þri 01. desember 2015 12:00
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Mirror 
Fimm breytingar sem gætu gert Man Utd skemmtilegra
Er best fyrir alla að Rooney fái að kynnast varamannabekknum?
Er best fyrir alla að Rooney fái að kynnast varamannabekknum?
Mynd: Getty Images
Andreas Pereira.
Andreas Pereira.
Mynd: Getty Images
United vantar alvöru markaskorara... núna.
United vantar alvöru markaskorara... núna.
Mynd: Getty Images
Lágt skemmtanagildi Manchester United hefur verið mikið til umræðu að undanförnu en oft á tíðum hefur ansi lítið verið að frétta sóknarlega hjá enska stórliðinu. Stigasöfnunin gengur vel og liðið er í þriðja sæti en spilamennskan er ekki eins og stuðningsmenn eru vanir.

Í Leikhúsi draumanna, eins og Old Trafford er kallaður, vill fólk sjá leiftrandi sóknarbolta og hefur Daily Mirror tekið saman fimm atriði sem gætu fært liðið í þá átt.

1 - Taka Wayne Rooney úr liðinu
Desember er genginn í garð og fyrirliðinn hefur aðeins skorað tvö mörk og lagt eitt upp. Talað hefur verið um að Rooney sé ekki í standi, hvorki líkamlega né andlega, og virki oft áhugalaus. Margir telja að Sir Alex Ferguson hefði verið búinn að sparka Rooney á þessum tímapunkti meðan Louis van Gaal notar hvert tækifæri til að bakka hann upp.

Hvort þetta sé formið eða einfaldlega aldurinn að segja til sín hefur Rooney skort hraða og ekki virkað nægilega klókur þegar hann er færður aftar á völlinn. Smá bekkjarseta gæti kannski gert honum gott?

2 - Gera Schweinsteiger að fyrirliða
Þýski landsliðsfyrirliðinn er þekktur fyrir að drífa sín lið áfram og hefur verið heitur að undanförnu. Hann bjó til sigurmarkið gegn Watford og hamraði inn jöfnunarmarkinu gegn Leicester og er ákveðinn í að stimpla sig inn í enska boltann. Ólíkt mörgum liðsfélögum sínum er Þjóðverjinn alltaf til í að axla ábyrgð þegar mest er undir.

Hann býr ekki yfir sömu ógn sóknarlega og hann hafði á árum áður en miðja United er miklu öruggari með hann innanborðs. Ef hann tæki við fyrirliðabandinu myndi hann líka létta pressunni á Rooney.

3 - Gefa Pereira tækifæri
Van Gaal er þekktur fyrir að gefa ungum leikmönnum tækifæri og það hefur ekki verið öðruvísi hjá United. Hann gaf Andreas Pereira tækifæri og stjarna Brasilíumannsins skein í 3-0 sigri gegn Tottenham í deildabikarnum í september. Síðan þá hefur Pereira aðeins leikið ellefu mínútur í úrvalsdeildinni.

Van Gaal virðist ekki treysta Pereira sem er aðeins 19 ára gamall. Hann býr þó yfir góðri tækni og auga fyrir sendingum og fyrsta snertingin hjá honum er vafalítið betri en hjá Rooney. Strákur sem gæti komið með ferska vinda í sóknarleikinn.

4 - Spila bara með einn djúpan á miðjunni
United hefur spilað með tvo afturliggjandi miðjumenn í heimaleikjum þar sem það er óþarfi; gegn West Brom í nóvember og PSV Eindhoven í Meistaradeildinni sem dæmi. Spilað hefur verið 4-2-3-1 kerfi þar sem Michael Carrick, Bastian Schweinsteiger og Morgan Schneiderlin hafa skipt á milli sín stöðunum tveimur sem vernda öftustu fjóra.

Þeir fá ekki leyfi til að gera mikið meira en að verjast sem er sóun gegn liðum sem hafa eina markmiðið að verjast á Old Trafford. Hugmynd er að spila þá frekar með tígulmiðju þar sem sóknarmaður kemur inn í staðinn fyrir annan af djúpu miðjumönnunum.

5 - Kaupa traustan markaskorara
Manchester United hefur ekki haft traustan markaskorara síðan liðið var með 2012-13 útgáfuna af Robin van Persie. Því miður fyrir Van Gaal og United er ansi ólíklegt að þessi týpa af leikmanni fáist í janúarglugganum.

Anthony Martial virtist lausnin á þessu vandamáli þegar hann kom fyrst en síðan hefur hægst verulega á markaskorun hans. Skiljanlegt í ljósi þess að hann er oft notaður á vængnum og er aðeins 19 ára gamall að auki. United þarf markaskorara núna, ekki eftir þrjú til fjögur ár.

Harry Kane er augljósasti kosturinn eftir að hann hefur sannað að markaskorun hans síðasta tímabil var ekki bara heppni. Romelu Lukaku er annar möguleiki en ólíklegt er að Everton selji hann meðan liðið bindur vonir við að enda í topp fjórum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner