Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 02. júlí 2015 11:45
Arnar Daði Arnarsson
Hólmbert: Eitt, tvö og þrjú að finna gleðina á ný
Hólmbert Aron er mættur í KR.
Hólmbert Aron er mættur í KR.
Mynd: Getty Images
Hólmbert Aron lék síðast með Fram hér á landi.
Hólmbert Aron lék síðast með Fram hér á landi.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmbert Aron Friðjónsson gekk í raðir KR frá Celtic í gær. Hann skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við KR.

Hólmbert hefur verið í herbúðum Celtic frá 2013, en hann var í láni hjá Bröndby í Danmörku á síðasta tímabili.

Hafnaði tveimur tilboðum að utan
„Ég var ekki viss fyrst hvort ég hafði möguleika á því að koma heim, þar sem ég var enn samningsbundinn Celtic. En síðan heppnaðist það og ég er rosalega ánægður með það," sagði Hólmbert sem fór í viðræður við þrjú félög hér heima auk þess sem hann fékk samningstilboð að utan.

„Mér leist vel á það sem KR hafði upp á að bjóða. Þetta er stór klúbbur á Íslandi og er að berjast um titla og mér langaði að komast í þannig umhverfi."

„Ég hafnaði tveimur tilboðum að utan. Ég skoðaði vel tilboð frá Vestsjælland en mér leið ekkert alltof vel úti og var kominn með mikinn kvíða. Á tíma fannst mér ekkert alltof skemmtilegt að vera mæta á æfingar og ég vildi því frekar koma heim og núllstilla mig og finna gleðina á ný. Það var ein af stærstu ástæðunum fyrir því að ég ákvað að koma heim," sagði Hólmbert sem fór einnig í viðræður við Breiðablik.

Hólmbert er uppalinn í öðru liði í Kópavoginum, HK. Hann segir að það hafi ekkert skipt máli í sínum huga, þegar hann var að ræða við Breiðablik.

„Það var möguleiki að fara í Blikana. Mér leist vel á þá og það gengur vel hjá þeim um þessar mundir. Ég ákvað hinsvegar að velja KR frekar."

Atvinnumennskan ekki fyrir alla
Eins og hann segir, var honum farið að líða heldur illa úti, enda fékk hann fá tækifæri hjá Bröndby á nýafstöðnu tímabili. Atvinnumennskan er ekki dans á rósum eins og kannski margir halda.

„Þetta er ekkert auðvelt líf. Ég held að fólk átti sig ekki alltaf á því. Þetta getur verið mjög erfitt og þetta er kannski ekki fyrir alla. Þetta getur tekið á. En það eru góðir kostir við þetta líka," sagði Hólmbert, en stefnir hann á að fara út aftur?

„Markmiðið núna er að koma heim og ná að núll stilla mig og ef það gefst kostur á að fara út aftur, þá væri það draumurinn. En eins og er þá skrifaði ég undir tveggja og hálfs árs samning og ég er bara að einbeita mér að því. Ég ætla njóta þess að spila með KR."

Hefur þroskast gríðarlega mikið
Hólmbert segist ekkert hræðast samkeppnina í KR-liðinu. Hann mætir á sína fyrstu æfingu með KR-liðinu á föstudaginn og stefnir á að vinna sig hægt og bítandi inn í byrjunarliðið hjá KR.

„Ég þekki samkeppni mjög vel eftir að hafa verið úti síðustu ár. Samkeppni heldur þér á tánum og þú verður hafa einhvern sem ýtir á bakið á þér til að bæta þig og taka framförum."

„Það er auðvitað alltaf pressa á sóknarmönnum að skora mörk og vonandi kemur það með tímanum."

„Ég þarf að byggja upp sjálfstraustið aftur og finna gleðina á að vera í fótbolta. Það er númer eitt, tvö og þrjú hjá mér núna."

Hólmbert segist hafa lært heilmikið á því að hafa farið út í atvinnumennsku.

„Ég hef þroskast gríðarlega mikið. Ég hef verið í tveimur gríðarlega stórum félögum og reynslan sem ég hef öðlast að æfa með þessum liðum mun vonandi nýtast mér. Ég hef þurft að standa á eigin fótum og búið einn og þetta er allt sem tikkar inn í reynslubankann. Ég er gríðarlega sáttur með þetta, þó þetta hafi kannski ekki gengið eins vel og ég vildi," sagði Hólmbert Aron að lokum.

Fyrsti leikurinn sem Hólmbert verður löglegur með KR verður stórleikur FH og KR í Kaplakrika, 19. júlí.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner