Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
banner
   fim 04. janúar 2024 12:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Freyr að ganga inn í félag sem lenti í ótrúlegu máli í fyrra
Þriðji þjálfarinn á tímabilinu
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Lyngby
Vincent Tan er eigandi Kortrijk.
Vincent Tan er eigandi Kortrijk.
Mynd: Getty Images
Kortrijk er í fallsæti í belgísku úrvalsdeildinni.
Kortrijk er í fallsæti í belgísku úrvalsdeildinni.
Mynd: Getty Images
Freyr er nýr þjálfari Kortrijk.
Freyr er nýr þjálfari Kortrijk.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson hefur verið ráðinn þjálfari Kortrijk í Belgíu. Þessi óvæntu tíðindi bárust í morgun en Freyr hættir með Lyngby í Danmörku til að taka við Kortrijk.

Freyr hefur vakið mikla athygli fyrir árangur sinn hjá Lyngby, hann kom liðinu upp í efstu deild og náði að halda því þar með ótrúlegum hætti á síðasta tímabili eftir að staðan var svört. Liðið siglir nú lygnan sjó í deildinni.

Freyr hefur stýrt Lyngby síðan 2021 en áður var hann aðstoðarmaður Heimis Hallgrímssonar hjá Al-Arabi í Katar, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, aðalþjálfari Leiknis, aðstoðarþjálfari karlaliðs Vals og aðalþjálfari kvennaliðs Vals.

Kortrijk situr í neðsta sæti belgísku deildarinnar með tíu stig eftir tuttugu umferðir, en félagið hefur gengið í gegnum skrítna tíma undanfarið ár.

Lentu í svikahröppum
Vincent Tan er eigandi Kortrijk í Belgíu, en hann er líka eigandi Cardiff á Bretlandseyjum. Tan er skrautlegur karakter en hann vakti á sínum tíma mikla reiði á meðal stuðningsmanna Cardiff er hann breytti treyjulitunum úr bláum í rautt. Hann breytti einnig merki félagsins í rauðan dreka. Þetta var gert til að auka vinsældir félagsins, meðal annars í Kína.

Tan hefur verið að skoða það að selja Kortrijk og var hann kominn með samkomulag þess efnis síðasta sumar. Hann samdi þá við Maciek Kaminski og son hans, Mikhai, um sölu á félaginu. Um er að ræða bandaríska feðga með ættir að rekja til Póllands. Þeir sögðust hafa grætt formúgu af fasteignasölu og ætluðu að nýta auð sinn í að kaupa fótboltafélag.

Í ljós kom að þeir reyndust svikahreppir. Belgískir fjölmiðlar hafa fjallað vel um málið, en þar kemur fram að Kaminski-feðgarnir hafi lofað því að borga 15 milljónir evra fyrir félagið, en það þótti skrítið þar sem verðmiðinn var mun lægri. Þeir samþykktu allt strax og settu fram bankastaðfestingu. Þeir héldu svo blaðamannafund og lofuðu öllu fögru. Þeir hittu meðal annars bæjarstjórann í Kortrijk og funduðu með honum.

En fjármunirnir skiluðu sér aldrei og grunur var um að bankastaðfestingin væri fölsuð.

Það er talið að Kaminski-feðgar hafi leitað til ríkra fjárfesta í von um að fá fjármagn. Þeir hafi ætlað sér að fá meira fjármagn en þörf var á til að kaupa félagið, og hirða svo gróðann sjálfir. Þessi svikamylla virðist ekki hafa gengið upp hjá þeim en Tan hefur verið gagnrýndur fyrir að rannsaka ekki þessa feðga nánar.

Kaminski-feðgarnir reyndu svipaða hluti með grískt félag sem heitir Panetolikos og hafa einnig lýst yfir áhuga á því að kaupa Everton í Englandi. Það verður nú að teljast ólíklegt að þeir sjáist mikið oftar í fótboltanum.

Mikill sirkus
Þetta var mikill sirkus allt saman og hefur þetta mál skapað mikil vandamál fyrir félagið innan vallar. Út af þessari sápuóperu þá byrjaði félagið tímabilið með einungis 14 leikmenn í sínum aðalliðshóp. Það þurfti að bregðast hratt við og náði liðið ekki að spila sig saman áður en tímabilið byrjaði.

Edward Stilll, bróðir hins umtalaða Will Still, var stjóri Kortrijk í upphafi tímabilsins en hann var rekinn í september á síðasta ári. Í belgískum fjölmiðlum var talað um hann sem fórnarlamb þessa sirkus sem hefur verið í kringum félagið.

Glen De Boeck var rekinn úr stjórastarfinu hjá Kortrijk á dögunum en hann stýrði liðinu í aðeins níu leikjum. Eftir að hann var rekinn greindi De Boeck hversu illa hefur verið haldið utan um félagið að undanförnu.

De Boeck sagði eftir að hann var rekinn að æfingavellirnir hjá félaginu væru skelfilegir og grínast væri með það að kýr fengju að vera á svæðinu eftir æfingar. Leikmenn hefðu þá ekki fengið aðgang að heitu vatni á svæðinu um tveggja vikna skeið.

„Vincent Tan er aðalmaðurinn í þessari krísu þar sem hann vill ekki fjárfesta og hefur síðan viðskipti við tvo hálfvita," sagði sérfræðingurinn Peter Vandenbempt á sínum tíma en Freyr þarf núna að vinna með Tan, sem er enn eigandi félagsins á meðan hann leitast eftir því að selja.

Besti árangur Kortrijk var fjórða sæti í belgísku úrvalsdeildinni 2010 en síðustu ár hafa ekki verið góð og yfirstandandi tímabil sérstaklega. Liðið er í skelfilegum málum og Freyr þarf líklega að skapa enn stærra kraftaverk en hann gerði hjá Lyngby.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner