Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   þri 01. desember 2015 16:47
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Akraborgin 
Emil Hallfreðs: Við erum í skítamálum
Emil Hallfreðsson.
Emil Hallfreðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andrea Mandorlini var í gær rekinn sem þjálfari Emils Hallfreðssonar og félaga í Hellas Verona. Verona vermir botnsæti ítölsku A-deildarinnar.

„Það er alltaf þjálfarinn sem fær að kenna á því fyrir gengið, það er eðilegt í fótboltaheiminum þó að mínu mati sé þetta ekki honum að kenna. Það er fullt af hlutum sem hafa ekki gengið upp í ár," sagði Emil í viðtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni á X-inu.

Mandorlini hefur verið þjálfari Emils nokkuð lengi.

„Ég hef bara góða sögu að segja, við höfum farið í gegnum næstum fimm ár saman og það hefur bara nánast gengið vel. En núna var mælirinn orðinn fullur og því miður var hann látinn fara. Það er eitthvað sem hefur ekki virkað í ár og við þurfum að finna fljótt út úr því hvað það er, annars förum við niður í B-deildina."

„Við höfum ekki náð að vinna leik sem er ótrúlegt. Þá fer þetta að vera meira andlegt hjá mönnum en annað. Við erum í skítamálum, það verður bara að segja alveg eins og er. Það er komin pressa frá stuðningsmönnum og öllum. Þó það hafi gengið vel síðustu ár snýst fótboltinn svo mikið um daginn í dag," sagði Emil.

Emil hefur verið einn ljósasti punkturinn í liði Verona á tímabilinu en í morgun var tilkynnt að Luigi Delneri sé nýr þjálfari liðsins. Emil var meðal leikmanna sem Delneri tók sérstaklega fram að hann hefði miklar mætur á.

„Mitt markmið er bara að hjálpa liðinu eins og ég get. Við verðum að bjarga okkur frá falli og ég hef enn trú á þessu. Við höfum nánast sama byrjunarlið í fyrra nema við styrktum okkur fyrir þetta tímabil. Við höfum verið gríðarlega óheppnir með meiðsli og vorum án alvöru framherja tíma. Það hefur verið mikið af einstaklingsmistökum og margt smátt gerir eitt stórt," sagði Emil í Akraborginni.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Athugasemdir
banner