fim 02. júlí 2015 19:09
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: Bild 
Podolski seldur ódýrt til Galatasaray
Mynd: Getty Images
Þýski miðillinn Bild greinir frá því að tyrkneska stórliðið Galatasaray sé búið að kaupa Lukas Podolski frá Arsenal á lítinn pening. Bild segir Galatasaray aðeins þurfa að borga 4 milljónir evra, sem eru tæplega 3 milljónir punda, fyrir leikmanninn.

Arsene Wenger vildi halda Podolski hjá Arsenal en gat ekki lofað honum byrjunarliðssæti og þess vegna ákvað sóknarmaðurinn að leita á önnur mið.

Podolski, einnig þekktur sem Poldi, skoraði að meðaltali í þriðja hverjum deildarleik Arsenal þrátt fyrir að koma oft inn af bekknum. Poldi var lánaður til Inter í vetur og gerði þar aðeins eitt mark í sautján leikjum.

Poldi er 30 ára gamall og þriðji markahæsti leikmaður þýska landsliðsins frá upphafi, ásamt Rudi Völler og Jürgen Klinsmann.
Athugasemdir
banner
banner
banner