Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 01. september 2014 16:20
Magnús Már Einarsson
Kjartan Henry: Var orðinn svolítið leiður á að vera heima
Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Kjartan Henry Finnbogason gekk í dag til liðs við Horsens í dönsku B-deildinni en hann gerði samning sem gildir til sumarsins 2016.

,,Ég hringdi í marga stráka sem eru að spila úti og þeir sögðu allir að þetta væri toppklúbbur. Ég sé það sjálfur eftir að ég kom út, það er allt flott hérna. Núna þarf ég bara að fara í gula búninginn og skora nokkur mörk," sagði Kjartan Henry við Fótbolta.net í dag.

,,Þetta byrjaði aðeins fyrir bikarúrslitaleikinn. Ég frétti af áhuga þá en var lítið að pæla í því. Ég fór að skoða þetta aðeins betur og ég veit að þetta er lið sem hefur verið að fara upp í úrvalsdeild og niður aftur. Fyrir þremur árum var liðið frekar ofarlega í úrvalsdeildinni og í Evrópukeppni. Hér er flottur völlur og allt til alls. Ég talaði síðan við þjálfarann (Bo Henriksen) og hann sannfærði mig um að þetta væri málið."

,,Danska fyrsta deildin er frekar sterk núna. Það voru stór lið sem fóru niður á síðasta tíambili, Viborg og AGF. Þetta er tækifæri sem ég var ekki að búast við eftir meiðslin en ég er kominn í gott stand núna. Stundum þarf maður að byrja neðar og færa sig upp á við."


Skref upp á við
Þrátt fyrir að Horsens leiki í B-deildinni í Danmörku þá er Kjartan Henry á því að hann sé að taka skref upp á við.

,,Já, ég geri það, sama hvað öðrum finnst. Það eru frábærar aðstæður hérna og maður gerir ekkert annað en að spila fótbolta. Það eru tvær æfingar á dag stundum og ég held að þetta sé betri gluggi en að vera heima."

,,Ég var orðinn svolítið leiður á því að vera heima. Það var gaman að taka þátt í þessu og vinna bikarinn en eins og umræðan hefur verið með allt þetta væl þá var ég alveg til í einhverja smá tilbreytingu. Ég tók því bara fagnandi."


Hafði meiri áhrif á fjölskylduna
Kjartan Henry hefur fengið það óþvegið hjá stuðningsmönnum annarra liða á Íslandi en hann segist þó ekki taka það inn á sig.

,,Kannski í tíu mínútur eða einn dag. Þetta hafði ekki áhrif á mig. Þetta hafði meiri áhrif á fjölskylduna en mig sjálfan. Ég næ yfirleitt að snúa þessu við á vellinum."

,,Við náðum að taka bikarinn og KR-ingar eru öruggir í Evrópu á næsta ári sem skiptir mestu máli. Ég kveð þá í ágætis málum. Það hefði verið gaman að vinna í gær og halda þeim inn í þessu en það er ekki á allt kosið."


Búinn að ná sér af meiðslunum
Kjartan Henry hefur verið mikið frá keppni vegna meiðsla undanfarin ár en hann segist vera kominn í gott stand núna.

,,Ég er búinn að ná mér fullkomlega. Ég þarf hins vegar að hugsa vel um mig og kannski leggja meira á mig en þessir ungu spræku strákar. Það er allt í góðu. Ég er hrikalega ánægður með að vera kominn á þennan stað og vonandi verður þetta upp á við héðan í frá," sagði Kjartan Henry að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner