Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mán 02. maí 2016 23:11
Ívan Guðjón Baldursson
Ranieri: Endum vonandi meðal tíu efstu á næsta tímabili
Mynd: Getty Images
Claudio Ranieri var hógværðin uppmáluð þegar hann og lærisveinar hans í Leicester City voru krýndir Englandsmeistarar fyrr í kvöld.

Ranieri sagði eftir leikinn að hann ætlaði sér að vera áfram í stjórastól Leicester og að markmið næsta tímabils væri að enda í efri helming deildarinnar.

„Ég er 64 ára gamall og hef verið í þessum bransa í langan tíma. Ég hef aldrei áður unnið deildartitil en hef alltaf verið jákvæður og haft jákvæðnina með mér í liði," sagði Ranieri við ítölsku sjónvarpsstöðina Rai 3 eftir jafnteflisleik Chelsea og Tottenham.

„Ég hélt alltaf að ég myndi vinna deildartitil einhversstaðar að lokum. Ég er enn sami maðurinn og ég hef alltaf verið. Ég er sami maður og var rekinn úr gríska landsliðinu, kannski var einhver þar búinn að gleyma ferlinum mínum. Ég hef ekkert breyst síðan þá.

„Ég ætla að vera áfram hjá Leicester en það er á hreinu að þetta tímabil er eitthvað sem getur ekki endurtekið sig. Á næsta tímabili munum við berjast um að enda meðal tíu efstu liða deildarinnar, vonandi."


Ranieri sagðist hafa verið að fylgjast með viðureign Chelsea og Tottenham og talaði svo um stoltið sem fylgir því að vera einn af þekktustu Ítölum knattspyrnuheimsins.

„Það er erfitt að átta sig á öllum tilfinningunum eftir þennan leik. Ég var svolítið leiður þegar Tottenham var tveimur mörkum yfir í hálfleik en þegar Cahill minnkaði muninn trúði ég að eitthvað gæti gerst. Svo skoraði Hazard og þá fagnaði ég.

„Ég er mjög ánægður með að vera sendiherra ítalskrar knattspyrnu á Englandi. Það fær mig til að hugsa til baka þegar ég var við stjórn hjá Chelsea og Gianfranco Zola spilaði fyrir félagið.

„Hann var sannkallaður sendiherra ítalskrar knattspyrnu á Englandi. Áhorfendur beggja klöppuðu alltaf fyrir honum því hann var ótrúlegur leikmaður. Hann var besti sendiherra sem Ítalía gat óskað sér og hann hefur alltaf veitt mér innblástur."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner