Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 01. september 2015 20:54
Magnús Valur Böðvarsson
Umfjöllun: Frábær endurkoma Augnabliks gegn KFG
Stefán Jóhann Eggertsson skoraði fjórða mark Augnabliks.
Stefán Jóhann Eggertsson skoraði fjórða mark Augnabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Augnablik og KFG léku í kvöld seinni leik liðanna í 8.liða úrslitum 4.deilar karla en KFG hafði unnið fyrri leikinn 1-0 í Garðabæ.

Gestirnir í KFG byrjuðu leikinn af krafti og komust yfir strax á 3.mínútu þegar Eyjólfur Örn Eyjólfsson sendi boltann á Bjarna Pálmason sem renndi honum innfyrir á fyrirliðann Daða Kristjánsson sem slapp einn í gegn og skoraði af öryggi. Þetta þýddi að Augnablik þurfti að skora þrjú mörk til þess að komast áfram.

Gestirnir héldu áfram að verjast vel og beita hættulegum skyndisóknum en heimamenn komust lítt áleiðis á meðan gestirnir voru líklegri að bæta við. Smám saman komust Augnabliksmenn betur inní leikinn og jöfnuðu í sínu fyrsta færi þegar Hreinn Bergs komst einn í vítateig KFG og kláraði af öryggi. KFG menn voru óheppnir að komast ekki yfir þegar skot þeirra endaði í slánni en staðan var 1-1 í hálfleik.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn á að pressa stíft og uppskáru mark snemma í seinni hálfleik. Hreinn Bergs komst þá í gott færi sem varnarmenn KFG náðu að renna sér fyrir og boltinn stefndi í horn þegar Gunnar Örn Jónsson mætti á fjærstöngina eins og gammur og kom boltanum yfir línuna. Þarna því ljóst að Augnablik þyrfti aðeins eitt mark til að taka forystu í einvíginu.

KFG náði að halda lengi aftur af Augnabliksliðinu en pressa heimamanna var stíf og skilaði sér á 78.mínútu þegar varamaðurinn og vinstri bakvörðurinn Styrmir Másson hirti upp boltann eftir misheppnaða hreinsun og skoraði af öryggi.

Eftir þetta var aldrei spyrning hvorum megin sigurinn mundi lenda og Stefán Eggertsson skoraði eftir skyndisókn á 89 mínútu. Þeir voru ekki hættir og Hreinn Bergs rak endahnútinn á leikinn með marki í uppbótartíma. Augnablik mætir liði Vængja Júpiters í undanúrslitum en búast má við hörku einvígi í þeim leik.
Athugasemdir
banner