Fyrst gegn Sindra á Höfn í Hornafirði og síðan gegn Hetti á Egilsstöðum í síðustu viku.

„Hlynur Örn (Hlöðversson) markmaður okkar er mjög hjátrúafullur og mikill rútínumaður. Hann hefur trú á að ef það sem við gerum leiðir til góðs að þá eigum við að halda því áfram. Þannig það má segja að hann hafi platað Sigga Donna þjálfara í þessa rútuferð," sagði Óskar Smári Haraldsson leikmaður Tindastóls við Fótbolta.net.

Leikmenn Tindastóls hittust því í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í gær og fóru í hálftíma rútuferð áður en þeir mættu aftur á völlinn.

„Við fórum í hjarta Skagafjarðar, Varmahlíð, og til baka. Tilvalið val þar sem ég og Fannar Örn (Kolbeinsson) búum í Varmahlíð þannig þeir í raun pikka okkur upp og tvo puttaferðalanga á leiðinni."

Rútuferðin skilaði ekki sigri í gær en niðurstaðan var 1-1 jafntefli í grannaslag. Tindastóll hefur því einungis fengið stig eftir rútuferðir í leiki í sumar en liðið er með sjö stig í 2. deildinni. Hjálpar rútan svona mikið?

„Það virðist vera. Allavega náum við að sigra á erfiðum útileikjum þar sem fjarðlægðin í leikin er mikil. Rútan er líka frekar kósy, það er þéttsetið og menn verða bara nánari við svona rútuferðir," sagði Óskar léttur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner