Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 01. október 2016 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ranieri hefur ekkert á móti því að Vardy fái sér vín fyrir leik
Mynd: Getty Images
Claudio Ranieri var spurður út í sína skoðun á undirbúningi Jamie Vardy fyrir leiki með Leicester City á blaðamannafundi í gær. Ranieri segist ekkert hafa á móti því svo lengi sem leikmaðurinn standi sig inn á vellinum.

Vardy er að gefa út ævisögu sína og undanfarið hafa birst áhugaverðir hlutar úr henni. Á dögunum birtist hluti úr bókinni þar sem Vardy lýsir undirbúningi sínum fyrir leiki með Leicester. Þar kemur fram að hann drekkur 250 ml af rauðvíni, kvöldið fyrir leik.

„Ég ákvað að drekka rauðvín fyrir alla leiki tímabilið 2015/2016. Ég er vanalega ekki hjatrúafullur en eftir að ég skoraði í opnunarleiknum gegn Sunderland vildi ég ekki breyta neinu," sagði Vardy en hann fær sér rauðvín meðan hann horfir á sjónvarpið kvöldið fyrir leik.

Ranieri var spurður út í þessi ummæli Vardy á blaðamannafundi í gær, en hann segist lítið sem ekkert hafa á móti þessu.

„Við erum með næringarfræðing sem gefur þeim nokkra hluti, en þegar þeir fara heim sem atvinnumenn þá geta þeir borðað og drukkið hvað sem þeir vilja," sagði Ranieri á blaðamannafundinum.

„Fyrir mér þá er það mikilvægt að horfa á það sem gerist á vellinum og þegar þeir æfa vel og spila vel, þá er ég ánægður. Ég hef ekkert á móti þessu."

Þegar Vardy er að spila klukkan 15:00 á laugardögum þá lætur hann eina máltíð nægja fyrir leik. Hann drekkur hins vegar þrjár dósir af Red Bull orkudrykk og tvöfaldan espresso kaffibolla.

„Þrír Red Bull, tvöfaldur espresso og eggjakaka með osti og skinku er það sem fær mig til að hlaupa eins og vitleysingur á leikdegi," sagði Vardy ennfremur um undirbúning sinn.

Sjáðu einnig:
Vín daginn fyrir leik hjá Vardy - Þrír Red Bull á leikdegi
Athugasemdir
banner
banner
banner