Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mið 01. október 2014 12:51
Elvar Geir Magnússon
Jón Daði gagnrýnir þjálfara sinn hjá Viking
Jón Daði Böðvarsson í landsleiknum gegn Tyrklandi.
Jón Daði Böðvarsson í landsleiknum gegn Tyrklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslendingaliðið Viking í Stafangri er í áttunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar en landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson er í viðtali við fjölmiðla þar í landi þar sem hann gagnrýnir skort á leikskipulagi.

Viking hefur aðeins unnið einn af síðustu átta leikjunum sínum.

„Þetta er alls ekki nógu gott og það er ekkert plan í gangi. Ef þetta verður svona áfram þá verðum við líka í veseni á næsta ári," sagði Jón Daði við Rogalands Avis.

Hann telur að félagið og þjálfarateymið þurfi að bregðast við en Svíinn Kjell Jonevret er þjálfari Viking.

„Fyrir tímabilið var plan í gangi en það er horfið og enginn veit sitt hlutverk á vellinum. Það þarf að laga þetta eins fljótt og hægt er. Þetta er hrikalegt fyrir leikmenn liðsins og maður nær ekki að njóta sín á vellinum."

Jón Daði skoraði sitt fyrsta mark fyrir A-landsliðið á dögunum þegar liðið vann 3-0 sigur gegn Tyrklandi.

„Það er allt annað uppi á teningnum þegar ég fer í landsliðsverkefni, hvort sem það er A-landsliðið eða U21-liðið. Þar er leikskipulagið alltaf skýrt og hægt að fylgja því 100%. Allir leikmennirnir vita hvað þeir eiga að gera og þá ná menn að blómstra," sagði Jón Daði.

Viking hefur verið án aðstoðarþjálfara síðan Kåre Ingebrigtsen fór að starfa fyrir Rosenborg í júlí og veltir Rogalands Avis því upp hvort brotthvarf hans hafi haft þetta mikið að segja. Jón Daði segist ekki geta lagað vandamálið sjálfur.

„Ég ber líka ábyrgð sem einn af leikmönnum en ég er bara 22 ára og er enginn þjálfari. Ég veit ekki hvað þarf að gera til að laga þetta en ljóst er að á einhvern hátt þarf að bregðast við."

Fjórir aðrir Íslendingar spila fyrir Viking en það eru Indriði Sigurðsson, Steinþór Freyr Þorsteinsson, Björn Daníel Sverrisson og Sverrir Ingi Ingason.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner